20.10.1954
Sameinað þing: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í D-deild Alþingistíðinda. (2829)

22. mál, rányrkja á fiskimiðum fyrir Vestfjörðum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ak., sem er lögfræðingur, lét það í ljós áðan, er hann talaði, að hann teldi víst, að þau stjórnarvöld, sem réðu því, hvernig núgildandi friðunarlína var dregin, mundu þá hafa farið eins langt og þau þorðu. Ég hef hins vegar fulla vissu og fyrstu handar heimildir um það, að þannig var ekki á máli haldið, heldur var farið svo skammt, þegar línan var ákveðin, að alveg þætti öruggt, að hvert einasta atriði í þeirri ákvörðun stæðist fyrir alþjóðadómi. Ég endurtek: Það var út frá þessu sjónarmiði, sem línan var dregin, að svo hóflega skyldi í sakir farið, að það væri alveg öruggt, að hvert einasta atriði í þessari ákvörðun stæðist fyrir alþjóðadómi. Það hefur verið viðurkennt á innlendum og erlendum vettvangi af hæstv. forsrh., og hef ég þar milliliðalaust á þann boðskap hlýtt, að það var sú meginregla, sem réð aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar. Það er kannske engin ástæða til þess að ásaka hæstv. ríkisstj. fyrir það að fara svona varlega í sakirnar á sínum tíma. En það sýnir okkur samt fyllilega, að einmitt vegna þessarar varfærni er nú full ástæða til að draga ályktanir af fenginni reynslu og stíga annað skref til viðbótar til útfærslu línunnar, a. m. k. þar, sem sérstaklega aðkallandi aðstæður eru fyrir hendi, eins og fyrir Vestfjarðaströndinni. Þegar við sjáum, að friðunin er þar ófullnægjandi og liggur við, að atvinnuvegur, sem hefur verið aðalatvinnuvegurinn í heilum landshluta frá landnámstíð, er að leggjast í auðn, þá er fyllsta ástæða til að stíga annað skref, svo framarlega sem það þykir fært. Nú hefur verið farið fram á það, að ákvæði gildandi laga um aukna friðun verði notuð, og það er margsinnis upplýst, að það eru ekki til nein ákvæði í alþjóðalögum um 3 eða 4 sjómílna landhelgi. Það eru lífsmöguleikar fólksins í strandríkinu, sem fyrst og fremst verða að ráða slíkum aðgerðum. Og hefur alþjóðadómstóll nú viðurkennt, að það skuli jafnan vera eitt af höfuðgrundvallaratriðum. sem á er litið. þegar dæmt sé um lögmæti landhelgisákvarðana. Ég held því, að enginn skaði væri skeður, þó að það yrði prófað af hæstv. ríkisstj. að færa út friðunarlínuna fyrir Vestfjörðum 12 sjómílur til hafs í viðbót við það, sem núverandi lína ákveður, vegna alveg sérstakra landfræðilegra og hagfræðilegra ástæðna. Það mál væri þá alveg út af fyrir sig prófað fyrir alþjóðadómi. En ríkisstj. þykist vera alveg örugg með það, að alþjóðadómstóll muni aldrei hnekkja fjögurra sjómílna línunni, sem nú hefur verið ákveðin. Það gæti því ekki raskað neinu viðvíkjandi því, sem þegar hefur verið gert í málinu. En ef fengin yrði viðurkenning á því, að við mættum á þessu svæði færa okkar friðunarlínu út um 12 sjómílur, þannig að það væru 16 sjómílur frá yztu nesjum, þá værum við þar með búnir að fá vitneskju um það, hver réttur okkar væri að alþjóðalögum til að gera slíkt hið sama kringum allar strendur landsins. Að kröfurnar um aukna friðun fyrir Vestfjörðum þykja engin fjarstæða, sést þegar af því, að hópur af þingmönnum Austfirðinga flutti þegar í fyrra till. um að fara fram á hið sama fyrir Austfjörðum. Þar er nauðsynin að vísu ekki alveg eins brýn og fyrir Vestfjörðum. Og ef gera ætti tilraun með þetta, þá teldi ég, að það væri langsamlega öruggast að gera það fyrst fyrir Vestfjörðunum, ef menn ekki þyrðu að stíga þetta skref til fulls og ákveða 16 sjómílna friðunarbelti strax kringum landið allt.

