15.10.1954
Sameinað þing: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

1. mál, fjárlög 1955

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Við eðlilegar kringumstæður ætti setning fjárlaga hvers árs að vera eitt stærsta og mikilvægasta mál hvers þings. Það má og sjá af þingsköpum, að meðan hugsað var skynsamlega á Alþingi Íslendinga, hefur þannig verið á það mál litið. Í þingsköpum er svo ákveðið, að fjárlög ein allra mála skuli rædd í áheyrn þjóðarinnar og það ekki skemmri tíma en að skipta hefur þurft á 3 daga. Það þarf ekki langa íhugun, sé rökrétt hugsað, til að sjá, að skynsamleg ástæða er til að hafa þennan hátt á. Það skiptir almenning ekki litlu máli og sízt nú hin síðari ár, á hvern hátt og til hvers er ráðstafað þeim gífurlegu fjárhæðum, sem ríkið innheimtir og þjóðin öll á í ríkissjóði eða öðrum opinberum sjóðum. Það er heldur ekkert smávægilegt aukaatriði fyrir almenning, að hvaða þróun í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar ríkisvaldið stefnir með fjármálastefnu sinni, áhrifum sínum á og afskiptum sínum af lífi og starfsemi einstaklinga, fyrirtækja og þjóðarheildar. Allra sízt er þetta smávægilegt nú, þegar afskipti ríkisvaldsins eru jafnmikil og jafnháskaleg og raun ber vitni. Þetta sá hinn vísi löggjafi meðan skynsemi réð meira en aðrir eiginleikar á Alþingi Íslendinga. En nú er sá háttur upp tekinn, að þó að formi sé að nafninu til haldið um fjárlagaumræður, er það mál ekki rætt af hálfu stjórnarvalda í almenningsáheyrn nema við 1. umr., en við síðari umr. hefur jafnvel sjálfur fjmrh. talið sér sæma að ræða fyrr öll önnur mál en fjármálin og efnahagsmálin og það enda þótt hann bæri sýnu minna skyn á þau en fjármálin.

En sé að gætt, má öllum ljóst vera, hvers vegna ríkisstjórnir síðustu ára hafa viljað losna við þann kross að þurfa að ræða fjármál og efnahagsmál opinskátt og rökrænt í áheyrn almennings. Það fáheyrða glæfraspil, sem kallað er stefna núverandi stjórnarflokka í fjárhags- og atvinnumálum, er ekki til þess fallið að afla núverandi valdhöfum trausts og fylgis almennings. Í því efni verða þeir að treysta á önnur meðul og óvandaðri en góðan málstað. Áð þessu leyti og fjárlfrv. það fyrir árið 1955, sem hér liggur fyrir til 1. umr., í engu frábrugðið fjárlfrv. síðustu ára. Með því er engin ný stefna eða stefnubreyting mörkuð í fjárhags- og efnahagsmálum þjóðarinnar. Hin fáheyrða og glæfralega skattheimta núverandi valdhafa heldur óbreyttri stefnu upp á við, og er þetta frv. samkvæmt því hæsta fjárlfrv., sem lagt hefur verið fram á Alþingi til þessa dags, en samkvæmt frv. eru heildartekjur ríkissjóðs áætlaðar 495 millj. kr., eða um 52 millj. kr. hærri en 1954 og 77 millj. kr. hærri en þær voru áætlaðar 1953. Hins vegar urðu ríkistekjurnar 510 millj. kr. árið 1953, eða „aðeins“ 92 millj. kr. hærri en áætlað var, og munu nálgast 600 millj. árið 1954, sé miðað við það, að þær voru orðnar 301 millj. kr. 31. ágúst s.l., en 262 millj. á sama tíma í fyrra. Allar fullyrðingar hæstv. fjmrh., Eysteins Jónssonar, um það, að fjárlagaafgreiðslu væri teflt á tæpasta vað og ekki mætti leiðrétta tekjuáætlanir hans, hafa því enn einu sinni reynzt marklaust óvitahjal, svo sem vitað var, enda í öðrum tilgangi gert en að hafa það heldur, sem sannara reynist.

