27.10.1954
Sameinað þing: 7. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í D-deild Alþingistíðinda. (2853)

62. mál, jöfnun raforkuverðs

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Hv. 4. þm. Reykv. gerði nokkrar athugasemdir við þetta mál og fannst, að það kynni að vera hæpið, að afgreiðsla málsins yrði — mér skildist það á þá leið, sem lagt er til í þessari till. Hann drap á það, að aðstaðan til þess að verða þessara hlunninda aðnjótandi væri mjög misjöfn hjá fólki úti um hina dreifðu byggð og t. d. hjá mönnum, sem búa í fjölmenni. Það viðurkennum við, og það var okkur ljóst, og m. a. er þessi till. fram komin út af þessum aðstöðumun. Þó að á þetta yrði fallizt, eins og lagt er nú til í þessari till., að menn greiddu sama verð fyrir orkuna, þá yrði samt sem áður mjög mikill munur á því, hvað menn verða að leggja af mörkum til þess að verða raforkunnar aðnjótandi. Ég ætla, að ég viti það rétt, að þeir, sem í þéttbýli búa, þurfi ekki að borga nærri því eins mikið til þess að fá rafmagnið og fólk úti um byggðir landsins. Það mun vera fjöldi býla, sem verður að leggja fram fyrir línurnar í kringum 10 til 12 eða um 15 þús. kr. og jafnvel meira, auk svo þessa sérstaka gjalds, sem kallað mun vera tengigjald hjá þeim, er þessum málum ráða. Þetta gjald mun vera miklu meira en tíðkast í þéttbýli, svo að þrátt fyrir það að þeir borguðu ekki meira verð fyrir raforkuna í strjálbýlinu en aðrir, verður þeim aflið dýrara samt. Það virðist okkur að muni vera óhjákvæmilegt að leggja það þeim á herðar, en það verði þeim óbærilegt, ef þeir eiga að gera hvort tveggja: leggja stórfé fram til þess að fá raforkuna og síðan borga hana hærra verði en tíðkast í bæjum.

Það er alveg rétt, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði, að ef það opinbera greiðir mismuninn af sinni hálfu og ef við þá upphæð er miðað, sem til þess gengur, þá má segja, að það hafi minna fé til annarra framkvæmda, það er alveg rétt, hvort heldur það yrði til að dreifa raforku út um landið eða til annarra hluta. En þannig er því líka háttað um aðrar greiðslur ríkisins. Ef þær væru sparaðar og látnar ganga til annarra nauðsynja en þær ganga, þá má segja náttúrlega, að þá hafi ríkið meira fé. Ég skal taka dæmi: Það mun láta nærri, að ríkið greiði nú um 50 millj. kr. til þess að borga niður neyzluvörur í landinu, og það er veruleg upphæð. Þetta kemur fyrst og fremst þeim að notum, sem vörurnar kaupa. Segja má náttúrlega með sömu rökum: Ef ríkið sparaði sér þessi gjöld, þá hefði það þeim mun meira fé til annarra framkvæmda. Eigi að síður tel ég hæpið, að slíkar röksemdir eigi að gilda og að á þeim grundvelli eigi að hindra þjónustu fyrir fólkið, svo að ég viðhafi orð hv. 4. þm. Reykv. Niðurgreiðslan á neyzluvörum er vitaskuld þjónusta fyrir fólkið — og þjónusta fyrir fólkið fyrst og fremst, sem í bæjum býr. Á þetta bendi ég ekki til þess að telja slíkt eftir eða að telja, að þetta eigi ekki að vera. Ég vík að þessu út af ummælum hv. 4. þm. Reykv. Þessi aðferð við að halda niðri dýrtíðinni hefur vitaskuld sitt að segja. Það er hvort tveggja í senn: tilraun til þess, að verðbólgan verði minni, og liðsinni til handa þeim, sem þessar nauðsynjavörur þurfa að kaupa.

