15.10.1954
Sameinað þing: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

1. mál, fjárlög 1955

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Rétt áður en síðasta Alþ. lauk, gerði ég grein fyrir afkomu ríkissjóðs á árinu 1953 samkvæmt þeim bráðabirgðagögnum, sem þá lágu fyrir. Nú hefur reikningur fyrir það ár verið fullgerður og útbýtt til hv. alþm. aðalreikningnum. Ég sé enga ástæðu til þess að lengja mál mitt með því að greina frá einstökum reikningsliðum, enda mundi það að mestu verða endurtekning á því, sem ég greindi hv. þm. frá á síðasta Alþ. Endanlegar niðurstöður eru sem sé alls ekki í verulegum atriðum frábrugðnar bráðabirgðareikningnum. Tekjur reyndust 510 millj. á rekstrarreikningi eða aðeins hærri en bráðabirgðayfirlitið gerði ráð fyrir. Útgjöldin urðu einnig aðeins hærri en í bráðabirgðayfirlitinu. Afkoman verður því nánast alveg eins og ráð var fyrir gert í heild sinni skoðað. Telst mér svo til, að greiðsluafgangur hafi orðið um 36 millj., og ráðstöfun hans hefur þá orðið sem hér segir:

Aukið rekstrarfé ríkisstofnana 7 millj. 962 þús. Til atvinnuaukningar samkvæmt heimild í 22. gr. fjárl. 1954 5 millj. 9 þús., þ.e.a.s., það er atvinnuaukningarfé, sem úthlutað var eftír áramótin, en ákveðið var á Alþ. í fyrra að skyldi koma á reikning ársins 1954. Framlagt fé til tryggingar togaralánum 7 millj. og 100 þús. Greiðslur af lánum vegna 10 togara, vanskil eins og þau urðu endanlega, 2 millj. 148 þús. Fyrir fram greitt vegna fjárl. 1954 2 millj. 403 þús. Geymt vegna verklegra framkvæmda vita- og flugmála á árinu 1954 914 þús., og auknar innstæður og fyrirframgreiðslur 1 millj. 924 þús.

Þessar fjárhæðir nema samtals tæpum 27 millj. Ríflega 9 millj. af greiðsluafganginum hafa þá gengið til lækkunar á lausaskuldum, en lausaskuldir í bönkum hafa þó lækkað talsvert miklu meira, en það er vegna þess, að geymslufé jókst allverulega á árinu.

Hér hefur sú breyting á orðið frá því að bráðabirgðauppgjör var gert, að vanskil vegna hinna 10 togara hafa lækkað um ríflega 4 millj. og lausaskuldagreiðslur af tekjum ársins hafa vaxið að sama skapi. Aðrar breytingar hafa ekki orðið, sem ástæða er til að rekja.

Áður en ég ræði fjárlagafrv. þykir mér rétt að víkja nokkuð að horfunum á yfirstandandi árí. Þegar gildandi fjárl. voru sett, þótti ábyrgum mönnum teflt á tæpasta vað með tekjuáætlunina. Tekjurnar voru áætlaðar 443 millj. Það lá að vísu fyrir þá, að þær mundu verða rúmlega 500 millj. á árinu 1953. En hvort tveggja var, að þar af voru 25 millj. tolltekjur af sérstökum vélainnflutningi til stóru fyrirtækjanna þriggja, sem voru alveg óvenjulegar tekjur, og svo var árið 1953 af öllum talið óvenjulegt góðæri. Í þessu góðæri urðu tekjur ríkissjóðs af venjulegum tekjustofnum í kringum 485 millj. Þótti þá fulllagt að áætla tekjurnar á fjárlögum yfirstandandi árs 443 millj. kr., þar sem óhugsandi er, að greiðslujöfnuður náist, nema tekjur fari eitthvað fram úr áætlun. Því veldur, að aldrei er hægt að forðast með öllu umframgreiðslur, hversu vel sem á er haldið í framkvæmdinni. Þá voru í fjárl. heimildir til útgjalda á 22. gr., sem allir víssu að ætlazt var til að notaðar yrðu, og varð að hafa það í huga við tekjuáætlunina.

Tekjuáætlun fjárl. fyrir þetta ár og ákvörðun útgjalda var því byggð á því, að viðskipta- og atvinnuástand breyttist ekki til hins verra frá því, sem það var 1953. Ef það hefði breytzt til hins lakara frá því, sem það var 1953, þá hefði orðið greiðsluhalli. Nú hefur svo ánægjulega skipazt, að yfirstandandi ár verður enn betra atvinnu- og viðskiptaár en árið í fyrra, þótt gott væri. Tekjur ríkissjóðs munu því fara verulega fram úr hinni bjartsýnu áætlun fjárl., og þó að umframgreiðslur verði einhverjar, eins og þær ævinlega hljóta að verða, svo sem hér er frá fjárl. gengið, þá verður talsverður greiðsluafgangur hjá ríkissjóði, ef ekki verður alveg snögg breyting til hins lakara, það sem eftir er af árinu, en engin ástæða er til þess að álíta það, skilst mér.

Ég treysti mér ekki til að gera á þessu stigi áætlun um útkomuna. Hv. fjvn. mun verða látin fylgjast með horfunum í því efni, jafnóðum og þær skýrast nú með haustinu, og greiðsluafgangi verður ráðstafað í samráði við hv. Alþingi.

Það verður að teljast mjög mikilsvert, að ríkissjóður hefur greiðsluafgang á þessu ári. Er augljóst, að slíkt vegur nokkuð á móti þeirri miklu þenslu, sem nú er í öllu fjármálalífi landsins, og dregur úr þeirri hættu, að verðbólga myndist og ný verðhækkunaralda skelli yfir.

Þá er ekki síður ánægjulegt og þýðingarmikið, ef ríkissjóður gæti í slíku góðæri sem nú er eignazt einhverja fjármuni, sem hægt væri að leggja til hliðar og nota til nauðsynlegra framkvæmda síðar, þegar þörf væri á ráðstöfunum af hendi hins opinbera til þess að halda uppi nægilegri atvinnu í landinu. Verður áreiðanlega seint metinn til fulls sá hagur, sem þjóðinni gæti af því orðið, ef ríkissjóður gæti haft greiðsluafgang í góðærum, sem nota mætti, þegar á móti blési, til þess að koma þá í veg fyrir samdrátt verklegra framkvæmda og til þess beinlínis að auka þá verklegar framkvæmdir ríkisins og tryggja svo sem jafnasta atvinnu fyrir landsmenn. Fjármálastefna, sem á þessu væri byggð, mundi einnig að sjálfsögðu reynast öflugt tæki til þess að viðhalda jafnvægi í þjóðarbúskapnum, tryggja stöðugt verðlag, auka sparnaðinn og verða á allan hátt örvandi fyrir framkvæmdir og framleiðslustarfsemi.

Ég tel það mikið lán, að ekki var teflt á tæpara vað um afgreiðslu fjárl. fyrir yfirstandandi ár en ofan á varð.

Fjárl. næsta árs verða byggð á góðærisáætlunum. Kemur þá upp sú spurning, hvort Alþ. gæti tekizt að afgreiða fjárl. fyrir næsta ár með greiðsluafgangi, sem lagður væri til hliðar til framkvæmda síðar, þá með það fyrir augum að styrkja aðstöðu þjóðarinnar fjárhagslega og auka atvinnu og framkvæmdir, þegar á móti blési. Hætta er auðvitað á því, að í miklu góðæri falli menn fyrir freistingunni og afgreiði ógætileg fjárlög, sem auki mönnum erfiðleika, þegar hallar undan fæti, í stað þess að verða hin styrkasta stoð til þess að mæta erfiðleikum og draga úr áhrifum þeirra á afkomu landsmanna, ef svo tækist til um afgreiðsluna sem ég hef nú minnzt á.

Ég veit ekki, hvort dómur manna fellur þannig, að í fjárlfrv. því, sem nú er fyrir lagt, sé nægilegt tillit tekið til þessa sjónarmiðs, sem ég nú hef rakið nokkuð, eða hvort svo fer, að sumir álíti jafnvel, að of mikið tillit sé til þess tekið í frv. En benda vil ég á, að þessi stefna er mótuð í frv. með tillögunni um, að hinn raunverulegi greiðsluafgangur á því verði lagður í framkvæmdasjóð ríkisins og ætlaður til þess að auka framkvæmdir, þegar skynsamlegt þykir og fært að auka fjárfestinguna.