Með þessu fjárlfrv. er engin tilraun gerð til að draga úr því fjármálasukki og spillingu, sem verið hefur eitt helzta einkenni fjármálastjórnar núverandistjórnarflokka að undanförnu, heldur færist það enn hröðum skrefum í aukana, og eru flestir útgjaldaliðir áætlaðir hærri árið 1955 en þeir voru á þessu ári. Ræddi hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, um stóraukna eyðslu af almannafé vegna lögreglueftirlits og annars með svonefndu varnarliði, og skal ég engu við það bæta. Þá er ekki nú fremur en endranær gerð tilraun til að afhenda þinginu raunverulegt fjárveitingavald, því að enn ætlar hæstv. ríkisstj. að tryggja það, að hún hafi óbundnar hendur um fjárlagaafgreiðslu eins og að undanförnu. Því til sönnunar skal það nefnt, að árið 1951 urðu tekjur ríkissjóðs 116 millj. kr. hærri en áætlað var í fjárl., árið 1952 urðu þær 44 millj. kr. hærri, árið 1953 92 millj. kr. hærri en áætlað var og munu á þessu ári verða um 160 millj. kr. hærri. Þannig munu ríkisstj. þessara 4 ára hafa alls um 400 millj. kr. til ráðstöfunar umfram það. sem áætlað var á fjárl., og þessum upphæðum hefur verið ráðstafað og mun verða, án þess að samþykkis Alþingis sé leitað, en það látið leggja blessun sína yfir gerðir hæstv. ríkisstj., þegar öllu hefur verið eytt.

Í höndum hæstv. ríkisstj. er fjárlagaafgreiðslan því aðeins formsatriði, þar sem hin viðfrægu bókarasjónarmið hæstv. fjmrh., Eysteins Jónssonar, fá notið sín til fullnustu. Á hinn bóginn er öllum það ljóst, að svo er til ætlazt, að Alþingi leysi sérhvert verk, sem í þess verkahring er, af fyllstu samvizkusemi og réttsýni og láti ekkert rangt vitandi vits frá sér fara. Reynsla margra ára í röð er þó sú, að þessa reglu hefur Alþingi, þ.e.a.s. stjórnarflokkarnir, ekki haldið við afgreiðslu fjárl. Öllum þingheimi hefur verið ljóst siðan 1951, að tekjur ríkissjóðs hafa árlega verið of lágt áætlaðar, en vegna þess að ríkisstj. vildi hafa óbundnar hendur um ráðstöfun á almannafé í því skyni að tryggja völd sín, hafa hv. þm. stjórnarflokkanna látið hafa sig til þeirrar óhæfu að samþykkja það, sem þeir vissu að var rangt, og staðfest það sem lög í nafni Alþingis. Mun erfitt að finna hliðstæðu slíks framferðis með öðrum þjóðum, enda er þetta orðið sá smánarblettur á Alþingi, að það nýtur nú orðið litillar eða engrar virðingar.

Hæstv. ríkisstj. hefur ekki heldur látið sitt ettir liggja í því að misbjóða virðingu Alþingis og sýna því fyrirlitningu. Sem dæmi skal það nefnt, að í fjárlagafrv. fyrir árið 1955 er, eins og hæstv. fjmrh. gat í framsöguræðu sinni, fellt niður að áætla tekjur af veitingaskatti, en hann hefur numið á þriðju millj. kr. árlega. Enn er það þó í lögum, að veitingaskattur skuli innheimtur, og ber því að telja hann með öðrum tekjum, meðan Alþingi hefur ekki fellt þau lög úr gildi. Hins vegar hefur hæstv. ríkisstj. borið fram frv. um það að afnema þennan skatt, og vegna þess að hún ætlar að láta Alþingi samþykkja þetta frv., áður en fjárl. eru afgreidd, er það fellt niður að áætla tekjur af þessum skatti.

Það er svo annað mál, að með því að leggja niður veitingaskattinn heldur hæstv. ríkisstj. áfram þeirri íhaldsstefnu sinni í skattamálum að létta fyrst sköttum á þeim, sem sízt skyldi. Á síðasta þingi gumaði hæstv. ríkisstj. mjög af því, að hún ætlaði að lækka beina skatta á almenningi. Niðurstaðan af þessu skattalækkunarhjali hefur þó orðið sú í reyndinni, að tekjur ríkissjóðs af beinum sköttum hafa hækkað verulega og eru nú áætlaðar 6.3 millj. kr. hærri en s.l. ár og munu verða enn hærri. Hins vegar hafa tekjur af stríðsgróðaskatti, þ.e.a.s. sérskatti hinna tekjuhæstu og ríkustu, lækkað og eru nú áætlaðar 1 millj. kr. lægri en s.l. ár, enda þótt gróði þessara aðila hafi aldrei verið meiri en nú þessi árin. Er öllum svo ljóst, hvort það eru þeir, sem greiða eiga stríðsgróðaskattinn, sem fyrir fátæktar sakir hafa mesta þörf fyrir skattalækkun, að óþarft er um að ræða.

