15.10.1954
Sameinað þing: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

1. mál, fjárlög 1955

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þegar íslenzka ríkisstj. gerir áætlanir um framkvæmdir og fjárreiður fram í tímann, skeður það auðsjáanlega með þeim hætti, að fjmrh. dregur fram gamalt blað og rykfallið úr skáp sínum eða hillu, veitir því fyrir sér, strikar ofan í einhverja tölustafi, gætir þess þó að láta ekki muna miklu á einstökum liðum, og siðan eru fjárl. frá fyrra ári endurprentuð með ofaníkroti ráðh. og heita nú frv. til fjárlaga, Þetta plagg liggur nú hér fyrir Alþ., og hefur fjmrh. fylgt því úr hlaði með ræðu. Bæði ræðan og frv. eru á sinn hátt athyglisverð, því að þau sýna það betur en flest annað, hve lítill skyldleiki er með þjóðinni í landinu og ríkisstj. og hve litla athygli hið lifandi starf þjóðarinnar vegur á hærri stöðum.

Í lífi þjóðarinnar eru sífellt að skapast ný vandamál, sem þjóðin glímir við í sínu ólgandi starfi. Afli þverr á einum stað, og ný fiskimið finnast á öðrum. Til þess að mæta breytingunni af fullri einurð og hagnýta hina nýju möguleika og láta það, sem tapaðist, ekki á sig fá, þarf mörgu að breyta, margt að byggja og flytja. Verktækni gerbreytist og krefst þess, að með allt öðrum hætti sé unnið að en áður var, og fólkið í landinu skilur, hvaða þýðingu aukin tækni hefur í för með sér, og leggur sig fram um að brjóta niður þá þröskulda, sem í vegi eru, og byggja það, sem á vantar, til þess að hið úrelta víki fyrir því, sem fullkomnara er.

Þannig starfar þjóðin, eftir því sem ástæður hennar frekast leyfa, á ótal sviðum að viðhaldi þess, sem áunnizt hefur, og framförum í fullri vitund þess, að framvinda tímanna treður hvern þann undir í lífsbaráttunni, sem ekki fylgist með þróuninni, hvort heldur þar á í hlut einstaklingur, hreppur eða þjóðfélag.

Alveg sérstaklega er það þó áríðandi, að þjóðfélagið geri allt, sem í þess valdi stendur, til þess að fylgjast með högum atvinnuveganna og undirbyggja þá, sem bezt má verða, til þess að skapa þjóðinni velmegun. Slíkt verður auðvitað ekki gert án þess að móta fjármálastefnuna eftir þörfum þjóðarinnar.

En ríkisstj. kýs sem sagt að rýna í gömlu blöðin sín og endurprenta þau frá ári til árs sem sínar till. um fjármálastefnu ríkisins, hvað sem liður lífi og starfi þjóðarinnar.

Af ræðu þeirri, sem fjmrh. flutti til áréttingar þessu frv. sínu og ríkisstj., rifjast það upp, að á fjárl. fyrir yfirstandandi ár eru tekjur ríkisins áætlaðar 4431/2 millj. kr. Fjmrh. taldi sig við setningu þeirra laga sýna hina ýtrustu bjartsýni og taldi alla þá sýna gáleysi, er töldu tekjurnar þar vanreiknaðar. Nú upplýsir þessi sami ráðh., að tekjurnar muni fara á annað hundrað millj. kr. fram úr áætluninni og verða væntanlega 550 millj., og telur hann þetta stafa af alveg sérstöku góðæri. Jafnframt byrjar hann sinn sama gamla söng um, að fávíslegt væri að áætla tekjurnar í samræmi við það, sem veruleikinn sannar að þær eru.

Það var einnig augljóst af ræðu ráðh., að hann er ánægður. Að vísu er ánægja hans eitthvað blandin varðandi suma þætti fjármálanna, og framtíðarhorfurnar eru allt annað en glæsilegar í hug hans. Þar eru ótal blikur á lofti.

