17.02.1955
Sameinað þing: 37. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í D-deild Alþingistíðinda. (2906)

140. mál, bátagjaldeyriságóði til hlutar sjómanna

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Seint á árinu 1949 og aftur snemma á árinu 1950 felldu íslenzk stjórnarvöld gengi krónunnar og töldu sig gera það til þess að efla hag framleiðslunnar.

Raunin, sem af þessu fékkst, var hins vegar sú, að í ársbyrjun 1951 neituðu útvegsmenn að láta fiskibátaflotann hefja veiðar, sökum þess að allur útgerðarkostnaður þeirra hefði vaxið svo við gengisfellinguna, að fyrirsjáanlegur halli væri á útgerðinni, nema fram fengist hærra fiskverð. Það stóð í þófi um þetta milli útgerðarmanna og ríkisstj. nokkurn tíma í upphafi árs 1951, og því þófi lauk með því, að ríkisstj. lét fjárhagsráð gefa út auglýsingu um svokölluð innflutningsréttindi bátaútvegsmanna eða bátagjaldeyrisreglur, eins og þær venjulega hafa verið kallaðar.

Þessar bátagjaldeyrisreglur voru, að því er opinberlega var tilkynnt, til þess á settar að hækka verð á fiski. En í öllum undirbúningi þessa máls var farið gersamlega á bak við þann aðilann, sem er eigandi meira en þriðja hlutans af þeim afla, sem á land er dreginn á Íslandi, þ. e. a. s., það var algerlega farið á bak við sjómannastéttina. Ríkisstj. hafði eingöngu samráð í þessu máli við útvegsmenn eða þeirra forustumenn. Bátagjaldeyrisreglugerðin var síðan hálfleynilegt mál, þ. e. a. s. framkvæmd hennar var algerlega í höndum útvegsmanna eða stjórnar Landssambands íslenzkra útvegsmanna, sem virtist ekki hafa neinar skyldur til þess að gera opinberlega grein fyrir þeirri gjaldeyrisverzlun, sem hún hafði með höndum.

Nú er því hins vegar svo farið, að á þeim tíma, sem þetta gerðist, höfðu sjómenn víðs vegar um landið samninga um það, að þeir skyldu jafnan fá hæsta verð fyrir sinn fisk.

Þetta var mismunandi orðað í hinum ýmsu kjarasamningum sjómanna.

Í kjarasamningi sjómanna í Vestmannaeyjum var það fram tekið, að sjómenn skyldu að lokum fá sama fiskverð og útgerðarmenn fengju fyrir sinn fisk. En þegar til uppgjörs kom, refjuðust útgerðarmenn við að greiða sjómönnum nema nokkurn hluta af því fiskverði, sem þeir sjálfir fengu.

Af þessu risu, svo sem kunnugt er, málaferli, sem staðið hafa stöðugt þar til í janúar þessa árs, að endanlega var upp kveðinn í þeim dómur í hæstarétti. Þá höfðu sjómenn sótt mál sitt fyrir sjó- og verzlunardómi Vestmannaeyja, fengið þar staðfestan rétt sinn til fiskverðs til jafns við útgerðarmenn, og nú hefur hæstiréttur staðfest þennan dóm, þannig að það er ekki um að villast, að fyrir árin 1951, 1952 og 1953 ber sjómönnum réttur til sama fiskverðs og útgerðarmenn hafa fengið fyrir sinn fisk.

Þessir einkagjaldeyrisbraskarar ríkisstjórnarinnar, stjórn Landssambands íslenzkra útvegsmanna, hafa hins vegar staðið fyrir því, að enn er þverskallazt við að hlíta þessum dómi, og hafa forráðamenn þeirrar stofnunar gefið út opinberar yfirlýsingar um, að þeir telji, að þessi dómur nái ekki nema til ársins 1951. Ekki hef ég orðið var við neinn skynsamlegan rökstuðning fyrir því, að sama máli hljóti ekki að gegna um árin 1952 og 1953. En sem sagt, það situr við það enn í dag, að sjómenn eiga ófenginn hlut sinn úr bátagjaldeyrisréttindunum allt frá 1951.

Nú gætu menn gjarnan sagt sem svo: Ja, þeir geta auðvitað sótt mál sitt fyrir dómi. — Og það munu þeir að sjálfsögðu gera, ef ekki opnast aðrar skynsamlegri leiðir.

Því er nú svo farið, að ef sjómenn þurfa að sækja hvert einstakt mál fyrir dómi og fyrir hvert einstakt ár sérstaklega, getur sá réttur, sem þeim kann að verða dæmdur, orðið harla lítils virði í raunveruleikanum, þar sem slíkur málskostnaður mundi jafnan verða svo mikill, að þegar við hann bætist líka annar kostnaður við innheimtu, þá er þess lítil von, að sjómenn gætu fengið fyrir þennan tildæmda hlut sinn öllu meira fé en fer til innheimtunnar.

En þar sem það liggur alveg greinilega fyrir, að hér er um að ræða mistök ríkisstj., þá er það ekki nema sjálfsögð siðferðiskrafa, sem sjómenn eiga til ríkisstj., að hún taki þátt í að leiðrétta það, sem misfarizt hefur í þessu máli. Og í því skyni er till., sem hér liggur fyrir, fram borin.

Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp till., en hún er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og framkvæma svo fljótt sem verða má leiðréttingu þeirra mistaka, að sjómenn hafa ekki fengið greiddan hlut sinn úr andvirði bátagjaldeyrisfríðindanna fyrir árin 1951, 1952 og 1953.