Hv. flm., þm. N-Ísf., sagði, að ég hefði litið á þáltill. hans, sem hér er til umr., sem andstæðu við þáltill. mína og hv. þm. V-Ísf. um stækkun friðunarsvæðis fyrir Vestfjörðum og sem andstæðu við frv. okkar um ríkisútgerð togara til atvinnujöfnunar. Þetta er alger rangfærsla á mínum orðum, eins og hann vitnaði líka sjálfur til minnar ræðu. Hann sagði, að ég hefði haldið því fram, að þessi till. væri að orðfæri, efni og anda endursögn af þeim þingmálum, sem ég hefði áður flutt. Það var nokkurn veginn orðrétt eftir mér haft, og þess vegna er mín niðurstaða sú, að þetta sé alls ekki andstæða við hin áður nefndu þingmál okkar hv. þm. V-Ísf., heldur dágóð endursögn af þeim málum, þó að sá meginmunur sé þó á, að í þessari nýju till. er lagt til, að skipuð verði n. til að athuga þá hluti, sem við höfðum áður lagt til að verði lögfestir. Ég er fyrir mitt leyti búinn fyrir löngu að fá svo mikið af nefndaskipunum og athugunum á málum, að ég tel það hvergi nærri jafngott og ákveðin lagafyrirmæli til hæstv. ríkisstj.

Hv. síðasti ræðumaður minnti einmitt rétt áðan á nefndarskipun, skipun atvinnumálanefndar ríkisins. Ég var í þeirri nefnd. Hv. þm. sagði, að það liti út fyrir, að þessi n. hefði tekið hlutverk sitt alvarlega, og hefði hún skilað góðu og ýtarlegu nál. Það er rétt, nál. er geysilega mikill „doðrant“. Það fjallar um atvinnuástandið í landinu, eins og það var þá. Í því er að finna lýsingu á atvinnuástandi 44 eða 45 byggðarlaga, og heimildirnar eru atvinnumálanefndir viðkomandi staða. Þetta er því sannfræðilegt rit. En þetta nál. fór „í skaut Abrahams“. þ. e. a. s. í skaut ríkisstj., og hefur hvílt þar síðan. Það hefur ekki sézt, að hún hafi flutt eina einustu till. eða eitt einasta frv. á grundvelli þeirra miklu gagna, sem þarna liggja fyrir hjá henni, snerta atvinnulíf landsmanna og fjalla einmitt um mörg brýn og aðkallandi úrlausnarefni, sem einmitt hefði verið eðlilegast að hæstv. ríkisstj. hefði beitt sér fyrir. Þarna er enn ein sorgarsagan um árangur af starfi nefndar. Reynslan er jafnan sú, að þótt starfið sé unnið af alúð og gögnin séu lögð í hendur ríkisstjórnarinnar, þá virðist eins og það sé allt annað, sem frekar sé hugsað um, heldur en atvinnulífið og ráðstafanir því til aðstoðar.

Niðurstaðan, sem komizt er að í till. hv. þm. N-Ísf. og meðflm. hans, er sú, að í stað þess að knýja á um að friða fiskimið vélbátanna fyrir Vestfjörðum, eigi að gefa þetta upp á bátinn og leita eftir aðstoð hjá ríkinu til að byggja stærri skip, togara, til þess að sigla út yfir hið ófriðaða svæði, þar sem fiskað hefur verið frá upphafi Íslandsbyggðar, og út á Halamiðin þar fyrir utan. Það á sem sé alls ekki samkv. till. að gera neinar ráðstafanir vegna vaxandi rányrkju. Það á bara að horfast í augu við eyðinguna sem staðreynd, láta vélbátaflotann grotna niður á Vestfjörðum eða selja hann í burtu, gefa vélbátaútgerð upp sem atvinnuveg, en biðja ríkið að veita hjálp til þess að kaupa togara, svo að hægt sé að sækja dýpra, sækja á togaramiðin, þar sem erlendir og innlendir togarar fyrirbyggja, að fiskurinn komist upp á grunnmiðin. Ég verð að segja það, að mér er þetta ekki geðfelld úrlausn. Ég bið um aukna friðun, svo að hægt sé að sækja sjóinn fyrir Vestfjörðum með þeim eðlilegasta hætti og áreiðanlega þjóðlega hagnýtasta hætti, þ. e. a. s. á vélbátum, eftir að fiskurinn hefur komizt upp á grunnmiðin. Um þetta bið ég af því, að engin þjóð getur átt frekari rétt en Íslendingar sjálfir til þess að nýta auðlindir sínar. Við hljótum að krefjast þess, að þessi atvinnuvegur landsmanna sé ekki eyðilagður.