Mun ég þá víkja nokkru nánar að fjárlfrv. fyrir árið 1955. Það er auðvitað mikið álitamál, hvernig áætla skuli tekjur ríkissjóðs, ekki sízt þegar reynslan sýnir, að hér geta orðið mjög miklar sveiflur á frá ári til árs.

Tekjurnar reyndust 510 millj. árið 1953. Í ár verða þær mun hærri. Ég kinoka mér við að nefna tölur í því sambandi enn sem komið er, en mér finnst, að þær ættu að ná 550 millj., miðað við það, sem af er árinu, eða verða allt að 10% hærri en í fyrra. Tekjur ríkissjóðs af venjulegum tekjustofnum árið 1953 hafa á hinn bóginn verið um 485 millj., eins og ég gat um áðan. Til þess að nokkur von sé um greiðsluhallalaus fjárlög, verður alltaf að áætla tekjurnar eitthvað lægri en vitað er að þær verða eða þá að öðrum kosti, ef menn ekki vilja það, hafa allríflegan greiðsluafgang á fjárlögum. Ef miðað væri við tekjuár eins og 1953, mætti tekjuáætlunin því ekki fara yfir 450–460 millj., ef miðað væri við tekjuár eins og 1953, til þess að gera mætti ráð fyrir greiðsluhallalausum búskap. Aftur á móti ætti að mega áætla tekjurnar 510–520 millj., ef gera mætti ráð fyrir öðru eins ári næst og verið hefur í ár, en það væri að mínum dómi ekki hyggilegt að gera ráð fyrir slíku, nema þá með því að afgreiða fjárl. með verulegum greiðsluafgangi, svo að þar væri breitt borð fyrir báru. Í þessu frv. er farinn meðalvegurinn í tekjuáætluninni. Tekjurnar eru áætlaðar 493 millj., og er þá við það miðað, að næsta ár verði sem allra næst meðaltali hinna tveggja góðu ára, ársins, sem er að liða, og ársins 1953. Þetta tel ég langhyggilegustu aðferðina við tekjuáætlunina eins og nú standa sakir.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja hér einstök atriði tekjuáætlunarinnar. Það er gert ráð fyrir óbreyttri tekjulöggjöf að öðru leyti en því, að veitingaskatturinn verði felldur niður. Er lagt fram stjórnarfrv. um það efni. Veitingaskatturinn hefur ætíð verið hálfgerður neyðarskattur. Rekstur gisti- og veitingahúsa hefur yfirleitt átt hér afar erfitt uppdráttar. Þetta sést bezt á þeirri kyrrstöðu, sem verið hefur í þeim málum um skeið, enda þótt brýn nauðsyn sé aukningar og framfara á því sviði. Þessi kyrrstaða stafar tvímælalaust af því, hve erfitt er að reka þessar stofnanir, og sýnir, að brýn þörf væri að bæta aðstöðu gisti- og veitingahúsarekstrar, ef hægt væri. Þetta hefur verið ljóst alllengi, og ætlunin hefur verið nú um sinn að nota fyrsta tækifærið, sem gæfist, til þess að nema veitingaskattinn úr gildi. Þetta hefur þó dregizt, vegna þess að aðrar skatta- og tollalækkanir hafa verið látnar sitja í fyrirrúmi. Ekki hefur verið talið fært fyrr en nú að fella hann niður til viðbótar þeim miklu lækkunum á sköttum og tollum, sem lögfestar hafa verið nú síðustu missiri.

Í þessu sambandi þykir mér ástæða til þess að minna á það enn þá einu sinni, því að gamalt máltæki segir, að góð vísa verði aldrei of oft kveðin, að bætt afkoma ríkissjóðs á undanförnum árum er ekki fengin með nýjum skatta- og tollaálögum, þvert á móti. Síðustu 5 árin hafa eftirtaldar aðalbreytingar verið gerðar á tekjuöflunarlöggjöfinni: Í fyrsta lagi lækkun á verðtollsviðauka, lækkun og niðurfelling leyfisgjalda og lítils háttar hækkun á söluskatti og aukatekjum og fleiri gjöldum. Þessar hækkanir og lækkanir mætast, og er það alveg öruggt, að heildaráhrif þessara breytinga eru fremur til lækkunar en hækkunar. En auk þess koma svo hinar hreinu lækkanir. Það er í fyrsta lagi afnám kaffitolls og sykurtolls, í öðru lagi niður felldur söluskattur af bifreiðaakstri, í þriðja lagi hækkun fyrningarafskrifta á iðnaðarvélum, í fjórða lagi lækkun tolla á iðnaðarhráefnum, í fimmta lagi lækkun tekjuskatts á einstaklingum að meðaltali um 26–28% og félögum um 20%, í sjötta lagi hefur sparifé og vextir af því verið gert skatt- og útsvarsfrjálst, í sjöunda lagi hefur fasteignaskattur ríkissjóðs verið afhentur bæjar- og sveitarfélögum, og í áttunda lagi er nú lagt til að afnema veitingaskattinn.

Þetta eru stórfelldar lækkanir á sköttum og tollum, en samt sem áður hefur afkoma ríkissjóðs verið góð. Hér kemur m.a. tvennt til: Annars vegar hefur framleiðslan í landinu farið sívaxandi og þar með þjóðartekjurnar. Á þetta ekki sízt rót sína að rekja til þess, að ráðstafanir ríkisstjórnarinnar og þingmeirihlutans vegna framleiðslunnar á árinu 1950 og síðan hafa reynzt hagfelldar framleiðslustarfsemi landsmanna. Á hinn bóginn hefur þess verið gætt eftir föngum við afgreiðslu fjárlaga að hafa ríkisútgjöldin ekki hærri en tekjurnar gætu staðið undir. Taka vil ég fram í þessu sambandi, að ekki laukst á síðasta Alþ. endurskoðun félagakafla tekju- og eignarskattslaganna. Er unnið að henni, og verði því starfi lokið á þessu Alþ., verða tillögur um það efni lagðar fyrir hv. Alþ. síðar.

Ég kem þá að gjaldahlið fjárlfrv. Ég skýrði frá því á síðasta Alþ., að ég mundi beita mér fyrir því, að fram færi allsherjarathugun á útgjöldum ríkisins. Þessi athugun var sett af stað á s.l. vori, og varð niðurstaðan sú, að hver ráðh. skipaði mann af sinni hendi til þess að rannsaka þetta mál. Eiga þessir fulltrúar ráðh. að athuga nákvæmlega útgjaldaliði fjárl. hjá hverju ráðuneyti um sig og þeim stofnunum og starfsgreinum, sem þar undir heyra, gera álitsgerð um, hvort og þá hvernig þeim fyndist draga mætti úr útgjöldunum. Enn fremur er þeim falið að íhuga, hvaða leiðir muni helztar til að koma í veg fyrir, að ábyrgðir, sem ríkið hefur tekið á sig samkvæmt heimildum Alþ., falli á ríkissjóð, en þessar ábyrgðargreiðslur eru orðnar stórfellt vandamál, svo sem ég tel mig hafa rækilega vakið athygli hv. Alþ. á nú undanfarið. Nefnd þessi gat ekki skilað áliti svo snemma, að tillögur hennar kæmu til meðferðar í sambandi við undirbúning fjárlfrv., og verða nefndarmenn alls ekki ásakaðir fyrir það, þar sem hér er um mjög umfangsmikið verk að ræða.