Þegar nánar er að gætt, hvað það í rauninni sé, sem ráðh. er ánægður með, þá er það fátt annað en stjórnvizka þess manns, sem getur fengið talnadálka til að skila hærri útkomu teknamegin en á gjaldahliðinni og í framhaldi af því hringlað aurakistlinum sínum og látið glamra í. M.ö.o.: Ráðh. er ánægður með sjálfan sig og fjármálaspeki sína. Hann telur sig hafa bjargað öllum vandanum með því að koma með riflega afgangsaura í ríkiskassanum út úr öllum þeim voða, sem sigla þurfti fram hjá, og þótt hann fyrir lítillætis sakir segi það ekki berum orðum, mátti vel af máli hans ráða, að hinn eini vonarneisti, sem þjóðin ætti á sínum uggvænlegu framtíðarbrautum, væri hans frábæra fjármálastjórn.

Þeir, sem ekki vilja rengja ráðh. eða draga ágæti hans í efa, hljóta því að sitja uppi með þær hugmyndir, að allir aðalatvinnuvegir þjóðarinnar, sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður, séu í rauninni niðþungir ómagar, sem í raun réttri séu ekki á vetur setjandi og öllu ætli að ríða á slig, einkum þó sjávarútvegurinn, en fyrir frábæran dugnað og búhyggindi Eysteins Jónssonar bjargist þetta allt af; lífinu sé haldið í ómögunum og gróði á búskapnum þrátt fyrir allt.

Í framhaldi af þessu má telja víst, að ráðh. og hans skoðanabræður teldu þjóðarhag þá fyrst vel borgið, ef þessir ómagar væru úr sögunni, svo miklu angri sem þeir valda ráðh. og svo þungir sem þeir eru honum í skauti.

Já, við Íslendingar höfum á síðustu árum fengið allmikla undirbúningsþjálfun í því að meðtaka einkennilegar hugmyndir frá hinni ráðandi stétt á Íslandi.

Lengi höfum við t.d. verið fræddir á því, að Kóreumenn hafi gert innrás í Kóreu, en þangað hafi til allrar hamingju komið Bandaríkjaher til varnar. Þótt mér og öðrum fávísum finnist eitthvað bogið við þetta, munu þeir þó ófáir, sem taka þetta fyrir góðan og gildan varning.

Þá höfum við einnig fengið að heyra þá kenningu, að það sé þjóðinni lífsnauðsyn, að landið sé hersetið og vígbúnaður hafður uppi og ógnanir gegn þeirri þjóð, sem bezt hefur reynzt okkur í viðskiptum til þessa, — þeirri þjóð, sem reynslan sannar, að jafnskjótt og viðskiptasambönd okkar við hana rofna, er hér skollin á fjárhagskreppa. Við erum líka margir, sem ekki föllumst á réttmæti þeirra ráðstafana ríkisstj. að halda landinu í hernámsástandi, þótt e.t.v. finnist einhverjir, sem ekki telja sig menn að minni, þótt þeir jánki kenningum ríkisstj. í hermálunum.

En þrátt fyrir margendurteknar tilraunir valdaklíkunnar á Íslandi til þess að fá hrekklaust fólk til þess að fallast á fjarstæður, og þrátt fyrir nokkurn árangur í þeim efnum, þegar um fjarlæga atburði er að ræða, þá hygg ég, að hæstv. fjmrh. gangi skrefi of langt, þegar hann opinberar þá skoðun sína, að atvinnuvegirnir, og þá fyrst og fremst sjávarútvegurinn, séu ómagar á þjóðinni, en skattarnir séu hins vegar hinn raunverulegi bústofn, enda er líklegast, að þetta verði að vera hans einkaálit og þeirra talsmanna ríkisstj., en flestir aðrir afsali sér þeim heiðri að taka undir þessar kenningar.

