20.10.1954
Sameinað þing: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í D-deild Alþingistíðinda. (2827)

22. mál, rányrkja á fiskimiðum fyrir Vestfjörðum

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Það hefur verið bent á það hér af nokkrum hv. þm. á undan mér, að það væri að vísu nokkuð óvenjulegt, að um þáltill. sem þessa væru jafnmiklar umr. og þegar eru orðnar. En þar sem fulltrúar af Vestur- og Norðurlandi hafa þegar sagt sína raunasögu um atvinnuástandið á þeim stöðum, tel ég ekki óeðlilegt, að einnig komi rödd af Austfjörðunum, sem að vissu leyti verður ekki mjög frábrugðin því, sem áður hefur verið sagt. Þar eru sams konar erfiðleikar og á borð við þá, sem upp eru taldir í þeirri till., sem þrír hv. þm. hafa hér flutt og vissulega er þörf á að samþykkt verði, þó að sú nefnd, sem um getur í till., mætti gjarnan hafa öllu víðtækara starfssvið en þar er gert ráð fyrir. Ég skal ekki á neinn hátt draga úr því, sem hv. frsm. sagði um það ástand, sem á Vestfjörðum ríkir og sjálfsagt víða á Norðurlandi, eins og hv. þm. Ak. benti hér á áðan, en vil minna á það, að það eru til staðir víðar á landinu, eins og t. d. á Austurlandi, og verða mér þá sérstaklega minnisstæðir Seyðfirðingar, sem fengu á sínum tíma nýsköpunartogara, en hafa ekki á einn eða annan hátt getað hagnýtt sér hann síðan, vegna þess að þær hv. ríkisstjórnir, sem setið hafa við völd síðan sá togari kom til landsins, hafa ekki séð ástæðu til að rétta þessum stað á Austfjörðum þá fjárhagslegu aðstoð, sem hann þurfti til að geta hagnýtt sér til hlítar það skip, sem honum var þó úthlutað. Þetta hefur þýtt það, að skipið hefur orðið að leggja upp á fjarlægum stöðum um margra ára skeið, og Seyðfirðingum er með því gert ókleift að stunda sjómennsku á skipinu, jafnframt því sem skipið hefur lítið sem ekkert lagt Seyðfirðingum til af atvinnu. Slíkt ástand eins og ríkir um mál kaupstaðar eins og Seyðisfjarðar hefur verið bent á víðar á landinu, og er sjálfsagt satt og rétt, en ég taldi nauðsynlegt að benda á það neyðarástand, sem ríkir í atvinnumálum Seyðisfjarðar og reyndar víðar á Austfjörðum, áður en þessi till. fer í n., þar sem búast mætti við því, að till. kæmu fram við síðari umr. um víðara starfssvið þeirrar n., sem um getur í till. þeirra hv. þm. N-Ísf. og hinna tveggja, er till. flytja með honum.

Ég þarf ekki að ítreka það, sem aðrir hv. þm. hafa hér minnt á, hvað þessir hlutir þýða fyrir slíka staði. Þeir þýða fólksflótta þaðan og þá fyrst og fremst hingað til Suðvesturlandsins, skapa þar aftur önnur vandamál, svo sem húsnæðisböl, og þegar afturkippur kemur í þá hervarnavinnu, sem nú er unnin, þá mun að sjálfsögðu verða tvöfalt það böl, sem þessi fólksflótti hefur orsakað, í fyrsta lagi á stöðunum, sem flúið var frá, og eins að ekki voru þeir staðir færir um að taka við, sem flutt var til, af mörgum ástæðum og þá fyrst og fremst húsnæðis- og atvinnulega séð.

Ég tek því að lokum eindregið undir þau eggjunarorð hv. þm. Ak. um áskorun á ríkisstj., að hún leggi fram það fé, sem afgangs verður á fjárlögum, og veiti til þess sérstakan lið einnig á fjárlögum að bæta úr atvinnuástandi þeirra staða, sem ekki þola langa rannsókn slíkra mála, heldur þarfnast fyrst og fremst skjótrar úrlausnar.