14.12.1954
Sameinað þing: 27. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í D-deild Alþingistíðinda. (2884)

113. mál, framkvæmd vegagerðar

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vil vænta þess, að það sé meira af áhuga fyrir málinu, að hæstv. forseti hefur tekið það fyrir hér, þó að það séu fáir þm. á bekkjunum, heldur en hitt, að hann áliti þetta mál svo lítils virði. (Forseti: Það er rétt skilið.) Já, ég vænti þess líka.

Ég hef leyft mér að bera fram hér þáltill. á þskj. 211 um að fela ríkisstj. að láta Iðnaðarmálastofnun Íslands gera á því athugun, úr hvaða efni og á hvaða hátt heppilegt sé að halda við vegum á Íslandi, og gera síðan um þetta tillögur til Alþ., ásamt að gera till. um nýja skipun á framkvæmdum í vegagerð, er megi miða að því að koma vegunum áfram sem fyrst og gera þá sem traustasta fyrir landsbúa. Enn fremur er tekið fram í till., að Iðnaðarmálastofnuninni sé heimilt að ráða til þessara framkvæmda innlenda eða erlenda sérfræðinga, eftir því sem nauðsynlegt þykir, til þess að komast að sem öruggustum og beztum niðurstöðum.

Að sjálfsögðu er ætlazt til þess, að stofnunin hafi samráð við vegamálastjóra um allar framkvæmdir, þar með taldar allar tilraunir, sem nauðsynlegt er að gera á einstökum vegaköflum til þess að sannprófa efni og aðferðir, og síðan að kostnaðurinn verði greiddur úr ríkissjóði.

Til þess að gera sér ljóst, hvort nauðsyn er á slíkri rannsókn, þykir mér rétt að fara nokkrum orðum um það ástand, sem ríkir hér í vegamálum, og þá nauðsyn, sem landsmönnum er á því, að vegakerfið sé sem öruggast og traustast. Það er enn haldið áfram að byggja í höfuðatriðum vegi á Íslandi aðeins úr þeim jarðvegi, sem fyrirfinnst á hverjum stað, hvort heldur er um að ræða hraun, mold eða möl, og gengið alveg fram hjá því að nota varanleg efni til vegagerðar. Þetta hefur aftur það í för með sér, að hvenær sem vatn kemst í veginn, þá skolar það í burtu ofaníburði og skilur eftir holur í veginum. Sé hins vegar vindur, þá fýkur mölin svo að segja jafnóðum og hún er borin ofan í vegina, enda er mönnum það kunnugt, að í þurrkatíð er tæplega hægt að ferðast í samfylgd bíla á íslenzkum vegum fyrir moldroki. Það er því sýnilegt, að með þessu fyrirkomulagi er kastað burt tugum milljóna, ef á að halda þessari vegagerð áfram á sama hátt og verið hefur.

En samtímis því, sem þetta er gert, breytast flutningatækin úr smátækjum, eins og þau voru áður en bílaöldin reis hér upp á Íslandi, þar sem aðeins voru notaðar kerrur og hestar, og í þungar bifreiðar, sem flestir keppa nú að að séu drifnar með dieselolíu í stað benzíns og þurfa þar af leiðandi miklu traustari vegi en nú eru gerðir hér á landi, ef þeir eiga að þola bæði þungann af vögnunum og þá umferð, sem alltaf fer sívaxandi í landinu.

Það er því alveg óhjákvæmilegt, að Íslendingar eins og aðrar þjóðir taki upp nýja aðferð við vegagerð, þ. e. þá aðferð að leggja vegina úr varanlegu efni. En til þess að svo megi verða, þarf að fara fram á því mjög ýtarleg rannsókn. að hið rétta efni sé fundið.

Ég hefði að sjálfsögðu getað lagt til í till., að skipuð væri mþn. til þess að inna þetta verk af hendi. En í fyrsta lagi er hér um að ræða verk, sem hlýtur að taka mjög langan tíma. Það er ekki hægt að ljúka slíku verki af á einu eða tveimur árum, heldur þarf að halda uppi stöðugri rannsókn á efnum, sem þarf að nota í vegina, þar til búið er að finna, hvað öruggast er og bezt til vegagerðar, svo að slík mþn. hefði orðið að sitja árum saman. En auk þess er hér fyrir Iðnaðarmálastofnun ríkisins, sem hefur yfir að ráða 3 verkfræðingum, einum vélaverkfræðingi og tveimur efnafræðingum, og er alveg tilvalin til að láta sinna þessu verkefni, sem hér um ræðir. Iðnaðarmálastofnunin er einmitt sett á stofn til þess að leiðbeina mönnum í iðnaði, hér er raunverulega um eina tegund iðnaðar að ræða, og það er engin stofnun, sem ég þekki, sem er færari um að geta innt þetta starf af höndum heldur en einmitt Iðnaðarmálastofnun Íslands. Ég hef átt samtal um þetta við stofnunina, og hún mundi telja það sjálfsagt að sinna þessu verkefni af fyllstu kostgæfni, leita upplýsinga frá útlöndum um allar nýjar aðferðir í vegagerð, bæði hvað snertir vélavinnu og efni, og hafa fullt samráð um þetta við vegamálastjóra.