Við höfum nú orðið nokkurra ára reynslu af þeirri fjármálastjórn, sem að setningu fjárl. mun standa á þessu þingi og vinnur með þeim hætti að fjárlfrv. sínu, sem áður er lýst. Árangurinn af tillitsleysi hennar í vandamálum atvinnulífsins er sá, sem allir þekkja, að 2–4 mánuði ár hvert er togaraflotinn bundinn við landfestar og þannig glatað stærstu möguleikunum, sem þjóðin á þessum tímum á til verulegrar framleiðsluaukningar og þar með til bættra lífskjara. Vélbátaflotinn hefur einnig á undanfarandi árum verið látinn liggja í mánuð eða stundum á annan mánuð í vertíðarbyrjun í hálfopinberu stríði útgerðarmanna við ríkisstj. um það, hvort ríkisvaldið, sem einokar alla afurðasöluna undir gæðinga sína, skapar þessum útvegi nokkra rekstrarmöguleika eða enga. Og það er aldrei mál ríkisstj., hvort sjór er sóttur af hálfu landsmanna eða ekki, fyrr en hún er toguð og neydd til þess að gera einhverjar ráðstafanir útveginum til handa, sem hún hefur nokkurn raunverulegan áhuga fyrir, en það er að veita gæðingum sínum aðstöðu til þess að okra á útgerðinni, og flokkar hæstv. ríkisstj. þurfa um það eitt að semja, hversu skipta skuli milli Framsóknar- og Sjálfstæðisgæðinganna gróðamöguleikunum. Samband ísl. samvinnufélaga og Sölusamband ísl. fiskframleiðenda hafa t.d. einkarétt á saltfisksútflutningnum, en olíufélögin Esso og Shell fá að okra á olíu þeirri, sem ríkið kaupir sjálft til landsins.

Um nokkurra ára skeið hefur ríkisvaldið með fjármálastjórn sinni stöðvað að mestu eða öllu smiði nýrra fiskibáta í landinu og jafnframt synjað að miklu leyti um leyfi til innflutnings á fiskibátum. Þetta er auðvitað skiljanleg ráðstöfun út frá því sjónarmiði, að útvegurinn sé ómagi á þjóðinni, enda margþekkt fordæmi um það, að oddvitar eða hreppsstjórar, sem ábyrgð báru á sveitarsjóðum fyrr á árum, gerðu allt, sem í þeirra valdi stóð, til þess að koma í veg fyrir það, að hreppsómagar ykju kyn sitt. Hins vegar keppast stjórnarflokkarnir um það að greiða fyrir því, að þeir, sem hirða milliliðagróðann af sjávarútvegi landsmanna, fái að flytja inn allt, sem þeir girnast, þ. á m. skip, og leggja þeim meira að segja til ábyrgð ríkissjóðs fyrir greiðslu skipanna.

Á fjárlfrv. er hvergi gert ráð fyrir því, að ríkið ráði í einu eða neinu bót á þeim vandkvæðum, sem útgerðin á við að stríða, og eru þó vandkvæðin til komin fyrir beinar aðgerðir ríkisvaldsins, eins og ég hef áður rakið. Það væri því engan veginn óhugsandi, að enn á næsta ári mætti þjóðin eiga von á því, að saga síðustu ára endurtæki sig, þannig að stöðvun yrði á einhverjum þætti framleiðslustarfanna, þjóðin tapaði niður svo og svo stórum hluta af framleiðslumöguleikum sínum og ríkisstj. yrði um síðir dregin til að hafa afskipti af málinu, og þau afskipti mundu auðvitað verða á sama hátt og svo oft áður: nýir skattar á þjóðina, hvort þeir yrðu nú nefndir bílaskattur, bátagjaldeyrir, gengisbreyting, eins og hingað til hefur verið, eða eitthvert nýtt nafn upp fundið. Íslendingar eru orðnir ýmsu vanir í þessum efnum, en þó má fullyrða, að takmörk eru fyrir því, hve langt er hægt að ganga í því að skattleggja þjóðina á ný með auknum sköttum ár frá ári.

Það er ekki úr vegi að rifja það dálítið upp, með hverjum hætti tekjur ríkisins og þar með auðvitað tekjuafgangur ríkisins er fenginn.

Þeir, sem samþykkja kenningu Eysteins Jónssonar um það, að það sé hin frábærlega ágæta fjármálastjórn í landinu, sem ein hafi bjargað því, að ekki er allt komið í kaldakol, og mest vegna þess, hversu atvinnuvegirnir séu þungir ómagar á þjóðinni, gætu hugleitt það, hvaða atvinna það er, sem þessi Eysteinn stundar og gefur svona miklar og góðar tekjur, að ríkið bjargast af þrátt fyrir ómegðina.