Framkvæmd málsins verði í meginatriðum hagað þannig, að sjómannafélögunum verði falið að safna saman kröfum viðkomandi sjómanna, hverju á sínu félagssvæði, og frá þeim sjómönnum, sem samningar þeirra ná til. Leggi félögin síðan rökstuddar kröfur fyrir ríkisstjórnina eða þá aðila, sem hún kann að tilnefna. Ríkissjóður greiði út hinn vangoldna hlut ásamt 6% ársvöxtum frá þeim tíma, þegar eðlileg greiðsla hefði átt að fara fram. Ríkissjóður endurkrefji svo hlutaðeigandi útgerðarmenn eða útgerðarfélög um þá upphæð, sem hann greiðir þeirra vegna.

Kostnaður allur við framkvæmd málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin greiðsla til sjómannafélaganna fyrir þeirra þátt í leiðréttingu þessari, og skal sú greiðsla ákveðin 5% af kröfum þeim, sem þau leggja fram og færa sönnur á, auk áfallins málskostnaðar eftir reikningi.“

Það hefur verið föst venja að undanförnu, að fulltrúar úr ríkisstjórn, þ. e. a. s. ráðherrar þeir, sem fara með útvegsmál, haldi ræður á sjómannadögum, og ekki minnist ég þess, að því hafi neitt frekar verið sleppt úr árið, sem bátagjaldeyrisreglugerðin var sett. Þar er það siður ráðherra að lofsyngja sjómenn og játa það, sem allir vita að er satt, að þeirra starf er undirstaða okkar þjóðfélags. Væri það þess vegna ekki úr vegi, að þeir sýndu nú þeim orðum sínum nokkurn stað í verki með því að taka þátt í því að leiðrétta þau mistök, sem orðið hafa fyrir það, að ríkisstj. hefur á undanförnum árum algerlega hlunnfarið sjómenn um öll þau mál, sem varða sölu fiskafurða.

Það væri ekki ófróðlegt að rifja það upp nokkuð í þessu sambandi, að það er ekki einasta bátagjaldeyrir, heldur líka fjöldamargt fleira í sölu íslenzkra sjávarafurða, sem er fullkomið rannsóknarefni, ekki sízt með tilliti til þess, að sjómenn sem fiskeigendur eru algerlega sniðgengnir og þeim er haldið réttindalausum um öll þau mál, á sama tíma sem ríkisstj. einokar alla útflutningsverzlun sjávarafurða undir sína gæðinga, ýmist í Landssambandi íslenzkra útvegsmanna, Sölusambandi íslenzkra fiskframleiðenda, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, og hvað þau nú heita öll þessi fyrirtæki, sem eru á hægra brjósti ríkisstjórnarinnar og meira og minna til komin til þess að fara í kringum sjómenn, sem eins og ég hef fram tekið eru samt sem áður eigendur að meira en þriðja hluta þess fiskafla, sem á land er dreginn á Íslandi.

Það má einnig taka það fram, að allt bátagjaldeyriskerfið er fullkomlega komið á það stig, að það þarfnast endurskoðunar. Ég vil benda á það, auk þess sem ég hef áður getið, hvernig farið er á bak við sjómenn, að það er heldur engin sönnun fyrir því, að útvegsmenn, a. m. k. smærri útvegsmenn, þeir sem dreifðir eru út um byggð landsins, njóti þess réttar, sem þetta fyrirkomulag annars gerir ráð fyrir útvegsmönnum til handa. Allt uppgjör frá þeim, sem þessa bátagjaldeyrisverzlun hafa með höndum, virðist ganga óeðlilega seint, og vitað er, að enn er ekki fulluppgert til útvegsmanna fyrir árið 1952, hvað þá fyrir þau ár, sem síðan eru liðin. Verður að ætla, að ríkisvaldið hafi engan siðferðislegan rétt til þess að afhenda vissum og þröngum hring manna slíkt vald sem gert hefur verið með bátagjaldeyrisverzluninni, án þess að slíkir aðilar séu til þess fullkomlega skyldir að standa opinberlega skil af þeirri verzlun, sem þannig fer fram.

Að lokum skal ég geta þess, að þessi till. er ekki alveg ný af nálinni. Ég flutti á s. l. þingi till., sem efnislega var algerlega samhljóða þessari, og flutti þá fyrir henni grg., sem ég hef látið prenta hér aftur sem grg. með þessari till. Ég skal taka það fram, að á s.l. þingi fékk þessi till. aldrei neina afgreiðslu. Henni var vísað til hv. fjvn., og sú hv. n, skilaði áliti um hana. N. klofnaði um hana. Tveir nm., þeir Hannibal Valdimarsson og Lúðvík Jósefsson, lögðu til, að till. yrði samþ., en hinir sjö nm., þ. e. a. s. fylgjendur hæstv. ríkisstj. í n., töldu ekki tímabært, að þingið afgreiddi till. þá, þar sem endanlegur dómur væri ekki um réttmæti hennar fallinn. Nú er sá dómur, sem sá hv. meiri hl. fjvn. vildi bíða eftir, fallinn og liggur nú fyrir, og á þeirri forsendu er engin leið að skjóta sér undan því að taka afstöðu til þessarar till. hér á Alþingi.

Ég vil, að lokinni þessari umr., leggja til, að till. verði vísað til síðari umr. og til hv. fjvn.