Ég veit, að nefndin mun hraða störfum eftir föngum, og munu vonir standa til, að hún geti skilað áliti a.m.k. að einhverju leyti á meðan fjvn. vinnur að fjárlfrv. Í þessu sambandi vil ég enn þá einu sinni taka fram það, sem ég hef áður skýrt ýtarlega og beinlínis með það fyrir augum að minnka líkur fyrir vonbrigðum í sambandi við rannsókn þessara mála, að það mun enn koma í ljós hið sama og fyrr, þegar þessi mál hafa verið skoðuð ofan í kjölinn. ríkisútgjöldunum verður ekki breytt, svo að straumhvörfum valdi í ríkisbúskapnum eða fjármálalífi landsins, nema með því að ríkið minnki verklegar framkvæmdir sínar, framlög til menntamála, heilbrigðismála, félagsmála, samgöngumála, atvinnumála eða framlög til þess að greiða niður verð neyzluvara. Ég segi: Ekki lækkun, svo að straumhvörfum valdi, með öðru móti. Þróunin hefur hins vegar aldrei orðið sú að lækka framlög til þessara mála, heldur eru þau þvert á móti sífellt aukin á hverju Alþ., annaðhvort með ákvæðum í fjárlögum eða með nýrri löggjöf. Eru horfur á, að svo verði enn þá gert, ef litið er yfir frv. þau, sem fram eru komin. Þannig mun það sýna sig, þegar ég geri grein fyrir því, hvers vegna fjárlfrv. er núna hærra en gildandi fjárlög, að hækkanirnar stafa sumpart af lagaákvæðum, sem Alþ. hefur alveg nýlega sett, og sumpart frá eldri löggjöf eða útgjaldavenju.

Þótt þannig beri að varast að blekkja sig með slagorðum í sambandi við lækkun ríkisútgjalda, þá er þýðingarmikið, að athugun á þeim með sparnað fyrir augum fari fram svo að segja í sífellu. Slíkt verður alltaf að einhverju gagni. Ætíð finnast einhverjir liðir í starfrækslunni, sem færa má til betra horfs, og slík rannsókn hjálpar einnig ævinlega eitthvað til í þeirri baráttu, sem sífellt verður að heyja gegn óeðlilegri útþenslu í ríkisstarfrækslunni, en tilhneigingar til óeðlilegrar útþenslu verður stöðugt vart, og gegn henni þarf að halda uppi sífelldu andófi. Ég vona, að gagn geti orðið að þeirri allsherjarathugun, sem nú fer fram á ríkisútgjöldunum. Ég vænti, að nefnd þeirri, sem vinnur að málinu, takist að gefa skýra mynd af ástandinu, svo að gleggra verði eftir starf hennar en áður, hvað mundi þurfa að gera til þess að lækka ríkisútgjöldin, svo að um munaði. Geta menn þá valið eða hafnað.

Á gildandi fjárlögum eru útgjöld á rekstrarreikningi 405 millj. kr. Á frv. því, sem hér er lagt fram, eru þau 432 millj. Hækkunin nemur 27 millj. Sé hins vegar borið saman við reynsluna 1953, þá eru útgjöldin á rekstrarreikningi fyrir það ár 423 millj. Er hækkunin í frv. frá því, sem gjöldin voru s.l. ár, þess vegna 9 millj. kr. Mun ég nú telja í fáum orðum helztu breytingar:

Vextir af lánum ríkissjóðs eru áætlaðir 560 þús. kr. hærri en áður, en þeir hafa að undanförnu verið of lágt áætlaðir. Hins vegar hafa skuldirnar lækkað.

Liðurinn til ríkisstjórnarinnar er settur um 919 þús. kr. hærri en í gildandi fjárl., en rúmlega 600 þús. kr. hærri en reynslan varð s.l. ár. Hækkunin stafar aðallega eða nær einvörðungu af kostnaði við utanríkis- og varnarmál.

Kemur hér til aukinn kostnaður við sendiráð, 220 þús. kr., einkum vegna meiri kostnaðar við sendiráð Íslands í Moskva en áætlað var í upphafi.

Þá er hér kostnaður við hina nýju varnarmáladeild, 380 þús. kr., en af því er nýr kostnaður 330 þús.

Nauðsynlegt þótti í sambandi við þá nýskipun, sem verið er að vinna að á framkvæmd varnarmálanna, að stofna í utanrrn. sérstaka varnarmáladeild og leggja undir hana alla framkvæmd þeirra mála. Teknir voru upp á þessu ári samningar við Bandaríkjastjórn um breytingar á framkvæmd varnarsamningsins í ýmsum atriðum. Einkum var lögð rík áherzla á, að dvöl varnarliðsins væri takmörkuð við samningssvæðin og heft sem mest öll óþörf samskipti landsmanna og varnarliðsins. Enn fremur var lögð áherzla á, að Íslendingar tækju í sínar hendur verklegar framkvæmdir í sambandi við varnarmálin. Um þetta hvort tveggja hefur náðst samkomulag, og er nú unnið að því, að það samkomulag komi til framkvæmda. Augljóst er, að hinni nýju skipan um framkvæmd þessara mála hlýtur að fylgja aukin vinna og því kostnaðarauki. Er þar helzti liðurinn kostnaður við varnarmáladeild, sem ég nú hef greint frá.

Þá er nokkuð aukinn kostnaður við lögreglumál og tollamál í Keflavík, og eru þeir liðir á 11. gr. 11. gr. A, dómgæzla og lögreglustjórn, hækkar um 1 millj. 569 þús. kr. frá fjárl. yfirstandandi árs, en um tæplega 1 millj. frá því, sem reynslan varð í fyrra. Hér eru helztu liðirnir: Hækkun til landhelgisgæzlunnar vegna aukinnar fluggæzlu, 300 þús. kr., hækkað framlag til byggingar fangahúsa, 150 þús. kr., aukinn kostnaður við rekstur hegningarhúsa, 117 þús. kr., og aukinn lögreglukostnaður á Keflavíkurflugvelli, 208 þús. kr. Og loks er settur hér inn nýr liður, sem aldrei hefur verið á fjárl. áður, en sá kostnaður hefur þó ætíð verið greiddur og settur á 19. gr. Er þetta viðhald og endurbætur embættisbústaða sýslumanna og bæjarfógeta. Fjárveiting í því skyni er sett 300 þús. kr.

Þá er 11. gr. B, opinbert eftirlit. Liðurinn hækkar frá gildandi fjárlögum, en er þó heldur lægri en hann hefur reynzt undanfarið. Hér er því nánast um leiðréttingu að ræða. Og það sama er að segja um 11. gr. C, kostnað við innheimtu og álagningu skatta og tolla. Liðurinn hækkar um rúmlega 700 þús. kr. frá gildandi fjárl., er þó tæplega eins hár hér og reynslan sýndi 1953.

12. gr., til læknaskipunar og heilbrigðismála, hækkar frá gildandi fjárlögum um 960 þús. kr. Hækkunin stafar af fjölgun sjúklinga á ríkisframfærslu vegna fleiri rúma á sjúkrahúsunum, hækkun rekstrarstyrks til sjúkrahúsa um 400 þús. kr. samkvæmt nýju lögunum um það efni frá síðasta Alþ. og hækkun á styrk til heilsuverndarstöðva samkvæmt lögum, vegna þess að bæjarfélögin hafa eflt heilsuverndarstarfsemi sina; nemur þessi hækkun 150 þús. kr. Til fróðleiks má nefna um þennan fjárlagalið, framlög til heilbrigðismála, að þau eru nú á fjárlfrv. 3 millj. og 500 þús. kr. hærri en þau urðu í fyrra. Það er sem sé eins árs hækkun. Sú hækkun á nær öll rót sína í stækkun sjúkrahúsa og auknum styrk til þeirra af ríkisfé og til sjúklinga, sem fá rúm á sjúkrahúsunum fleiri en áður.

Þá kemur 13. gr. A, vegamál, sem er 4 millj. hærri í frv. en í gildandi fjárl. Hefur nú viðhald þjóðvega verið sett 24 millj. kr. í fjárlfrv. og hækkar því um 31/2 millj. frá gildandi fjárl. Það er nú augljóst orðið, að vonlaust er, að hægt sé að viðhalda vegakerfinu með lægri fjárhæð, og sýnilegt, að sé lægri fjárhæð sett, þá verður það til þess, að óhjákvæmilegt reynist að fara fram úr á liðnum. Það verður því að horfast í augu við þennan kostnað, þótt hár þyki, við afgreiðslu fjárlaganna. Hér veldur miklu, að fyrir nokkrum árum lengdi hv. Alþ. þjóðvegakerfið stórkostlega. Þá er hækkun á lögboðnu framlagi til sýsluvegasjóða, 375 þús. kr. Það er skylt að leggja á móti framlagi sýslusjóðanna í vegasjóði sína.