Að tekið er fram í sjálfri till., að heimilt sé að ráða erlenda eða innlenda verkfræðinga til þessara rannsókna, stafar af því, að ég tel nauðsynlegt, að til þessara starfa séu ráðnir þeir menn í samráði við Iðnaðarmálastofnunina, sem mesta þekkingu hafa á slíku máli. Líti Iðnaðarmálastofnunin svo á, að hún geti fengið hér íslenzka verkfræðinga, sem geti að öllu leyti uppfyllt þær kröfur, sem hún mun gera til rannsóknarinnar, þá þarf hún að sjálfsögðu ekki að leita út fyrir landsteinana. Sé hins vegar nauðsynlegt að leita til erlendra manna til frekari upplýsinga. þá verður sjálfsagt að vera heimild til þess. Íslendingum þarf ekki að þykja neinn vansi að því, þó að þeir verði að leita til annarra þjóða í jafnstóru máli og hér um ræðir, og vil ég benda á, að þetta hefur einnig verið gert í sambandi við rafmagnsmálin og þótt sjálfsagður hlutur.

Ég vil einnig í sambandi við þetta mál benda á, að suður á Keflavíkurflugvelli hefur verið tekin upp ný aðferð í vegagerð, þar sem hefur verið lagt nýtt efni ofan á gömlu vegina í sambandi við flugvellina sjálfa og sumpart þá vegi, sem gerðir eru í sambandi við flugvellina. Mér skilst af þeim upplýsingum, sem ég hef fengið í sambandi við það, að þetta hafi reynzt vel og að með einni vél, sem til þess er notuð. sé jafnvel hægt að leggja að fullu heilan kílómetra á dag. Sé þetta raunverulegt, þá væri hér um stórkostlegar framkvæmdir að ræða. þar sem m. a. hægt væri að komast á tveggja mánaða tíma alla leið til Þingvalla með slíkan veg og verða miklu ódýrara en þær vegagerðir. sem nú eru gerðar í landinu.

Það eru veittar nú samkvæmt fjárlögum um 10 millj. kr. til nýrra vegagerða í landinu, en viðhald þessara vega fer sívaxandi og mun nú vera komið upp í 26–28 millj. kr. á ári. og sjá allir. hversu nauðsynlegt er að gera allt, sem unnt er, til þess að draga úr þeim kostnaði og nota heldur þetta fé til þess að byggja áframhaldandi nýja vegi í landinu.

Ég vil að síðustu taka það fram, að þessi orð mín ber engan veginn að skoða sem neina árás á vegagerð ríkisins. (Gripið fram í: Það stappar nærri því.) Það stappar ekki nærri því. Það er alveg misskilningur. Ég vil taka það fram, að það stappar ekki neitt nærri því, að hér sé um að ræða árás á vegagerð ríkisins. Vegagerð ríkisins hefur unnið þetta verk undir þeim kringumstæðum, sem hér hafa verið hingað til í landinu, og engar rannsóknir hafa farið fram á því, hvort ekki væri hægt að taka upp aðrar og betri vinnuaðferðir.

Það er því hreinn misskilningur, sem ég hélt nú að ekki kæmi fram hér í þessum sölum, að það sé hér um að ræða ásökun á vegamálastjórnina. Ég hef hins vegar heyrt því fleygt annars vegar, að þetta væri sett til höfuðs vegamálastjóra, en ég vil taka fram, að það er alger misskilningur, enda er sagt hér í till., að það eigi að gerast í fullu samráði við hann. Og ég þekki þá vegamálastjóra allt of illa, ef ég mætti ekki fullyrða það að hann yrði fús að taka hverjum slíkum leiðbeiningum og aðstoð, sem kæmi frá öðrum ríkisstofnunum, ef það mætti verða til þess, að hægt væri að gefa landinu betri og traustari vegi, minnka viðhaldið á vegunum og auka að sama skapi nýbyggingarnar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál hér nánar. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa skotið þessu máli inn hér á milli, en vil aðeins að síðustu mega skjóta því til þeirrar hv. n., sem fær þetta mál væntanlega til meðferðar, að ég tel sjálfsagt, að hún hafi samráð um afgreiðslu þess bæði við vegamálastjórnina og vegamálastjóra og einnig við Iðnaðarmálastofnun Íslands, fái þaðan umsögn og ræði um málið við þá. áður en hún afgr. það, en vænti hins vegar. að málið verði afgreitt á þessu þingi, svo mikilsvert sem það er fyrir alla landsmenn.

Ég vil svo leggja til. að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjvn.