16.02.1955
Sameinað þing: 36. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í D-deild Alþingistíðinda. (2876)

107. mál, breytta skipun strandferða

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir alltaf gott að eiga viðræður við hv. þm. V-Húnv., en sögufróður á sviði Skipaútgerðar ríkisins er hann ekki. Ég held, að ég hafi lesið það hér alveg orðrétt upp úr skýrslu frá sjálfum forstjóranum, undirritaðri af honum og á hans ábyrgð, og sjálfsagt með vitund hans ágæta hæstv. ráðh., að hér stendur: „Enn fremur féll á Þyril á árinu 1953 samkvæmt hæstaréttardómi og áætlun skaðabótakrafa að upphæð nærri 900 þús. kr. út af meintri blöndun olíu og benzíns um borð í skipinu á árinu 1949.“ Og hefur þessi upphæð ekkert með það að gera, sem hv. þm. er að tala um. Hann hefði því átt, áður en hann fór hér upp til þess að mótmæla jafnkröftuglega mínum málflutningi eins og hann gerði hér, að kynna sér þessi mál. Hann hefði og átt að greiða atkvæði með till., sem áður hafa komið um það, að þessi mál færu í nefnd til þess að verða athuguð. Gæti sú nefnd þá dæmt um það, hvort það væri ég eða hv. þm. V-Húnv., sem hefði á réttu að standa. En í þessu atriði hef ég á réttu að standa, en hann á röngu, nema því aðeins að hv. þm. vilji væna mig um það að lesa hér rangt upp af blaðinu, sem hann annars getur fengið lánað hjá mér, svo að hann geti séð, að hann er að blanda hér saman alveg óskyldu máli, sem ég minntist ekki á.

Hv. þm. gat þess einnig, að það hefði verið rangt farið með strandið á gamla Goðafoss. Ég get sjálfur leitað í sögunni til að vita, hvenær gamli Goðafoss strandaði, en ég hygg, að þar hafi ég farið með rétt mál. Ég veit ekki betur en að fyrsti Goðafoss strandaði 1915 um haustið, og ef það er ekki, bið ég velvirðingar á því. En ég hygg, að það muni vera rétt, að hann strandaði á Straumnesi 1915.

A. m. k. í þessum tveimur atriðum getur hv. þm. V-Húnv. farið í skóla til mín í sögu um þessi mál. Og ætli það sé svo ekki líkt með aðrar staðhæfingar hans í sambandi við þetta mál? Ég hef hins vegar ekkert sagt hér um stjórn fyrrverandi forstjóra, hins ágæta manns Pálma Loftssonar, á málunum. Ég hef aðeins bent á, hvað hann sjálfur sagði um sína ágætu stjórn, og það er ekki að gera mér upp orðin. Hans eigin orð liggja fyrir í þingskjölum í alþingistíðindum 1945, og þar getur hv. þm. gengið að þeim og lesið þau með hans eigin undirskrift.

Ég læt þetta nægja á þessu stigi málsins, en vænti, að hv. þm. fari heldur hægara á töltinu næst þegar hann fer að ræða um þessi mál.