Á fjárlfrv. er gert ráð fyrir, að skattar og tollar ársins 1955 nemi 382 millj. kr. Þetta er um 44 millj. kr. hækkun frá síðustu fjárl. og kemur furðu illa heim við þá fullyrðingu málsvara ríkisstj., að lækkaðar skyldu skattabyrðar á þjóðinni. Við afgreiðslu skattalaganna á síðasta þingi lét stjórnin það í veðri vaka, að breytingarnar á útreikningi tekjuskatts og eignarskatts mundu lækka þá skattgreiðslu um 20%, eða um nálega 12 millj. kr. Á fjárl. þessa árs, sem samin voru meðan engin breyting var enn orðin á skattalögunum, voru skattar þessir reiknaðir 561/2 millj. kr., en í fjárlfrv. í ár er gert ráð fyrir hækkun á þessum lið upp í 62.8 millj., og er þá augljóst, að þjóðin fær að borga meira í tekju- og eignarskatt eftir lagabreytinguna en fyrir hana. Það er að vísu rétt, að skattstiginn lækkaði heldur við tilkomu hinna nýju skattalaga, en áætlanir ríkisstj. voru á engu viti byggðar. Þær voru, eins og fjárlfrv., samhengislausar við líf og starf þjóðarinnar. Þær voru krot ofan í gamlar tölur, — krot, sem ekki stóðst próf reynslunnar.

En þótt fjárlfrv. geri ekki ráð fyrir nema 382 millj. kr. tollum og sköttum beint í ríkissjóð, þá verður þjóðin fyrir atbeina ríkisvaldsins að gjalda miklu hærri þegnskyldu en þeirri upphæð nemur. Þá er ótalið bátagjaldeyrisálagið, sem nema mun um 90 millj. kr. fyrir utan þá verzlunarálagningu, sem ofan á það kemur. Enn fremur er þá ótalinn bílaskatturinn nýi, hverju sem hann kann nú að nema á næsta ári. Forsrh. hefur upplýst hér á þingi, að á þeim árshluta, sem sá skattur nær til á yfirstandandi ári, en það er tæplega hálft ár, muni hann nema 13–16 millj. kr. Bátagjaldeyrir og bílaskattur ásamt verzlunarálagningunni á bátagjaldeyrinn munu því kosta þjóðina eitthvað yfir 150 millj. kr. á næsta ári.

Til þess að glöggva sig betur á því, hvað lagt er á hverja einstaka fjölskyldu í landinu til þess að þurfa ekki að skerða gróðamöguleika braskaranna, olíuhringanna, Eimskipafélagsins, Sambands ísl. samvinnufélaga og útflutningseinokaranna í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Sambandi ísl. fiskframleiðenda og annarra þeirra, sem nú græða á kostnað atvinnuveganna í skjóli ríkisstjórnarinnar, skulum við hugsa okkur 5 manna fjölskyldu, hjón með 3 börn. Tekjurnar skulum við ætla 40 þús. yfir árið, en það munu nokkuð algengar tekjur alþýðumanna nú og eru nokkru hærri en ófaglærðir verkamenn hafa fyrir 8 stunda vinnudag. Við skulum enn fremur reikna með því, að fjölskyldan eigi sinn eðlilega þátt í neyzlu þjóðarinnar og viðskiptum. Svo er vert að finna, hverja þegnskyldu slíkri fjölskyldu er gert að inna af hendi í ríkissjóð og aðra sjóði eftir lagaboði frá Alþ. og reglugerðum frá stjórnarráðinu. Sá reikningur yrði eitthvað á þessa leið:

