17.02.1955
Sameinað þing: 37. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í D-deild Alþingistíðinda. (2923)

147. mál, vernd gegn ágangi Breta

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að hafa mörg orð með þessari till., og ég vonast líka til þess, að þess þurfi ekki. Ég býst við, að jafnt hér á þingi sem úti um allt land sé reiði út af því framferði, sem Bretar — og einkum brezkir togaraskipstjórar — hafa sýnt upp á síðkastið gagnvart íslenzkum fiskimönnum. Og ég vonast til þess, að sú almenna gremja, sem ríkir á meðal þjóðarinnar út af þeirra framkomu, eigi sér líka næga fulltrúa hér á Alþingi, til þess að Alþingi áliti rétt að mótmæla þeim aðförum, sem þar eru hafðar í frammi af hálfu brezkra manna, sem ekki eiga samt okkur neitt nema gott upp að unna, — mótmæla þeim með því að fela ríkisstj. að herða á þeirri vernd, sem hún getur látið í té eigum og lífi íslenzkra fiskimanna, sem stunda sína erfiðu atvinnu úti fyrir Vestfjörðum og nú upp á síðkastið hafa orðið fyrir alveg óþolandi ágangi af hálfu brezku togaranna.

Ég sá í Morgunblaðinu, þriðjudaginn 15. febr., að á Suðureyri við Súgandafjörð hefur, rétt eftir að ég lagði fram mína till. hér, verið gerð allýtarleg samþykkt og komið þaðan allýtarleg yfirlýsing og lýsing um leið á ástandinu, sem á sér stað úti fyrir Vestfjörðum. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp ofur lítinn hluta úr þeirri lýsingu, sem þeir menn gefa, sem þar eru kunnugastir, vélbátaskipstjórarnir frá Suðureyri við Súgandafjörð. Í innganginum að samþykkt, sem er frá þeim birt, segir svo:

„Iðulega kemur það fyrir, að bátarnir hliðra sér hjá togurunum og leita á ný mið, en samdægurs hafa brezkir togarar fyllt miðin og með ágengni sinni og augljósu skeytingarleysi stofnað mannslífum og bátum í hættu á áberandi hátt, auk þess að þeir eyðileggja veiðarfæri fyrir þeim nærri daglega. Alþjóðlegar siglingareglur eru virtar að vettugi í yfirgangi hinna brezku skipstjóra, enda þótt einstaka undantekningu sé að finna. Togararnir, sem tjóninu valda, eru eingöngu brezkir, og hafa sjómenn á orði, að þeir séu hræddari við brezkan togara en óveður. Togarar annarra þjóða koma hér ekkert við sögu.“

Síðan heldur áfram löng lýsing á þessu. Á sunnudaginn, þann 13. febr., hafa svo skipstjórar vélbátanna komið saman þarna á Suðureyri við Súgandafjörð og samþykkt eftirfarandi áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar:

„Vélbátaskipstjórar á Suðureyri við Súgandafjörð beina þeirri áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar, að undinn verði bráður bugur að aukinni varðgæzlu á miðum fiskibáta fyrir Vestfjörðum. Við leyfum okkur að benda á sívaxandi virðingarleysi brezkra togaraskipstjóra fyrir alþjóðalögum og reglum, sem orsakað hefur slys og síaukið veiðarfæratjón.“

Ég geri ráð fyrir því, að það sé vilji allra alþingismanna, að við tökum undir þær óskir, sem koma fram frá hálfu þessara íslenzku fiskimanna. Það eru fiskimennirnir af sömu slóðum, sem hafa lagt líf sitt í hættu til þess að bjarga brezkum togaraskipstjórum og brezkum sjómönnum, þegar þeir hafa strandað á Vestfjörðum. Mér finnst rétt, að við látum koma í ljós hér frá Alþingi Íslendinga, að Alþingi líti alvarlegum augum á það framferði, sem þarna á sér stað, og sé reiðubúið af hálfu okkar Íslendinga að stuðla að því, eftir því sem okkur er frekast unnt, að þessum ljóta leik brezkra togara verði hætt.

Ég vil leyfa mér að vona, að hv. þm. geti því orðið við því að samþykkja þessa till. eins og hún liggur fyrir.