Ég sagði í upphafi máls míns, að það skipti þjóðina ekki litlu, að hvaða þróun etnahags- og atvinnulífsins væri stefnt með fjárl. og öðrum afskiptum ríkisvaldsins af þeim málum. Ég skal reyna að skýra þetta nánar.

Óski þjóðin að veita sér aukin lífsþægindi eins og rafmagn, betri vegi og samgöngutæki, aukna menntun eða heilsugæzlu, aukið fjárhagslegt öryggi o.s.frv., en halda jafnframt fjárhagslegu og stjórnarfarslegu sjálfstæði sínu, verður atvinnulíf hennar að vera svo blómlegt og arðbært, að það geti risið undir þessum kröfum auk alls þess, sem þjóðin þarfnast til þess að viðhalda lífi sínu. Þetta er einföld staðreynd og ætti að vera hverju fermingarbarni ljós. Og þó hefur maður allt of oft ástæðu til að ætla, að hún sé jafnvel æðstu ráðamönnum og spekingum íslenzkrar þjóðar algerlega hulin. Má um það nefna mörg dæmi.

Fyrst mætti e.t.v. nefna það, hve lítil áherzla hefur til þessa verið lögð á það að heina æðri menntun þjóðarinnar inn á þau svið, sem gætu orðið atvinnuvegunum lyftistöng og fært þá fram á við, svo að þeir mættu sem bezt fullnægja kröfum hvers tíma. Enn er það, að þeir fáu menn, sem hafa lagt út á þá braut að afla sér æðri verklegrar menntunar, eru í bezta falli settir í skrifstofustóla og látnir vinna þar verk, sem að litlu eða engu eru höfð, en í mörgum tilfellum verða þeir að flýja land vegna þess, að svo lítur út sem þjóðin hafi ekki verk handa þeim að vinna og enga þörf fyrir dýrmæta þekkingu þeirra. Og þó mætti öllum vera ljóst, að sú þjóð, sem ekki hagnýtir þá fullkomnustu þekkingu, sem völ er á, í þágu atvinnulífsins, hlýtur að dragast aftur úr öðrum og enda sem bónbjarga vesalingur og ósjálfstæð nýlenda undir stjórn annarra, sem annaðhvort kynnu betur á málum að halda eða hefðu annan ávinning af því að hirða land hennar.

Þá verður ekki komizt hjá því að nefna sem dæmi þá staðreynd, að sérhver þjóð, sem er í vexti, verður árlega að færa út kvíarnar, auka við atvinnuvegi sína og finna nýja og auka á þann hátt framleiðslu sína, ef takast á að færa hverjum nýjum árgangi þjóðarinnar, sem við bætist í tölu vinnandi fólks, hagnýt verkefni og búa hverjum þjóðfélagsborgara lífvænleg skilyrði, en ekki atvinnuleysi og eymd.

Samkvæmt nýútkomnum hagtíðindum bætast við tölu fullvinnandi fólks í okkar þjóðfélagi árlega um 2000 manns, sem þarfnast arðhærra verkefna til þess að lifa af. Að nokkrum árum liðnum verður viðbótin um 3000–3500 manns árlega og fer að sjálfsögðu vaxandi. Augljóst er, að eigi þetta fólk að staðfestast í landinu, verða atvinnumöguleikarnir að aukast stórlega á ári hverju. Með stefnu sinni og afskiptum af fjárhags- og efnahagsmálum geta stjórnarvöldin stuðlað að því, að svo verði, en einnig unnið gegn því, ef af skammsýni og annarlegum hvötum er unnið.