Óbeinir skattar: Í fyrsta lagi aðflutningsgjald af vörum. Það er á fjárlfrv. yfirstandandi árs áætlað 1811/2 millj. kr., eða 6050 kr. á hverja 5 manna fjölskyldu. Söluskattur er í hinu nýja fjárlfrv. áætlaður 107 millj. kr., eða 3567 kr. á hverja 5 manna fjölskyldu. Í þriðja lagi ýmiss konar aukagjöld í ríkissjóð, svo sem stimpilgjöld, leyfisbréfagjöld o.s.frv., sem áætluð eru í frv. 24 millj., eða 800 kr. á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu. Og þá loks bátagjaldeyrisálögurnar og verzlunarálagningin á þær ásamt bílaskatti, sem ekki munu nema undir 150 millj., eða 5 þús. kr. á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu. Þarna höfum við orðið þegnskyldu í óbeinum sköttum fyrir þessa 5 manna fjölskyldu upp á 15417 kr. Nefskattar þessarar fjölskyldu, svo sem tryggingaiðgjöld, sjúkrasamlagsgjöld, námsbókagjald og nokkur fleiri, munu nema réttum 1400 kr., og tekjuskatturinn, sem slík fjölskylda hlýtur að greiða, er um 283 kr. Þ.e.a.s., þarna höfum við samtals 17100 kr., og þá er ótalið útsvar, sem nokkuð er mismunandi eftir því, hvar er á landinu. En þótt útsvarið sé ekki talið með, kemur í ljós, að samkvæmt beinu lagaboði greiðir slík fjölskylda kr. 42.75 af hverjum 100 kr., sem henni áskotnast, í þegnskyldu, aðra en útsvaríð. Ég vil endurtaka þessar tölur, að slík fjölskylda greiðir auk útsvars kr. 42.75 af hverjum 100 kr., sem henni áskotnast, í þegnskyldu til ríkisins eða eftir lögum frá ríkinu. Þegar þess er gætt, að útsvar slíkrar fjölskyldu í bæjum landsins er 2–3 þús. kr., verður ljóst, að rétt um helmingur teknanna er af slíkri fjölskyldu tekinn og allar þarfir sínar verður hún að greiða af helmingi launanna.

Það er ekkert að furða, þótt fjmrh. landsins miklist af því að hafa náð af þegnunum einhverjum milljónum fram yfir það, sem þörf var á, og nú fer það allt að verða ljósara, í hverju fjármálasnilld ráðh. liggur. Sífellt hækkandi partur af tekjum alþýðuheimilanna er upptækur ger með lögum og reglugerðum, stöðug óvissa um framtíð atvinnuveganna, rekstrarstöðvanir á hverju ári, einkum á sjávarútveginum, einokun á útflutningsverzluninni og alls kyns höft til verndar gæðingum ríkisstj. á innflutningnum, og hingað til hefur sérhvert strand, sem stjórnin hefur siglt hinum einstöku þáttum atvinnulífsins í, verið leyst með nýjum álögum á almenning í landinu.

Væri nú ekki eins hyggilegt, að ríkisstj. reyndi að læra eitthvað af síendurtekinni reynslu um stöðvanir atvinnutækjanna og framleiðslutap, reyndi að endurskoða sína fjármálastefnu, reyndi að undirbyggja öruggt atvinnulíf í landinu í stað þess að endurprenta sífellt sama blaðið og hafa það að leiðarvísi án tillits til þróunarinnar í þjóðlífinu? Væri ekki líka hyggilegt að gera sér einhverja grein fyrir því, að einnig sá tekjustofn, sem ríkisstjórninni er ósárast um að nota af algeru hlífðarleysi, sem sagt álögurnar á alþýðu manna, á sér líka takmörk og það er með öllu óhugsandi, að hið opinbera geti gengið miklu lengra en nú er þegar gert í því efni? Ég efast ekki um, að meðal liðsmanna ríkisstj. eru margir, sem telja það hyggilegra að taka af meira raunsæi á vandamálum þjóðfélagsins en núverandi ríkisstj. gerir. Ég held meira að segja, að flestir aðrir en þá hæstv. fjmrh. viti það fullvel, að það er ekki allt fengið með einhverjum tekjuafgangi í ríkissjóði. Fjármálastjórnina verður fyrst og fremst að meta eftir því, hvort hún eykur hagsæld þjóðarinnar og tryggir framtíðarmöguleika sjálfstæðs atvinnulífs í landinu. Hitt kemur a.m.k. ekki fyrr en í annarri röð, hvort tekjur og gjöld hafa staðizt á í ríkissjóði eða hvort einhver mismunur kann að hafa þar orðið. Fjármagn ríkisins á sem sagt að þjóna þjóðinni, en ekki gera þjóðina að þræli sínum.