Ég vil taka undir það með hv. þm. A-Húnv., að það allra óskemmtilegasta við þessa till. er þó það, að þeirri n., sem ætlazt er til að verði skipuð, er ekki gert að skila áliti fyrr en um það leyti, sem örugglega má búast við að þetta þing ljúki störfum, 1. marz n. k. Það yrði þá ekki neinna úrbóta von af nefndarstarfinu fyrr en í fyrsta lagi á næsta vetri — á næsta Alþingi. Hæstv. ríkisstj. hefði sem sé ekki fengið plögg nefndarinnar, athugunina á þessum málum, í hendur fyrr en um það leyti, sem þessu þingi væri að ljúka. Þingið stendur sennilega ekki miklu lengur en fram í marzbyrjun. Ég er eins og hann sáróánægður með þetta ákvæði þáltill., og undir það hefur verið tekið af fleirum. Ég held, að fyrir Vestfjörðum komi varla neitt annað að verulegu gagni en útfærsla friðunarlínunnar. Jafnframt þyrfti að gera ráðstafanir til aukinnar og bættrar landhelgisgæzlu. Þessu held ég að nefnd, sem helgaði sig athugun á þessum málum, hljóti að geta áttað sig á á tiltölulega stuttum tíma.

Viðvíkjandi þeim óskum og kröfum, sem komið hafa fram hér á hendur ríkisvaldinu um úrbætur á aumlegu atvinnuástandi í þremur landsfjórðungum, vil ég aðeins segja það, að það er vissulega hin alvarlegasta hlið þessa máls, sem krefst skjótra aðgerða, en ekki langdregins og vonlítils nefndarstarfs og athugana.

Það er sem sé búið að athuga þetta mál allgaumgæfilega af atvinnumálanefnd ríkisins, og þau gögn öll hefur hæstv. ríkisstj. Að svo miklu leyti sem nefnd getur athugað þau mál, er búið að athuga þau, ekki aðeins fyrir Vestfirði, því að frá hverri einustu atvinnumálanefnd á Vestfjörðum er komið nál. og úr því er einnig búið að vinna, en einnig frá öllum atvinnumálanefndum í Norðlendingafjórðungi. Hið sama gildir um Austfirðina. Öll þessi gögn liggja, eins og fyrr er sagt, hjá hæstv. ríkisstj. Það er því aðeins eftir að stíga aðalskrefið í þessu máli, sjálft framkvæmdaskrefið. Og þar er það víða aðalatriðið að útvega hinum einstöku stöðum skip, útvega þeim hafnarmannvirki, þar sem þau vantar, útvega þeim aukin fiskvinnslutæki, þar sem þau vantar, og síðast, en ekki sízt, að sjá um, að hráefni berist, til þess að fólkið geti fengið vinnu heima fyrir. Um þetta greinir kannske eitthvað á um leiðir, og þó er það ekki víst.

Það gleður mig að heyra, að hv. þm. N-Ísf. segir nú meira að segja, að hann telji enga fjarstæðu að ræða um ríkisútgerð togara í því sambandi að leysa þennan vanda. Það er þó strax nokkuð í áttina. Við eigum sannarlega að láta fordómana um formshlið slíkra mála víkja, líta á formshlið málsins sem algert aukaatriði og reyna að komast að niðurstöðu um úrlausn málsins. Ég er alveg sannfærður um það, að hv. þm. A-Húnv. er t. d. búinn að sannfærast um, að það er ekki rétta leiðin að reyna að leysa atvinnuþörf hinna einstöku smákauptúna með staðbundinni togaraútgerð. Hann þarf vafalaust ekki að reka sig á nema einu sinni að því er það snertir. Það er búið að gera tilraun með það að leysa atvinnumál Skagastrandar eða Höfðakaupstaðar með útgerð lítils togara. Sú tilraun misheppnaðist algerlega, og sennilega er lítil löngun á þeim stað til þess að endurnýja hana. Ég dreg það t. d. ekki í efa, að það hefði verið hægt að leysa betur atvinnuþörf Djúpuvíkur, Drangsness, Hólmavíkur og Skagastrandar með því að láta ríkisrekinn togara sinna atvinnumálum þessara staða heldur en að kasta hundruðum þúsunda í Drangsnes eitt. — Hundruðum þúsunda, segi ég, það er komið á fjórðu eða fimmtu milljón í það litla kauptún. Og þó er málið óleyst fyrir framtíðina. Tilraunin, sem gerð var með Skagaströnd með gamlan, lítinn togara, var bæði dýr og misheppnuð. Hólmavík var svo látin eiga sig að miklu leyti. Þó var sjómönnum þar hjálpað til að eignast tvo eða þrjá vélbáta. — Ég er alveg sannfærður um, að þegar reikningsdæmið um aðstoðina við þessa staði er gert upp, mun koma í ljós, að varla hefði verið hægt að halda klaufalegar á málum en um þá aðstoð. Mín sannfæring er, að málið hefði verið miklu betur leyst með því að láta einn ríkisrekinn togara flytja hráefni á land til þess að nýta bæði vinnuafl og atvinnutæki á þessum stöðum.