Allar sjálfstæðar þjóðir leggja á það höfuðáherzlu að auka framleiðslu sína og efla atvinnulíf sitt ár frá ári. Er til þess varið mikilli atorku og miklum fjármunum af hálfu stjórnarvalda, félaga og einstaklinga. Nýlega var t.d. frá því skýrt, að framleiðsla Frakka hefði aukizt um 61/2 % fyrstu 6 mánuði þessa árs. Þóttu það mikil tíðindi og góð þar í landi. En hvernig horfa þessi mál við hér? Öllum landsmönnum er ljóst, að vegna aðgerða og afskipta valdhafanna með skattakúgun og hernaðarbrölti hafa atvinnuvegirnir dregizt saman og framleiðslutækin legið ónotuð og grotnað niður síðustu 3 árin. Og mér er ekki kunnugt um það, að nokkru sinni hafi verið gerð tilraun til þess síðustu árin hér á landi að athuga það, hvort framleiðslan hafi aukizt eða minnkað og hve mikið, hvað þá að skipulega hafi verið unnið að því að auka hana. Hins vegar hefur verið varið til þess mikilli atorku og fyrirhöfn að betla í síauknum mæli og biðja um meiri hernaðarframkvæmdir í landinu. Fyrir þannig fengnar tekjur hafa valdhafarnir lofað þjóðinni auknum lífsþægindum og aukinni velmegun fyrirhafnarlaust og gefins, samtímis því að þjóðin horfir á atvinnuvegi sína og sjálfsbjargarmöguleika riða til falls.

Við þjóðvarnarmenn höfum aldrei reynt að blekkja þjóðina með loforðum um gefins lífsþægindi og fyrirhafnarlausa velmegun eins og hinir stjórnmálaflokkarnir. Við höfum þvert á móti sagt henni opinskátt og hreinskilnislega, að vildi hún halda frelsi sínu og sjálfstæði, kostaði það baráttu og fórnir, erfiðleika og einbeittan vilja til að ná því marki. Við höfum sagt henni af fullkominni hreinskilni, að hún yrði að neita sér um fjölmargt, sem hún gjarnan vildi veita sér, á meðan hún væri að efla atvinnuvegi sína svo, að þeir gætu risið undir og borið uppi þau lífsþægindi, sem þjóðin á skilið og verður að gera kröfu til, vilji hún halda menningu sinni og virðingu sjálfrar sín og annarra.

Við þjóðvarnarmenn höfum reynt að benda þjóðinni á, að frumskilyrði alls þessa væri efling atvinnuveganna og aukin fjölbreytni þeirra, og við höfum bent á fjölmörg verkefni, sem þar biðu óleyst. Gagnstætt þessu hafa hinir flokkarnir og þá fyrst og fremst stjórnarflokkarnir lofað þjóðinni aukinni velmegun og lífsþægindum með styrkjum frá sjálfri sér, úr sínum eigin sjóði — ríkissjóði, og öðrum geigvænlegri ráðum, sem a.m.k. munu skilja eftir ör á þjóðarsálinni langt fram í tímann, ef ekki tortíma þjóðinni að fullu.

Íslenzk stjórnarvöld hafa frá árinu 1948 gefizt upp við að leysa þann vanda, sem það er fyrir fámenna þjóð að lifa sjálfbjarga lífi í landi sínu. Í stað þess að leggja áherzlu á að auka framleiðslu þjóðarinnar hafa allar ríkisstjórnir, sem farið hafa með völd frá árinu 1948, gengið æ lengra á þeirri uppgjafar- og glötunarbraut að biðja um fé frá erlendu stórveldi, annaðhvort beint eða óbeint, gegnum hervirkjagerð í landinn. Í hagtíðindum Hagstofu Íslands frá þessum árum er yfirlit um það, hve mikið fé íslenzk stjórnarvöld og hermangarar hafa fengið frá Bandaríkjunum „á miðnætti íslenzkrar ómennsku“ eins og Arnór Sigurjónsson hefur orðað það af fullkomnum skilningi og listfengi. Yfirlit þetta sýnir ljóslega, hversu skjótt hefur sigið á ógæfuhlið, síðan betli- og hermangarastefnan var upp tekin, og hve uggvænlega skammt er þess að bíða, að þjóðin hafi tapað yfirtökunum á sínu eigin atvinnulífi að því er snertir gjaldeyrisöflunina. Samkvæmt hagtíðindunum hafa íslenzk stjórnarvöld þegið alls 774 millj. kr. með framangreindum hætti á árunum 1948-53, að báðum meðtöldum, reiknað á skráðu gengi hvers árs. Meðalgjaldeyristekjur þjóðarinnar þessi 6 ár fyrir eigin tilverknað eru hins vegar ekki nema 720 millj. kr. á ári. Þetta þýðir það, að íslenzk þjóð hefur á s.l. 6 árum lifað gjaldeyrislega séð meira en eitt ár eingöngu á gjöfum og hernaðarbraski.