Hv. 4. þm. Reykv. vék að því, að ef ætti að koma á slíkri jöfnun sem þessari, þá mætti hugsa sér að ganga lengra, og vék að því, að húsaleiga væri mjög misdýr um landið. Og það er alveg rétt; hún er það. En nokkuð kann hún nú samt að vera í hlutfalli við tekjur manna, þó að vitaskuld eftirspurn og framboð hafi í þessum efnum sitt að segja, hver húsaleigan er. En ég þekki dæmi um það og það í ekki stórum kauptúnum, að þar mun húsaleiga ekki vera öllu minni en t. d. hér í Reykjavík. En vitaskuld er þetta nokkuð mismunandi.

En þær röksemdir gegn nauðsynjamáli, að eitthvað annað kunni að vera þess eðlis, að það væri þá þörf að mæta því og gera einhvern jöfnuð á slíku, það finnst mér ekki næg ástæða til þess að snúast öndverður gegn góðu nauðsynjamáli. Það verður líka um hvert einstakt mál að meta þýðingu málsins og hve sanngjarnt og réttlátt það er.

Þá vék hv. 4. þm. Reykv. að því, að sveitafólkið hefði í ýmsum efnum betri aðstöðu en kauptúnabúar, og vék þar að framleiðslu landbúnaðarvara, því væru færðar afurðirnar til verðs sem tekjur til heimilis miklu lægra en bæjarbúar yrðu að greiða. Ja, er hv. 4. þm. Reykv. viss um, að þetta sé rétt? Ég held ekki. Ég veit ekki betur, a. m. k. í sumum héruðum, en brýnustu nauðsynjar af framleiðslu hjá bændunum séu færðar þeim til hærra verðs en þeir fá sjálfir fyrir þær, sem seldar eru. Og ég þekki dæmi um það. Hitt er sorglegt, að þannig skuli þurfa að vera í okkar þjóðfélagi. Það get ég viðurkennt, að munurinn á því, sem framleiðendurnir fá, t. d. bændur fyrir sína framleiðslu, og því, sem neytendurnir þurfa að borga, er allt of mikill og oft stórvægilegur, en ég ætla, að það sé alveg öruggt, að bændurnir eigi minnsta sök á því, hefðu áreiðanlega vilja til þess, að þar væri minni munur á, en hafa ekki aðstöðu til þess að ráða þeim málum.

Hv. n., sem ég vona að fái þetta mál til meðferðar, íhugar það og hæstv. ríkisstj., ef till. fær afgreiðslu í líku formi og hún er nú fram borin, og ef hún kemur til með að vinna að málinu, þá veit ég, að hún leggur sig fram um það, að ýtarleg athugun fari fram, og geri sínar till. eftir því, sem henni sýnist skynsamlegast. Og það er síður en svo, að ég hafi á móti athugasemdum hv. 4. þm. Reykv., það vekur enn meiri athygli á málinu, og er rétt, að það fari fram mjög ýtarleg athugun. Ég vil þó vona vegna þess, hvaða flokki hann veitir nú forstöðu, að hann hafi í huga ummæli eins verkamannaforingjans í brezka þinginu, sem hann mælti á sinni tíð, þegar þeir réðu þar ríki og löndum og gerðu að stefnuskráratriði hjá sér að koma raforkunni út um sveitir landsins, þó að það kostaði það opinbera þar í landi miklu meiri fjármuni en að koma raforkunni til bæjanna. Hann sagði, að sveitastörfin væru brezku þjóðinni jafnnauðsynleg og það starf, sem færi fram í þéttbýlinu, og það væri hvorki rétt né sanngjarnt, að fólkið í strjálbýlinu gyldi fámennis, þess vegna bæri að láta það verða raforkunnar aðnjótandi alveg á sama hátt og þá, sem í þéttbýli búa.

Ég vil vona, að hv. þm., þó að hann geri þessar athugasemdir, hafi þetta einnig, eins og þessi merki ráðherra, að leiðarljósi fyrir sinni framkomu í þessu máli.