Til samgangna á sjó er veitt á 13. gr. B 500 þús. kr. meira en á gildandi fjárl. Þýðir ekki að gera ráð fyrir minnu en 61/2 millj. kr. halla á rekstri strandferðaskipanna, nema draga eigi úr strandferðunum. Reynslan sýnir þetta ótvirætt. Fjárhæðin er þó lægri en hallinn á strandferðaskipunum var í fyrra.

Hallinn á rekstri flugmálanna á 13. gr. D er ráðgerður 550 þús. kr. meiri en í gildandi fjárl. Vegur hér mest, að malbika verður flugbrautir á Reykjavíkurflugvelli, ella verður hann ónothæfur. Enn fremur kemur hér til, að flugþjónusta fer öll sívaxandi með auknum loftferðum, tekjurnar vaxa að vísu einnig nokkuð, en ekki hefur þótt fært að gera ráð fyrir því, að þær vaxi að sama skapi og kostnaðurinn.

Ég vil taka fram, að fjárveitingar til nýrra vega, brúargerða og hafnargerða eru allar settar í þetta fjárlfrv. jafnháar og þær eru á gildandi fjárl.

Til kirkjumála á 14. gr. A er nú veitt 3 millj. og 100 þús. kr. meira en á gildandi fjárl. Ber þar fyrst að nefna fjárveitingu til kirkjubyggingar og annarra framkvæmda í Skálholti, 2 milljónir til viðbótar þeirri einu milljón sem heimiluð var af ríkisfé á þessu ári til bygginga á staðnum. Viðurkenna víst allir nú nauðsyn þess að koma upp kirkju í Skálholti og gera ýmsar aðrar endurbætur á staðnum í tæka tíð fyrir 900 ára afmæli biskupsstóls þar árið 1956. Þá er nú tekið inn framlag til kirkjubyggingasjóðs samkv. lögum frá síðasta Alþingi, 500 þús. kr.; enn fremur fjárhæð til greiðslu álags á kirkjur, 150 þús. kr. Þetta er nýr liður, en hefur orðið að greiða álag á kirkjur utan fjárlaga, og þykir rétt að hafa þennan lið á fjárlögum svo sem öll önnur fyrirsjáanleg útgjöld. Þá er embættiskostnaður presta hækkaður um 215 þús. kr. Þykir ekki verða hjá því komizt, þar sem ákvæðin um þær kostnaðargreiðslur eru nú úrelt orðin með öllu.

Til kennslumála á 14. gr. B hækka framlög um rúmlega 3 millj. kr. Þessi liður hækkar jöfnum skrefum ár frá ári, skólar stækka, og skólum fjölgar. Hækkun barnakennaralauna nemur um 1 millj. og 100 þús. kr. Kostnaður við þátttöku í rekstrarkostnaði gagnfræðaskóla hækkar um 350 þús. kr. og rekstrarkostnaður við barnaskóla um 100 þús. kr. Þá hækkar nokkuð kostnaður við flesta framhaldsskólana. Styrkur til byggingar barnaskóla er hækkaður um 1 millj. og 100 þús. kr. og verður þá 3 millj. og 200 þús. Styrkur til byggingar gagnfræðaskóla og héraðsskóla er hækkaður um 250 þús. kr. og verður 1 millj. og 500 þús. kr. Óhjákvæmilegt þótti að hækka þessa liði nokkuð, sérstaklega framlag til barnaskólabygginga, og er þó langt frá því, að þar með leysist það vandamál, sem greiðslur á ríkisframlögum til skólabygginga eru nú orðið. Fræðslumálastjórnin álítur, að í lok þessa árs muni skorta um 14 millj. kr. til þess, að ríkissjóður hafi greitt þann hluta, sem honum er ætlað að leggja fram af byggingarkostnaði barnaskóla. Héruðin byggja skólana sem sé miklu hraðar en svo, að Alþingi hafi séð sér fært að veita fé til bygginganna jafnóðum úr ríkissjóði. Svipaða sögu er að segja um gagnfræðaskóla og héraðsskóla, þó er þar ekki nærri jafnstórfelldur munur á framlögum héraða og ríkissjóðs.

Til rannsókna í opinbera þágu á 15. gr. B er veitt 319 þús. kr. meira en á gildandi fjárl. Er hér einkum um að ræða aukinn kostnað fiskideildar atvinnudeildar háskólans. Er óhjákvæmilegt að leggja í þennan aukna kostnað vegna síldarrannsókna. Ægir hefur verið útbúinn mað góðum tækjum til þess að kynna sér síldargöngur og annað, sem lýtur að síldveiðum, Verður að auka starfsliðið í landi til þess að vinna úr því efni, sem að er viðað á Ægi.

Fjárveitingar til landbúnaðarins á 16. gr. A lækka um 1 millj. og 400 þús. kr. Vegna þess að fjárskiptum er nú að ljúka, lækka útgjöldin vegna sauðfjárveikivarna um 3 millj. og 567 þús. kr. Aftur á móti er gert ráð fyrir, að útgjöld vegna jarðræktarlaganna hækki um 1 millj. og 930 þús. kr. og framlög til Búnaðarfélags Íslands um 150 þús. kr. Þetta eru helztu breytingarnar á liðnum til lækkunar og hækkunar. — Síðan fjárveiting til sauðfjárveikivarna var sett í frv., hafa þau geigvænlegu tíðindi borizt, að mæðiveiki sé nú komin upp að nýju. Verður því væntanlega að auka fjárveitingar til varnar að nýju, enda má ekkert til spara að kveða þann vágest niður, jafnóðum og hann gerir vart við sig.

Ég vil í sambandi við þessa gr. fjárl. minnast á skógræktina og fjármál hennar. Skógrækt færist nú mjög í aukana, bæði á vegum ríkisins og skógræktarfélaga. Fleiri og fleiri leggja þar nú hönd á plóginn. Öllum þeim, sem séð hafa árangur skógræktar, ætti að vera ljóst orðið, að skógar geta vaxið hér á landi til stórfelldra nytja. Á hinn bóginn er mikið verk og tafsamt að gróðursetja svo mikinn skóg, að straumhvörfum valdi. Þó mundi þetta takast fyrr en varir, ef gróðursetning væri nógu mikil. Nokkuð hefur verið aukin fjárveiting til plöntuuppeldis, en vitað er, að það hrekkur ekki til að koma hæfilegum skrið á málið. Forustumenn skógræktar hafa farið þess á leit að fá að reyna nýja fjáröflunarleið vegna skógræktarmálanna. Leiðin er sú að hafa á boðstólum vindlingapakka með 20 aura merki landgræðslusjóðs. Mönnum yrði að sjálfsögðu í sjálfsvald sett, hvort þeir keyptu vindlingapakka með þessu merki eða aðra án merkis landgræðslusjóðs. En ástæða er til að álíta, að með þessu móti mætti auka drjúgum fjárframlög til skógræktarmála, og væri þá vel farið, Ríkisstj. telur rétt, að þessi fjáröflunarleið verði farin. Leggur hún til, að samþ. verði á 22. gr. fjárl. heimild fyrir ríkisstj. til þess að styrkja skógræklina með þessu móti.

Til sjávarútvegsmála á 16. gr. B er nú ætlað um 2 millj. og 300 þús. kr. meira en á gildandi fjárl., og er hækkunin aðallega áætlaðar útflutningsuppbætur á Faxaflóasíld, 2 millj. og 100 þús. kr. Í fyrra var samkv. heimild í fjárl. veitt nokkur ábyrgð í sambandi við söltun Faxaflóasíldar. Þótti þetta óhjákvæmilegt, ef síldveiði og söltun ætti ekki að stöðvast. Tjón af þeirri ábyrgð mun hafa orðið rúmlega 1 millj. kr. Afkomuhorfur þessarar atvinnugreinar breyttust verulega til hins verra á þessu ári, þar sem verð á Faxasíld lækkaði frá því í fyrra, en framleiðslukostnaður hefur síður en svo lækkað. Stóðu menn frammi fyrir því, að síldveiði suðvestanlands hlyti að falla niður, ef ekkert væri að gert. Var sá kostur tekinn að ganga nokkru lengra en í fyrra um ríkisábyrgð í þessu sambandi, og var áhættan metin 2 millj. og 100 þús. kr., þegar fjárlfrv. var samið, en nokkuð hefur bætzt við síðan, þannig að nú mun réttara að meta áhættuna 3 millj. Þá er þess að geta um 16. gr. B, að framlag til Fiskifélagsins hækkar um 123 þús. kr. og lögboðið framlag til hlutatryggingasjóðs um 100 þús. kr.