Gjafaféð og hernámspeningarnir skiptast þannig árlega: Árið 1948 nam gjafaféð 1.8% af gjaldeyristekjum þess árs, árið 1949 3%, árið 1950 11.3%, árið 1951 11.8%, árið 1952 nam gjafafé og hernámspeningar 18.5% af heildargjaldeyristekjunum, og árið 1953 nam þetta hvort tveggja hvorki meira né minna en 27.7 % af gjaldeyristekjunum, eða 349.7 millj. kr. samtals. Og enn fer þetta vaxandi. Þannig var meira en fjórða hver króna, sem þjóðin eyddi í erlendum gjaldeyri 1953, þegin að gjöf eða fengin fyrir hernaðarbrask erlends stórveldis í okkar landi.

Framkvæmd betli- og hermangarastefnu þeirrar, sem ég hef hér lýst í stórum dráttum, hefur orðið með nokkuð nýstárlegum og óvæntum hætti miðað við skipulag lýðræðisþjóða. Íhaldsflokkarnir hafa tekið upp þá reglu að skipa þannig málum á þeim stöðum, þar sem ránsfengnum er skipt, að útilaka það, að þar geti myndazt lýðræðislegur meiri hluti, er ákvörðun ráði. Þannig er fjárhagsráð með nýja nafninu skipað tveim mönnum, en þar er innflutningsog fjárfestingarleyfum skipt jafnt milli helztu gæðinga stjórnarflokkanna. Stjórn hermangarafyrirtækisins Aðalverktakar h/f er skipuð fjórum mönnum, tveim frá hvorum stjórnarflokkanna um sig. Þannig er það stjórnarfarslega tryggt, að hvorugur aðilinn fái meira en hinn. Náist ekki samkomulag um helmingaskiptin, eru jafnvel þjóðþrifafyrirtæki eins og sementsverksmiðjan látin bíða, unz klíkurnar hafa náð samkomulagi um það, hvernig hagkvæmast sé að féfletta þjóðina og hvernig fengnum skuli skipt.

Þó að gjafafé og hernámsvinna hafi borið uppi stefnu hæstv. ríkisstj. í efnahags-, atvinnu- og fjármálum, er því ekki að leyna, að þar eru fleiri eftirtektarverðir þættir. T.d. má þar til nefna hin miklu loforð stjórnarinnar í raforkumálum. Afrekin á því sviði hafa hins vegar verið þau helzt að gera Sogs- og Laxárvirkjanirnar að féþúfu fyrir ráðdeildarlaust fjárbruði valdhafanna og sækja þangað milljónatugi í eyðsluhít ríkissjóðs. Á öðrum stórafrekum bólar lítið. Hæstv. ríkisstj. hefur lýst yfir því, að virkjunarframkvæmdir fyrir Austurland verði ekki hafnar. Hins vegar hefur hún reynt að blekkja fólk á þessu svæði með því að gefa í skyn, að rafmagn yrði leitt frá Laxárvirkjun til Austurlands með nýrri sænskri aðferð, og þó veit hæstv. ríkisstj., að þessi aðferð er enn á tilraunastigi og að mörg ár geta liðið, áður en þeim tilraunum lýkur. Einnig eru þau tæki, sem notuð yrðu við þennan flutning á rafmagni, svo dýr, að vafasamt er, að virkjun, t.d. í Lagarfljóti, yrði dýrari. Loks er svo órannsakað, hvort þessi sænska aðferð er framkvæmanleg við þau skilyrði, sem hér er um að ræða. Fleira mætti rekja til sönnunar því, að lítið mun verða úr hinum miklu rafvæðingarframkvæmdum ríkisstj. á þessu kjörtímabili og það enda þótt ríkissjóður hafi nær 100 millj. kr. tekjur umfram fjárlög árlega.