Það er höfuðsynd núverandi fjármálastjórnar landsins að hafa bókstaflega gefizt upp við að reka sjálfstæðan þjóðarbúskap á Íslandi. Hún hefur um langt skeið að undanförnu séð fram hjá þörfum íslenzkra atvinnuvega og vanrækt skyldur sínar gagnvart þeim. Þar á móti hefur hún lagzt sem betlari að fótum ameríska herveldisins og þegið þaðan gjafir, — gjafir, sem þjóðin þó hefur orðið að gjalda hærra verði en nokkuð annað. Og enn stuðlar ríkisstj. að því eftir föngum að draga vinnuafl þjóðarinnar frá íslenzkum atvinnuvegum, frá íslenzkum framleiðslustörfum til starfa við stríðsundirbúning vina sinna í Reykjaneshrauni, enda hafa stjórnarflokkarnir nú raunverulegan gróða sem umboðsaðilar Bandaríkjahers við hernaðarframkvæmdirnar þar syðra og munu nú eftir alllangt þref vera búnir að koma sér niður á skiptingu þeirra fjármuna eftir sinni alkunnu helmingaskiptareglu.

Þegar þessara staðreynda er gætt, verður margt skiljanlegra um framferði stjórnarinnar í garð íslenzks atvinnulífs og raunar ekkert óskiljanlegt við fjármálastjórnina, nema lítilmennskan sem í því felst, að íslenzkir aðilar, sem falin hafa verið hin ábyrgðarmestu trúnaðarstörf í sínu þjóðfélagi, skuli telja sér sæmra að snuðra eftir gróðamöguleikum flokksklíkum sínum til handa en að einbeita sér að lausn vandamála þjóðar sinnar.

Ekki þætti mér ótrúlegt, að ríkisstj. eða málsvarar hennar reyndu að hrinda ádeilum á fjármálastjórnina með því að telja lífskjör þjóðarinnar góð um þessar mundir. Satt er það, að oft á tímum hefur þjóðin átt við þrengri kost að búa en nú. En þau kjör, sem þjóðin býr við nú, á hún alls ekki ríkisstj. að þakka, heldur þvert á móti hefur hún unnið sér þau í harðri baráttu við þau öfl, sem nú stjórna landinn. Alþýða landsins hefur þrásinnis orðið að beita mætti samtaka sinna til varnar þeim lífskjörum, sem ríkisvaldið rýrir stöðugt með auknum sköttum og álögum á alþýðu manna. Nei, það er dugnaður íslenzkra vinnuhanda á sjó og landi og verkalýðshreyfingin, sem valda því, að ríkisstj. hefur ekki orðið meira ágengt en raun ber vitni í því að sökkva íslenzku þjóðinni niður í eymd og fátækt. Ríkisstj. getur auðvitað komið fram fyrir þjóðina með gamalt blað og sagt: Sjáið þið, ég er svo sem búin að gera áætlun um áframhaldandi öryggi í fjármálum landsins. — Og sú sama ríkisstj. getur líka komið með aurabaukinn sinn hér að hljóðnemanum og hrist hann og lofað ykkur, áheyrendur góðir, að heyra, að dálítið af því fé, sem þið voruð látnir gjalda, er enn í vörzlu Eysteins Jónssonar. En hvorugt þetta breytir neinu um eðli þeirrar fjármálastefnu, sem núverandi hæstv. ríkisstj. hefur og þær ríkisstj., er setið hafa frá 1947, einnig höfðu.

ríkisstj., sem leggur sig fram um það að gera flokkum sínum og gæðingum hernám landsins að féþúfu, telur íslenzka atvinnuvegi ómaga á framfærslu ríkisins, verndar einokun, pínir allt að helmingi teknanna af alþýðu þessa lands og sér samt ekki fram á annað en áframhaldandi efnahagstruflanir í framleiðslu þjóðarinnar, hefur brugðizt sínu hlutverki og misnotað það traust, sem þjóðin sýndi henni. Andstæðingum ríkisstj., hvort sem þeir hafa hingað til talið sig í röðum þeirra flokka, sem styðja ríkisstj., eða fylgjendur stjórnarandstöðuflokkanna, ber að taka höndum saman í baráttu gegn þeirri spillingu, sem stjórnin hefur innleitt í fjármálin, sameinast til sköpunar ríkisstj., sem byggir störf sín á hagsmunum þjóðarinnar, segir upp hernámssamningnum og einbeitir sér að því að gernýta möguleika íslenzkra atvinnuvega til aukinnar hagsældar fyrir hina íslenzku þjóð.