Framlag á 16. gr. C til iðnaðarmála er ráðgert 200 þús. kr. hærra en í fyrra. Á síðustu missirum hefur verið að vaxa upp á vegum ríkisins ný stofnun, sem nefnd er Iðnaðarmálastofnun Íslands. Á hún að hafa með höndum margvíslegar leiðbeiningar í iðnaðarmálum og aðra starfsemi til hagsbóta fyrir iðnaðinn. Í fyrra voru veittar 450 þús. kr. til þessarar stofnunar, og þykir nú rétt að hækka þessa fjárveitingu í 650 þús. kr.

Þá er ég kominn að 17. gr. Greinin hækkar um 3 millj. 640 þús. kr. frá gildandi fjárl., en um rúmar 8 millj. kr. miðað við útgjöldin eins og þau urðu í fyrra. Þessi hækkun frá síðustu fjárlögum stafar af því, að aukafjárframlag til Tryggingastofnunar ríkisins er hækkað um 2 millj. 650 þús., eða í 5 millj. kr. Auk þess er beint lögboðið framlag vegna trygginganna hækkað um 250 þús. Tryggingastofnun ríkisins er nú rekin með verulegum halla. Tryggingalöggjöfin er í endurskoðun, og þeirri endurskoðun verður ekki lokið fyrr en á næsta ári. Það lá fyrir í fyrra, að Tryggingastofnun ríkisins mundi verða rekin með halla á yfirstandandi ári. Þegar tryggingalögin voru sett, var sú meginregla höfð í huga, að kostnaður við tryggingastarfsemina væri að 1/3 borinn af ríkinu, að 1/3 af þeim tryggðu og að 1/3 af atvinnurekendum og bæjar- og sveitarfélögum. Í fyrra voru lagðar fram skýrslur um það, hvernig þessi skipting hefði orðið í reyndinni, og var sýnt fram á, að ríkissjóður hafði greitt nokkru minna en 1/3 af heildarkostnaðinum. Auk þess höfðu orðið í framkvæmd tilfærslur á milli hinna aðilanna, sem ekki skipta máli í þessu sambandi. Var því á það fallizt í fyrra með tilliti til þessara upplýsinga og með tilliti til þess, að fyrirsjáanlegur var verulegur halli á rekstri Tryggingastofnunarinnar, að veita aukaframlag í eitt skipti á fjárl., sem nam 2 millj. 350 þús. kr. Á því sama þingi voru tryggingamálin sett í endurskoðun. Nú liggur enn fyrir, eins og ég gat um áðan, að halli verður á rekstri trygginganna næsta ár sízt minni en áður. Ný löggjöf um þessi mál verður ekki sett á þessu þingi, og enn vantar talsvert á, að ríkissjóður hafi lagt fram þriðjung kostnaðar frá upphafi. Hefur ríkisstj. því sýnzt óhjákvæmilegt að veita aukaframlag í annað sinn og hækka það nú upp í 5 millj. kr. Er þetta bráðabirgðaráðstöfun varðandi fjármál trygginganna.

Þegar nýju áfengislögin voru sett í fyrra, var sett á fót áfengisvarnaráð. Því er ætluð margs konar forusta í baráttunni gegn áfengisbölinu. Var þá gert ráð fyrir, að fjárveiting til þeirrar starfsemi yrði sett á fjárl. hverju sinni. Í þessu frv. er gert ráð fyrir 550 þús. kr. fjárveitingu til ráðstöfunar fyrir áfengisvarnaráð. Er hér aukinn mjög verulega fjárstuðningur við bindindisstarfsemi í landinu.

Ég kem þá að 19. gr. Til dýrtíðarráðstafana á 19. gr. eru ætlaðar í frv. 49 millj. og 100 þús. kr. Er það 3 millj. og 200 þús. kr. hærra en á gildandi fjárl., en raunar ekki nema 600 þús. kr. hærra en þessar greiðslur reyndust árið 1953. Er þessi fjárveiting við það miðuð, að óbreyttar haldist niðurgreiðslur á vöruverði frá því, sem þær eru nú, þegar þetta frv. er fram lagt, en gert ráð fyrir, að þær kosti meira á næsta ári en þær kosta í ár. Reynslan sýnir sem sé, að sala þeirra vara, sem greiddar eru niður, fer vaxandi ár frá ári.

Ég hef bent rækilega á það svo oft, hver áhrif þessar niðurgreiðslur hafa á fjárl., að ég ætla ekki að fara langt út í þá sálma nú. Ég vil þó benda mönnum á að bera þessar fjárhæðir saman við þær fjárveitingar, sem ríkið ætlar til verklegra framkvæmda, og þá sjá menn nokkuð glöggt, hvar lenda mundi, ef lengra væri gengið á þessari braut en nú er komið. Þess er rétt að geta í sambandi við þetta, að þessar niðurgreiðslur hafa ekki verið auknar í haust, svo að neinu máli skipti, og er það fyrsta haustið nú um alllangt skeið, sem það hefur ekki verið gert.

Ég hef þá gert grein fyrir helztu hækkunum á gjaldahlið rekstrarreiknings fjárlfrv. og kem þá að eignahreyfingunum. Fjárveitingar á eignahreyfingum hækka um 13 millj. 303 þús., og í þessu sambandi tel ég þá ekki liðinn til framkvæmdasjóðs fjárveitingu, þar sem ætlazt er til, að það fé verði í raun og veru lagt til hliðar og er því annars eðlis en hinar beinu fjárveltingar á útgjaldaliðunum.

Á 20. gr. er aðallega um fjárfestingarútgjöld að ræða, þótt ekki séu öll fjárfestingarútgjöld ríkissjóðs á þessari gr., sbr. til dæmis framlög til vega, hafna, brúa og skólabygginga, sem eru á öðrum greinum. Hjá ríkisstj. liggja nú tillögur og beiðnir úr öllum áttum um stóraukin fjárframlög í framkvæmdir eða til fjárfestingar, eins og menn eru nú farnir að kalla það. Ríkisstj. er ljóst, að mjög mikil þörf er á framkvæmdum í mörgum greinum. En hún hefur samt sem áður viljað fara mjög gætilega í að hækka einstaka fjárfestingarliði í fjárlfrv. Er þá tvennt haft í huga: annars vegar að fjárl. verði afgr. raunverulega greiðsluhallalaus — og eins og nú er háttað fjármálaástandi landsins helzt með greiðsluafgangi; á hinn bóginn að framleiðslan og fjárfestingarstarfsemi er yfirleitt rekin nú með svo miklu kappi, að ekki er unnt að komast yfir meira eins og sakir standa.

Ef athugaðar eru þær framkvæmdir, sem byrjað er á af ríkisins hendi, og aðrar, sem ekki er byrjað á, en óneitanlega þarf að ljúka á næstu árum, þá kemur í ljós, að gífurlegar fjárhæðir þarf til þess að koma þeim í höfn. Þrátt fyrir þetta hefur ríkisstj. talið sig verða af ástæðum, sem ég hef þegar greint, að fara mjög hægt í sakirnar varðandi auknar fjárveitingar til þessara framkvæmda. Mun ég geta um helztu hækkanirnar á 20. gr.

Á gildandi fjárl. eru áætlaðar 8 millj. til þess að mæta töpum af ríkisábyrgðum. Að öllu athuguðu þykir mér ekki varlegt að áætla þessa upphæð undir 12 millj. kr. á næsta ári. Er það hvorki meira né minna en 4 millj. kr. hækkun. Er þetta byggt á allra nýjustu reynslu, og mun ég gera fjvn. nánari grein fyrir þessu. Það er orðið alvarlegt ástand, þegar gera má ráð fyrir árlegum töpum á ríkisábyrgðum, sem nema meiru en allt það fé, sem veitt er til nýlagningar þjóðvega, svo að aðeins sé tekið eitt samanburðardæmi.