Eitt var það mál, sem sett var efst á loforðaskrá hæstv. ríkisstj., en það var sementsverksmiðjan. Nauðsyn þess máls fyrir þjóðfélagið þarf ekki að lýsa. Í upphafi settu bandarískir ráðamenn það skilyrði fyrir lánum til sementsverksmiðjunnar, að um hana yrði stofnað hlutafélag. Íhaldsflokkarnir komust að þeirri niðurstöðu, að eðlilegast væri, að sementsheildsalar ættu verksmiðjuna. Krafðist Framsfl. helmingaskipta fyrir S.Í.S. þar eins og annars staðar. Samkomulag hefur sem kunnugt er ekki náðst um þessi helmingaskipti milli stjórnarflokkanna, og er það ástæðan til þess, að enn hefur ekkert orðið úr framkvæmdum annað en það, að öðru hverju er þar eytt 2 millj. á ári, án þess að neitt verulegt sjáist eftir, og er enn gert ráð fyrir, að svo verði. Þessar upphæðir eru líka fyrst og fremst ætlaðar til þess að halda almenningi í þeirri trú, að eitthvað hljóti að gerast á næstunni í þessu máli. En ekki er sýnilegt, að svo verði. Og þó voru sérfræðingar Alþjóðabankans, sem hér voru á ferð, eins og t.d. Harryson Clark, því mjög meðmæltir, að Alþjóðabankinn veitti lán til sementsverksmiðjunnar, og töldu, að hún ætti að ganga fyrir öðrum framkvæmdum, t.d. áburðarverksmiðjunni.

Fleiri mjög markverða drætti í efnahags- og fjármálastefnu hæstv. ríkisstj. mætti að sjálfsögðu nefna, ef tími ynnist til, sem ekki er. Þó verður ekki hjá því komizt að nefna það meginatriði stjórnarstefnunnar, sem allt annað stefndi að, þ.e.a.s. að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum og stöðva verðbólguna. Þetta meginatriði var þannig framkvæmt, að verzlunarálagning var gefin frjáls, svo að allt vöruverð rauk upp í það, sem áður hafði verið kallað svartamarkaðsverð. Með þessu voru í fyrsta lagi þeim, sem reka verzlun, gefnar algerlega frjálsar hendur um að skammta sér sjálfir tekjur úr þjóðarbúinu, meðan kaup margra annarra stétta var bundið með lögum og samningum. Ofan á þetta var svo bætt bátagjaldeyrisokrinu, innheimta hins opinbera aukin um hundruð millj. króna árlega og mun á þessu ári verða um eða yfir 1000 millj. kr., þegar allt er talið, tekjur ríkis og sveitarsjóða, báta- og togaragjaldeyrisálag, skattgreiðslur til sjúkrasamlaga og tryggingastofnana o.fl. Samtímis þessu hefur svo eyðsla hins opinbera aukizt og framleiðsluatvinnuvegirnir stórlega dregizt saman vegna hernámsvinnunnar. Jafnvægið varð svo eftir því. Er því bezt lýst í skýrslu Landsbankans fyrir árið 1953, en þar segir svo um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„Rekstrarafgangur ríkissjóðs fór mjög fram úr áætlun, en vegna mikilla útgjalda utan rekstrarreiknings varð hann ekki til þess að hamla á móti þenslunni innanlands. — — Er það ljóst, að ný verðbólguskrúfa, sem einkum á rót sína að rekja til varnarliðsframkvæmdanna og mikillar fjárfestingar samfara ónógum sparnaði, mun ná fastari tökum á efnahagslífinu áður en langt liður, ef ekki er spyrnt við fæti.“

Þessi ummæli landsbankastjórnar og sérfræðinga hennar geta menn svo borið saman við digurbarkalegar fullyrðingar hæstv. ríkisstj. um það, að jafnvægi hafi náðst í þjóðarbúskapnum. Ljóst er, að verðbólguþróunin hefur haldið áfram stórum skrefum á þessu ári, enda ekkert gert til að stöðva hana enn þá, heldur þvert á móti.

Ummæli hæstv. forsrh., Ólafs Thors, hér á þingi við umræður um togaragjaldeyrisálagið verða þó ekki skilin á annan veg en þann, að tíðinda sé að vænta í því efni, því að hann lét svo um mælt, að þegar aðalatvinnuvegir þjóðarinnar eins og togaraútgerðin væru komnir á vonarvöl, teldi hann, að grípa þyrfti til annarra og almennari ráða en að lækna það með því að hækka skatta og álögur. Geta menn svo velt því fyrir sér, hver þessi almennu ráð hæstv. ríkisstj. eru og hafa verið.

Sú hrunstefna hæstv. ríkisstj. í fjármálum, efnahags- og atvinnumálum, sem ég hef hér rakið í stórum dráttum, verðskuldar sannarlega harðan dóm. Eftir atvikum tel ég eðlilegast og skyldast að láta málsvara hæstv. ríkisstj. sjálfa kveða upp þann dóm yfir sjálfum sér. Hann er þegar fyrir hendi og birtist í aðalmálgagni ríkisstj., Morgunblaðinu, hinn 11. sept. s.l. og er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Framsóknarmenn hafa löngum stært sig af því, að þeir væru miklir fjármálamenn. Þeir telja, að brjóstvitið hafi gefizt sér bezt, enda mun það vera sú eina tegund af fjármálaviti, sem þeir herrar hafa til að bera. Verst er þó, að þetta brjóstvit þeirra er oftast aðeins annað nafn á glópsku og reynsluleysi. Að minnsta kosti virðist áratugalangur fjármálaferill þeirra ekki bera vott um, að sú rödd sé „hugljúf og hrein“, enda er nú svo komið, að framsóknarspillingin hefur komið því til vegar, að svo gæti sýnzt sem Íslendingar væru orðnir hlutgengir, a.m.k. miðað við fólksfjölda, ef rætt er um glannaskap í fjármálum og hárugar viðskiptaaðferðir.“

Það er svo auðvitað hin víðfræga Morgunblaðsspeki að reyna að klína þessum dómi á Framsfl. einan. Auðvitað á þessi dómur við báða stjórnarflokkana og stjórnina í heild, því að þar er völdum, áhrifum og ábyrgð jafnt skipt eins og annars staðar, þar sem þessir herrar hafa hreiðrað um sig í sameiningu.

Sú stefna hæstv. ríkisstj. í fjárhags- og efnahagsmálum, sem ég hef hér rakið í stórum dráttum, mundi að sjálfsögðu eiga formælendur fáa, ef ekki kæmi til áróður og blekkingar, sem mörgum ágætum manni hefur villt sýn.

Það væri hættulegt að viðurkenna ekki þá staðreynd, að svo er nú komið, að fjölmargir Íslendingar trúa þeirri kenningu valdhafanna, að þjóðin geti ekki lifað án gjafa og gjaldeyristekna af hernaðarframkvæmdum erlends stórveldis. Þessir menn spyrja: Hvernig hefðum við t.d. lifað árið 1953, ef við hefðum ekki þegið nær 350 millj. kr. gefins og fyrir hernaðarvinnu? Þessu má að sjálfsögðu svara á margan veg, bæði með almennum rökum og einstökum dæmum. Í fyrsta lagi er það augljóst mál, að meginþorri þess fólks, sem vinnur hjá hernum, er dregið frá íslenzkum atvinnuvegum, þ. á m. frá útflutningsframleiðslunni. Að sjálfsögðu hefðu því gjaldeyristekjur þjóðarinnar af eigin aflafé orðíð meiri árið 1953 en þær urðu, ef þetta fólk hefði starfað við framleiðslu útflutningsafurða. Framleiðslutækin voru fyrir hendi, því að margir bátar lágu bundnir vegna fólkseklunnar. Markaðir voru einnig fyrir hendi, því að nú er svo komið, eins og allir vita, að við framleiðum ekki einu sinni upp í gerða samninga, hvað þá að það sé reynt, hvort enn mætti selja meira. Þar að auki er ljóst, að þjóðin þyrfti ekki að nota jafnmikinn erlendan gjaldeyri til neyzlu og hún gerir, því að fjöldamargt er keypt erlendis frá, sem framleiða má hér eða ónauðsynlegt er að kaupa. Má þar til nefna, að við kaupum fyrir milljónatugi erlendar iðnaðarvörur, sem hér eru framleiddar með góðum árangri. Árlega greiðum við 30–40 millj. kr. í erlendum gjaldeyri til olíuflutninga, sem við gætum eins annazt sjálfir, og kaupum skepnufóður fyrir 10–15 millj. og sement fyrir 10–20 millj. árlega auk margs annars, sem óþarft er að eyða gjaldeyri í. Þá hefur ekki verið reynt að framleiða hér aðrar vörur en sjávar- og landbúnaðarafurðir til útflutnings, enda þótt ljóst sé, að margt annað megi framleiða og með meira markaðsöryggi en þær vörur. Má t.d. nefna alúmin, ýmiss konar efni og sýrur úr sjó og þangi, brennistein o.fl., o.fl., sem of langt mál yrði upp að telja.