Gert er ráð fyrir, að landssíminn noti til framkvæmda 1 millj. og 350 þús. kr. meira en í fyrra. Er þó ekki gert ráð fyrir meiri fjárveitingu beint úr ríkissjóði til stofnunarinnar en áður. Talið er, að gera megi ráð fyrir bættri rekstrarafkomu, sem nemur þessari hækkaðri fjárfestingu hjá landssímanum. Er hér einkum um að ræða framlag til sjálfvirku símastöðvarinnar í Reykjavík. Það verður ekki með nokkru móti komizt hjá því að halda áfram stækkun hennar hröðum skrefum, og það kostar stórfé.

Þá er gert ráð fyrir að leggja til sementsverksmiðjunnar 2 millj. kr. á árinu 1955. Hafa raunar verið lagðar til hennar 2 millj. á ári undanfarin ár, en önnur milljónin hefur verið færð á heimildargrein fjárl. En það er engin ástæða til annars en að veita það fé, sem á að fara til verksmiðjunnar úr ríkissjóði, hreinlega á 20. gr. Eru því hér færðar 2 millj. til verksmiðjunnar. Það er í rauninni óbreytt fjárveiting til hennar frá því, sem verið hefur.

Hækkuð er fjárveiting til húsnæðis ríkisspítalanna um 1 millj. og 200 þús. kr. Svo sem hv. þm. er kunnugt, hefur verið ráðizt í byggingu hjúkrunarkvennaskóla, og var það alveg óumflýjanleg nauðsyn. Enn fremur er verið að byggja viðbót við landsspítalann, sem er raunar heldur stærri bygging, skilst mér, en landsspítallinn sjálfur. Þessar byggingar kosta stórfé báðar samanlagt, og nefni ég ekki tölur í því sambandi hér. En víst er um það, að fjárveitingar þær, sem nú eru á fjárl. til bygginga þessara, hrökkva skammt til þess að greiða þennan kostnað, enda þótt aðrir leggi hér einnig nokkuð til, svo sem kunnugt er, að því er landsspítalann varðar. Ekki er hægt að sætta sig við, að þessar byggingar verði svo lengi í smíðum sem verða mundi að óbreyttum framlögum, en á hinn bóginn er óhjákvæmilegt, að bygging þeirra taki nokkur ár. ríkisstj. vill reyna að flýta fyrir þessum nauðsynjaverkum með því að hækka nokkuð framlag til þeirra á 20. gr., en fyrir því, að það hrekkur skammt, hefur verið sett á 22. gr. heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka allt að 5 millj. kr. lán til þessara bygginga. Er þá gert ráð fyrir að leita til Tryggingastofnunar ríkisins í því sambandi, því að sú stofnun á talsverða sjóði að sjálfsögðu, þó að rekstur hennar standi nokkuð höllum fæti í bili, eins og ég hef greint frá.

Sú nýlunda er í þessu frv., að tekin er inn á 20. gr. fjárveiting til atvinnuaukningar, 5 millj. kr. Undanfarið hefur hliðstæð fjárveiting verið á 22. gr. sem heimild fyrir ríkisstj. til þess að verja allt að 5 millj. kr. í þessu skyni. Þessi heimild hefur alltaf verið notuð og vel það. Reynslan sýnir, að slíkar heimildir eru notaðar, ef þær eru gefnar. Því veldur hin brýna þörf fyrir margs konar fyrirgreiðslu varðandi aukningu atvinnulífsins á ýmsum stöðum í landinu og erfiðleikar á því að fá lánsfé til þeirra framkvæmda, sem menn hafa á prjónunum. Það þykir þess vegna hreinlegra og eðlilegra, að þessi fjárveiting komi nú beint á fjárl. sjálf. Þykir ekki rétt að hætta þessum framlögum, þótt atvinna sé mikil í landinu eins og stendur. Þótt almenna ástandið sé gott, þá er brýn þörf á stuðningi við einstök byggðarlög, m.a. til þess að vinna á móti því, að óeðlilegir fólksflutningar eigi sér stað í landinu. Raunar er þetta fé, atvinnuaukningarféð, þannig notað, að fáar fjárveitingar munu reynast notadrýgri til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins en einmitt þessi.

Þá er hækkað á 20. gr. framlag til flugvallagerðar og annarra framkvæmda í flugmálum um 480 þús. kr. Til nýrra framkvæmda í flugmálum hafa verið veittar undanfarið 1 millj. 320 þús. kr. að viðbættu því fé, sem rekstrarafkoma flugmála hefur orðið betri en fjárlög hafa gert ráð fyrir, en þann mismun, sem þannig hefur komið fram, hafa flugmálin fengið að nota til framkvæmda. Að vandlega íhuguðu máli þykir þetta nú of lítið og er hækkað upp í 1 millj. og 800 þús. kr.

Þá eru nokkuð hækkaðar fjárveitingar til menntaskólabyggingar, kennaraskólabyggingar, byggingar lögreglustöðvar í Reykjavík og í Keflavík og til byggingar á prestssetrum. Allt eru þetta bráðnauðsynlegar framkvæmdir. Eru þessar hækkanir ekki miklar en þó óhjákvæmilegar sökum þess, hve þessar framkvæmdir eru stórfelldar, en framlög til þeirra mjög lág fyrir á fjárl., samanborið við kostnaðinn.

Þá er tekin inn fjárveiting til byggingar tilraunagróðurhúss að Reykjum í Ölfusi, 100 þús. kr. Á garðyrkjuskólanum að Reykjum í Ölfusi er unnið stórmerkilegt tilraunastarf í gróðurhúsum, án þess að fé sé til þess sótt í ríkissjóð. Hefur náðst þar hinn furðulegasti árangur í mörgum greinum. Má nefna þar til dæmis bananarækt, sem hefur gefið merkilega góða raun. Gróðurhúsin á Reykjum þykja nú orðið eitt af undrum Íslands, og þótt ekkert væri annað, þá væri ástæða til þess að sýna þessari starfsemi nokkurn skilning með því að veita framlag í nýtt, myndarlegt tilraunagróðurhús. En hér kemur þó fleira og meira til, því að starf það, sem þarna er unnið, markar vafalaust merkileg spor í atvinnusögu landsins.

Ég hef þá lokið við að geta um einstaka liði, sem ástæða er til að nefna í fjárlagafrv., en heildarniðurstaða fjárlfrv. er þannig, að framlag til framkvæmdasjóðs og greiðsluafgangur nemur samtals 10 millj. 956 þús. kr.

Stefna frv. er sú að nota góðærið, sem við vonum að haldist, þótt ekki getum við gert ráð fyrir öðru eins ári og því, sem nú er að líða, til þess að afgreiða fjárlög með nokkrum greiðsluafgangi, er lagður sé til hliðar í framkvæmdasjóð. Með slíkri afgreiðslu fjárl. væri stuðlað að auknum sparnaði og stutt að jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Þess konar afgreiðsla fjárl. styður afkomu þjóðarinnar út á við, bætir gjaldeyrisaðstöðuna og stuðlar að því, að hægt sé að búa áfram við það viðskiptafrelsi, sem áunnizt hefur síðustu árin. Þá er ekki þýðingarminnst, að með þessu móti yrði hægt að tryggja nokkurt fé til þess að auka opinberar framkvæmdir í atvinnuaukningarskyni, þegar þörf væri á almennt eða í einstökum landshlutum eða byggðarlögum. Það hefði verið stórum ánægjulegra að geta gert ráð fyrir hærri fjárhæð til framkvæmdasjóðs í frv. eins og nú standa sakir um árferði. En þeir, sem kunnugir eru fjárl. og útgjaldalöggjöf og þörfinni fyrir framlög til einstakra framkvæmda án tafar, munu skilja, að því hefur ekki orðið við komið að hafa þetta framlag hærra, nema þá með því að gera tekjuáætlunina hærri en hún er, en það getur verið ákaflega mikið álitamál, hversu langt á að fara í því, eins og ég hef rætt allýtarlega.

Ég hef þá lokið máli mínu um fjárlagafrv., en mun víkja næst fáeinum orðum að útvegun lánsfjár til þeirra framkvæmda, sem ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafa ákveðið að beita sér fyrir og afla fjár til með lántökum.

Raforkuáætlunin var eitt höfuðatriði þess samnings, sem gerður var á milli flokkanna í sambandi við stjórnarmyndunina. Var það bundið fastmælum að útvega 250 millj. á næstu árum til raforkuframkvæmda, og skyldi það fé sumpart koma frá ríkissjóði, en sumpart fást með lántökum. Það hafa náðst samningar um, að bankarnir láni á næstu árum þann hluta fjárins, sem afla skyldi með lántökum, og er því þessi fjáröflun tryggð. Leitað er eftir, hvort hægt muni að fá lánsfé erlendis í þessu skyni, og standa vonir til, að það geti orðið eitthvað.