En þeir, sem trúa á lífsnauðsyn hernámsins, segja enn: En árið 1953 hefðum við ekki getað haft meiri gjaldeyristekjur við eigin framleiðslu en af hernáminu fyrir það fólk, sem vann við hernaðarframkvæmdir. — Þetta þarf ekki að vera rétt og er ekki rétt. Það, að fólk leitaði heldur í hernámsvinnuna heldur en að framleiðslustörfum, sannar ekkert um gjaldeyristekjur eða þjóðartekjur af störfum þess. Fólkið kýs heldur hernámsvinnuna af þeirri einföldu ástæðu, að hver einstaklingur ber þar að jafnaði persónulega meira úr býtum fyrir minni og léttari vinnu en býðst við framleiðslustörfin.

Þá er það vitað, að við framleiðsluatvinnuvegina hafa safnazt svo margir óþarfa milliliðir og gróðabrallsmenn, sem hrifsa til sín meginhlutann af verðmæti framleiðsluvaranna, að hlutur hins vinnandi fólks verður óeðlilega lítill, og miklum mun minni en ef t.d. sjómenn og verkamenn ættu í félagi bátana, vinnslustöðvarnar og skipin, sem flytja fiskinn á erlendan markað, en gættu þess að auki, að auðhringar hrifsuðu ekki til sín tugmilljóna gróða af olíusölu og innflutningi á rekstrarvörum útgerðarinnar.

Og þeir, sem trúa á nauðsyn hernámsvinnunnar fyrir afkomu þjóðarinnar, hljóta að verða að svara þeirri spurningu, hvað þjóðin á að taka til bragðs, þegar sú „guðs blessun“ tekur enda, því að einhvern tíma hlýtur það að verða. Ljóst er, að haldi svo fram sem nú horfir, að fleiri og fleiri menn hverfi frá framleiðslunni að hervirkjagerð, hljóta atvinnutækin að stöðvast og eyðileggjast. Og hvernig á þjóðin þá að lifa af eigin framleiðslu sinni með færri og úreltari framleiðslutæki en hún á nú, ef hún gat ekki lifað á henni árið 1953, þegar hún átti fleiri og betri framleiðslutæki en nokkru sinni áður í sögu sinni? Þessum spurningum geta hernámspostularnir ekki skotið sér undan að svara, ef þeir ætlast til, að þeir séu teknir alvarlega.

Við þingmenn Þjóðvfl. Íslands höfum svarað þessum spurningum af okkar hálfu. Við höfum svarað þeim með því að krefjast þess og bera fram till um það, að ríkisvaldið beitti sér fyrir eflingu atvinnuveganna og að vinna íslenzkra manna við hervirkjagerð yrði stöðvuð jafnskjótt og atvinnuvegirnir gætu við þeim tekið. Við höfum nú þegar lagt fram þáltill. um það, að þingflokkarnir tilnefndu hver um sig einn mann í nefnd til að rannsaka og gera till. um það, á hvern hátt megi efla íslenzkt atvinnulif og íslenzka atvinnuvegi svo, að þeir geti tekið við því fólki, sem nú vinnur hjá hernum, svo og búið þeim stóra hóp, sem þjóðinni bætist árlega, lífvænleg skilyrði. Takist ekki að knýja stjórnarflokkana til að fara inn á þá braut, sem bent er á í till. okkar þm. Þjóðvfl., verður þjóðin sjálf að gripa í taumana, ef hún á að sjá dag renna eftir það miðnætti íslenzkrar ómennsku, sem grúft hefur yfir henni um skeið.