Á síðasta Alþingi var stjórninni heimilað að taka 20 millj. kr. lán og endurlána það lánadeild smáíbúða. Er það nú tryggt orðið, að þetta lánsfé fæst, og verður úthlutun þess lokið innan skamms.

Undanfarið hefur verið leitazt fyrir um lán til byggingar sementsverksmiðju, svo sem hv. Alþ. er kunnugt. Vonir hafa brugðizt í því sambandi. Hefur verið ætlunin að fá frjáls lán til verksmiðjubyggingarinnar, þannig lán, að hægt væri að nota féð til þess að kaupa vélar og tæki til verksmiðjunnar á frjálsum markaði. Þessi viðleitni hefur enn þá ekki leitt til lántöku. Verður henni haldið áfram enn um sinn. Takist ekki að fá frjáls lán til þessara framkvæmda, mun ríkisstj. leitast fyrir um lántöku í sambandi vil kaup á vélum og efni til verksmiðjunnar.

Næst á eftir þessu láni hefur ríkisstj. ætlað að beita sér fyrir útvegun láns erlendis handa Iðnaðarbankanum samkvæmt lagaheimild. Hefur þetta raunar verið haft í athugun í sambandi við önnur atriði og umleitan um lán til sementsverksmiðjunnar, en af því er ekki önnur tíðindi að segja að svo vöxnu, en áfram verður unnið að þessu máli.

Nokkur fjáröflunarmál önnur en þau, sem ég hér hef greint, eru mjög á döfinni, svo sem til fiskveiðasjóðs, ræktunarsjóðs, frystihúsabygginga, veðdeildar Búnaðarbankans, og fleira mætti telja. Þessi mál eru að sumu leyti í hendi ríkisstj. og að sumu leyti til athugunar í Framkvæmdabankanum. Ræði ég þau ekki hér að sinni, þar sem þau eru ekki á því stigi, að um þau geti orðið gefin skýrsla nú.

Þá er sérstök ástæða til að geta um það í þessu sambandi, að unnið er á vegum ríkisstj. að tillögum um útvegun aukins lánsfjár til íbúðabygginga, og verður það eitt af úrlausnarmálum þessa Alþingis, og enn fremur eru í endurskoðun rekstrarlánakjör landbúnaðarins og iðnaðarins samkv. ákvæðum stjórnarsamningsins.

Aldrei verður það nógsamlega brýnt fyrir mönnum, að til framfara og framkvæmda í landinn verður ekki annað fé notað en það, sem landsmenn leggja upp, að viðbættu því, sem fengið er að láni erlendis. Þótt sjálfsagt sé að nota erlent lánsfé til þjóðnýtra framkvæmda, þá er óhugsandi, að erlendis fáist nema lítið brot af því fjármagni, sem til framkvæmdanna þarf. Það er því sparnaður landsmanna sjálfra, sem verður að vera meginstoð framfaranna. Á verðbólguárunum fór hörmulega með sparnað landsmanna þrátt fyrir miklar tekjur. Fleira en eitt kom til, en mestu hefur vafalaust valdið síhækkandi verðlag og þar með minnkandi kaupmáttur peninganna. Svo óskaplegt varð ástandið í þessu tilliti, að sparifjáraukningin komst niður í 20–35 millj. kr. árlega ár eftir ár, og eitt ár var meira tekið út úr bönkum og sparisjóðum samanlagt en inn í þá var lagt. Og þó var þá talið mikið góðæri. Á þessum árum voru framkvæmdirnar að verulegu leyti eða mestu leyti byggðar á því að éta út erlendar innstæður þjóðarinnar, á erlendum lánum og erlendu gjafafé.

Nú allra síðustu árin, eða eftir 1951, hefur orðið á þessu stórfelld breyting. Má t.d. nefna, að á árinn 1953, eða í fyrra, jókst sparifé um 186 millj., og á þessu ári hefur sparifé aukizt nm tæpar 150 millj. á sjö fyrstu mánuðum ársins. Hér hefur því átt sér stað gerbreyting til bóta. Þessi aukni sparnaður hefur orðið undirstaða að auknum atvinnurekstri og framkvæmdum og átt sinn þátt í því að stuðla að auknu jafnvægi í þjóðarbúskapnum nú síðustu missirin, eftir að þessa aukna sparnaðar fór að gæta. Það er þessi sparifjáraukning, sem gerir það mögulegt að fá hér innanlands verulegt fjármagn að láni til raforkuframkvæmda og íbúðabygginga, svo að dæmi séu nefnd um áhrif þessara breytinga. Þó er víðs fjarri, að sparifjáraukningin hrökkvi enn sem komið er til þess að mæta hinni miklu fjárþörf í sambandi við nýjar framkvæmdir og aukinn atvinnurekstur, og nægir í því sambandi að minna á upptalningu mína hér áðan um fjárþörf fyrirtækja og lánsstofnana. En hér hefur orðið stórvægileg og ánægjuleg breyting til bóta.

Nú er spurningin: Hvað kemur til, að þetta hefur áunnizt? Ég veit ekki, hvort árin 1953 og 1954 eru betri tekjuár en sum hinna, þegar sparnaðurinn var sáralítill eða jafnvel enginn. Þau hafa verið mjög góð tekjuár að vísu, en það er a.m.k. ekki nægileg skýring á breytingunni. Það sjáum við á reynslu verðbólguáranna, þegar tekjur urðu stundum gífurlega háar, en sparnaðurinn hverfandi eða jafnvei enginn. Ég held, að hér valdi miklu um — og raunar mestu — að viðhorf manna til sparnaðar, til peninga, hefur breytzt verulega. Verðlagið í landinu hefur mjög lítið breytzt, hefur verið nær því stöðugt í þrjú ár, og þetta hefur haft stórfelld áhrif. Menn keppast ekki lengur við að kaupa fyrir fé sitt jafnóðum, svo sem áður var, enda er engin ástæða til þess. Fyrir bragðið hafa menn hver um annan þveran farið að leggja fé til hliðar, og þetta hefur gerbreytt ástandinu í þessum efnum. Þá hafa stórfelldar beinar ráðstafanir verið gerðar til þess að hvetja menn til sparnaðar, og er þess skemmst að minnast, að á síðasta Alþingi var sparifé gert skatt- og útsvarsfrjálst. Eru það engin smáræðis hlunnindi, sem sparifjáreigendum eru veitt með þeim ráðstöfunum, og væri ekki undarlegt, þótt það ýtti undir sparnað. Það vil ég þó enn minna á, að þótt sparnaður hafi aukizt frá því, sem hann var, þegar verst var ástatt í þeim efnum, þá fer því fjarri, að hann sé eðlilega mikill orðinn miðað við árferði nú, hvað þá lánsfjárþörfina. Þess vegna þarf sparnaðurinn enn að aukast. Ætti að mega gera ráð fyrir, að svo verði. Finnst mér mega vænta þess, að menn hafi tæplega enn áttað sig á því til fulls, hve stórfelldra hlunninda sparifjáreigendur njóta af ákvæðunum um skatt- og útsvarsfrelsi sparifjár, hafi því heppileg áhrif þeirrar löggjafar á sparnaðinn alls ekki fram komið öll enn þá. Þá mun stöðugt verðlag enn eiga eftir að hafa stórfelld áhrif til bóta, ef það helzt, og ekkert sýnist benda til, að verðlagsjafnvægi hér þurfi að raskast, ef rétt er að farið.

Í þessu sambandi vil ég minna á, að mikla nauðsyn ber til að koma hér á sölu verðbréfa á opnum markaði, svo sem tíðkast í þeim löndum, þar sem sæmilegt jafnvægi ríkir í þjóðarbúskapnum. Ég minni á þetta stórmál og vil benda á, að fjárútvegun til fjárfestingar verður ekki sæmilega örugg né fyllilega heilbrigð, fyrr en hún getur að verulegu leyti byggzt á sölu verðbréfa á innlendum markaði. Er það mál í athugun og undirbúningi og ekki tímabært að ræða það nánar að þessu sinni.

Ég mun þá fara að lokum fáeinum orðum um áhrif stjórnarstefnunnar, sem fylgt hefur verið frá 1950, en upphaf hennar er að rekja til þeirra átaka í stjórnmálum landsins, sem urðu á árinu 1949. Þegar þessi átök hófust, var mestöll framleiðslustarfsemi landsmanna rekin með halla, fjölmargar starfsgreinar lágu alveg niðrí, og tilfinnanlegt atvinnuleysi var í þann veginn að halda innreið sína. ríkisbúskapurinn var rekinn með stórfelldum greiðsluhalla þrátt fyrir gífurlegar skatta- og tollaálögur. Greiðsluhallinn við útlönd var stórfelldur, erlendar innstæður frá betri árum gersamlega þrotnar, Marshallféð fór í eyðslu, öll viðskipti voru heft í fjötra, og vöruskortur var svo tilfinnanlegur, að knékrjúpa varð ekki ósjaldan til þess að fá brýnustu nauðsynjar, þótt menn hefðu fullar hendur fjár. Sumarið 1949 skarst í odda í ríkisstjórn þeirri, sem þá sat, út af þessu ástandi og hvað gera skyldi til þess að rífa sig upp úr feninu. Leiddi þessi ágreiningur til kosninganna um haustið. Það voru framsóknarmenn, sem knúðu fram þetta uppgjör. Árangur þess urðu samtök tveggja stærstu stjórnmálaflokka landsins um þær ráðstafanir, sem síðan hafa verið gerðar. Með ráðstöfunum þessa þingmeirihluta var framleiðslan leyst úr dróma og hefur blómgazt síðan og aukizt ár frá ári og þjóðartekjurnar vaxið. Greiðsluhallalaus ríkisbúskapur hefur stuðlað að auknu peningalegu jafnvægi í landinu, stöðugra verðlagi og auknum sparnaði almennt og orðið til þess, að hægt hefur verið að slaka stórkostlega á viðskiptafjötrunum. Þessum árangri hefur ekki aðeins verið náð án þess að skattar og tollar hafi verið hækkaðir, heldur hefur reynzt mögulegt að lækka stórlega skattaálögur. Gjaldeyrisástandið hefur farið batnandi frá því, sem áður var. Þannig batnaði gjaldeyrisaðstaða landsins út á við á árinu 1951 nokkuð og er nokkru betri nú en hún var á sama tíma í fyrra. Ótalið er þó enn það, sem ekki skiptir minnstu máli: Verðlag í landinu hefur staðið svo að segja í stað í 3 ár og mun ekki hækka sem máli skiptir á þessu hausti. Er þó hausttíminn hættulegastur að þessu leyti. Þetta þýðir, að áfram getum við gert ráð fyrir að búa við sæmilega stöðugt verðlag, ef ekki verða gerðar ráðstafanir til þess að setja af stað verðbólguhjólið, sem hefur verið stöðvað til stóraukinnar hagsældar fyrir alla landsmenn. Eins og nú er háttað, veltur mest á þeirri stefnu, sem launasamtökin fylgja á næstunni í þessu tilliti.

Nú um sinn hefur borið talsvert á fólksskorti til þess að sinna allri þeirri framleiðslustarfsemi, sem menn gjarnan vilja stunda, og fjárfestingarverkefnunum. Er skammt öfganna á milli í þessum efnum hjá okkur, því að ekki mun vera nema eitt og hálft ár síðan menn höfðu áhyggjur af því, að ekki væri full atvinna fyrir alla. Ekki er því til að dreifa, að fólkseklan nú samanborið við í fyrra stafi af því, að fjölgað hafi verið fólki við varnarframkvæmdir, og þá ekki heldur því til að dreifa, að aukin viðskiptavelta og velmegun nú frá í fyrra eigi rót sína í auknum varnarframkvæmdum. Á þessu sumri hafa unnið um 600 manns færra við varnarmálin en á sama tíma í fyrra, og er þá til tínt allt það fólk, sem þar kemur nærri. Hér kemur annað til. Í fyrsta lagi mjög aukin smábátaútgerð að sumrinu, þá stóraukin fiskverkun innanlands, þar sem togararnir hafa lagt á land nær allan afla sinn, en höfðu áður selt mjög mikið af honum óverkað til Englands. Loks bætist við stóraukin fjárfesting einstaklinga, einkum íbúðarhúsabyggingar.

Það er sannarlega ástæða til þess að gleðjast yfir því, að allir hafa nú atvinnu og áð menn búa nú hér í þessu landi almennt við kjör, sem fyllilega munu þola samanburð við það, sem gerist annars staðar, að ekki sé meira sagt. Hitt er áhyggjuefni, að svo var komið hag togaraútgerðarinnar á þessu ári, að hún gat ekki haldið áfram án sérstaks stuðnings. Það er mikið alvörumál, að framleiðslukostnaður á togarafiski er nú orðinn svo hár, að útflutningsverðið hrekkur ekki til þess að mæta honum, og á þessu sama bólar í fleiri greinum, sbr. það, sem ég upplýsti áðan um Faxaflóasíldina. Erfiðleikar togaraútgerðarinnar stafa að verulegu leyti af hinu ófyrirleitna löndunarbanni brezkra útgerðarmanna. Það raskaði sem sé öllum rekstri togaraflotans, þegar Englandsmarkaðurinn lokaðist. Kjörin á togurunum urðu meða] annars af því alveg ósambærileg við önnur launakjör í landinu, og fleira kom til, sem verkaði í sömu átt. Ýmislegt hefur breytzt heldur til bóta í sambandi við aflabrögð og sölur togaranna, siðan verst horfði um þau málefni síðastliðið vor, og leið hefur verið fundin til þess að styðja togaraútgerðina, án þess að þær ráðstafanir valdi almennri verðhækkun. Var sú leið beinlínis valin með það fyrir augum að þurfa ekki að gera ráðstafanir, sem hefðu almenn verðhækkunaráhrif.

Í sambandi við vandamál togaraútgerðarinnar hefur eitthvað boríð á ótta um það, að stjórnin mundi knýjast til þess að beita sér fyrir gengislækkun vegna þessara erfiðleika togaraútgerðarinnar. Það er engin ástæða til þess að óttast slíkt, jafnvel þótt eitthvað meira þyrfti að aðhafast vegna togaraflotans en enn hefur verið gert. Það er engin ástæða til þess að tala um gengislækkun í sambandi við nokkur þau mál, sem nú eru til meðferðar. Það er þvert á móti full ástæða til þess að álíta, að við getum áfram búið við allvel stöðugt verðlag, ef ekki eru beinlínis gerðar nýjar ráðstafanir, sem gera slíkt ómögulegt. Á. hinn bóginn er svo kostnaði hlaðið á framleiðsluna, svo sem augljós dæmi sanna, að verði kröfur á hendur henni almennt auknar, svo sem nú stendur, þá mundi það gerbreyta ástandinu og hrinda af stað hjólinu á ný. Slíkt væri þó hin mesta ógæfa og öllum til stórtjóns. Ég hef ekki trú á því, að nokkur af hinum sterku almannasamtökum sjái sér hag í að beita sér fyrir slíkri stefnu.

Að lokum vil ég á það minna, að við megum ekki láta góðærið og peningaflóðið villa okkur sýn um það, að talsvert mikill fjöldi manna í landinu vinnur að störfum í þágu varnarmálanna, enda þótt færri séu en í fyrra, störfum, sem ekki er gert ráð fyrir að séu til frambúðar. Þarf því að vinna markvisst að því að efna á réttum tíma til framkvæmda og starfrækslu, sem komi í stað þessara framkvæmda, þegar þær dragast saman eða hverfa. Þá þarf einnig að eiga sér stað stöðug aukning atvinnurekstrar í landinu vegna mikillar fólksfjölgunar. Við þurfum því mikla fjárfestingu á næstu árum ekki siður en undanfarið. Svo bezt mun okkur á hinn bóginn takast að leysa þennan vanda og viðhalda almennri velmegun, að við berum gæfu til að hafa jafnvægi og stöðugleik nokkurn í þjóðarbúskapnum, en leggjumst ekki til sunds á nýjan leik í fen verðbólgu og fjármálaupplausnar. Ég trúi því, að við höfum öll svo mikið lært af reynslunni, að vel muni takast.