16.03.1955
Sameinað þing: 46. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í D-deild Alþingistíðinda. (2935)

164. mál, vinnudeila

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er nú þegar búið að ræða allmikið og ýtarlega um yfirstandandi launadeilu og þó sérstaklega um afskipti ríkisvaldsins af þessum veigamiklu málum og þann þjóðarvoða, sem af kauphækkunum eða vinnudeilum muni leiða samkvæmt boðskap hæstvirtra ráðherra. Umræður um þetta efni fóru aðallega fram í umræðum þeim, sem spunnust út af skýrslu hæstv. fjmrh. um hag ríkissjóðs. Í þessum umræðum tefldi ríkisstj. fram sínum stærstu foringjum, svo að sýnilegt er, að a. m. k. í orði viðurkennir ríkisstj., að hér sé um þau mál að ræða, sem mikils sé um vert, og hlutur hennar var a. m. k. að ræðulengd og fyrirferð í dagblöðum ekki fyrir borð borinn. Það er því ekki óeðlilegt, að nokkrar umræður verði um þessi mál hér nú, þegar till. þessu lútandi liggur beinlínis fyrir.

Till. á þskj. 425, sem hér er til umræðu, er að vísu viðleitni í þá átt að reyna að leysa þann vanda, sem í þetta sinn steðjar að, en er ljóslega engin frambúðarlausn þessara viðkvæmu mála. Till. þessi, er flutt er af hv. 8. þm. Reykv. og hv. 8. landsk. þm., miðar að því, eins og frsm. hefur þegar getið, að fela ríkisstj. að skipa þegar í stað nefnd fimm alþm. til þess að vinna að lausn yfirstandandi kaup- og kjaradeilu. Af efni till. er því ljóst, að samþykkt hennar er fyrst og fremst miðuð við lausn núverandi vandamála, en eins og ég sagði áður: að sjálfsögðu yrði hún ekki varanleg lausn í þessum vandamálum.

Ég hef getið þess hér, að ég tel, að Alþingi eigi fremur að gera raunhæfar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að vinnudeilur, sem öllum ber saman um að séu hreint neyðarúrræði, eigi sér stað. Ef tekið hefði verið tillit til þeirra viðvarana, sem fram hafa verið bornar við flutning frumvarpa og þingsályktunartillagna um lækkað verðlag, um þriggja vikna orlof, lögfestingu á hvíldartíma togaraháseta, atvinnuleysistryggingar, öryggi á vinnustöðum o. s. frv., svo að nokkuð sé nefnt, þá væri án efa auðveldara að leysa þá hnúta, sem nú eru sífellt hnýttir innan þings og utan til heftingar þeirri baráttu, sem verkalýðssamtökin heyja fyrir sanngjörnum rétti skjólstæðinga sinna. Venjulegasta svarið, sem fram er borið gegn framgangi þessara mála, er, að hér sé um mál að ræða, sem óviðkomandi sé öllum öðrum en vinnukaupendum og vinnuseljendum. Í þessu sambandi er rétt að minna á, að ekki hefur, sem betur fer, verið alltaf þessi hugsunarháttur ríkjandi í sölum Alþingis. Framsýni og víðsýni í þessum málum virðist hafa verið mun meiri á þeim árum, þegar vökulögin fyrstu voru samþykkt, og allt til þess tíma, er orlofslögin voru endanlega samþykkt 26. febr. 1943. Skilnings- og tillitsleysi það, sem nú virðist ríkja, hefur síðan sífellt verið að ná meiri yfirtökum hér á löggjafarsamkomunni, með þeim afleiðingum, að til æ stórfelldari árekstra dregur. En þá bregður svo kynlega við, að mál, sem venjulega eru talin einkamál samtaka vinnuseljenda og atvinnurekenda, eru allt í einu orðin þjóðarvoði, sem ekki verður hjá komizt að ríkisvaldið hafi einhver afskipti af. Að lokum er svo gripið til þess, venjulega á síðustu stundu, að skipa auk sáttasemjara 3–5 manna sáttanefnd. Slík vinnubrögð og sofandahátt í málum hinna vinnandi stétta sætta alþýðusamtökin sig ekki við. Þeim er ekki nægjanlegt, að hlaupið sé til á síðustu stundu og venjulega of seint að greiða úr þeim vandamálum, sem vísvitandi hafði verið stefnt að að skapa á löngum tíma. Þá staðreynd, að landinu verður ekki um lengri eða skemmri tíma stjórnað án samvinnu við verkalýðssamtökin, er hverri ríkisstj. nauðsynlegt að hafa í huga. Hin stéttarlega barátta launþegasamtakanna verður ávallt samofin þeim átökum, sem fram fara á sviði stjórnmálanna, að meira eða minna leyti. Þær staðreyndir sannar saga íslenzkra stjórnmála hvað skýrast og bezt. Það er því skaðleg blekking að hugsa sér þetta tvennt sem óskylda hluti.

Kröfur þær, sem verkalýðssamtökin hafa nú lagt fram í yfirstandandi vinnudeilu, eru miðaðar við það ástand, sem ríkti í hlutfallinu milli kaupgjalds og verðlags árið 1947. Skýringarinnar á þeim átökum og þeirri baráttu, sem nú er hafin, er því að leita til þess ástands, sem þá ríkti í þessum málum, og þá jafnframt að nokkuð miði áfram.

Hæstv. dómsmrh. lýsti undrun sinni á því, að undirstaðan undir kröfur verkalýðssamtakanna skyldi sótt svo langt aftur í tímann, er hann ræddi þessi mál hér á dögunum. Í því efni er rétt að minna á þá staðreynd, sem öllum bar saman um árið 1947, að líkur væru á því, að atvinna mundi dragast saman, þegar hernámsvinnunni lyki, og bæri því að gera allt, sem mögulegt væri, til þess að tryggja næga atvinnu. Til þessara staðreynda er því að leita hvað viðkemur því, að ýmsir forvígismenn alþýðusamtakanna sættust á aðgerðir eins og t. d. bindingu vísitölunnar í des. 1947. Síðan hafa alþýðusamtökin ávallt sýnt fulla ábyrgðartilfinningu og þolinmæði þrátt fyrir þær augljósu staðreyndir, að samfellt hefur sigið á ógæfuhlið síðan á áramótum 1949–50. Hvert Golíatshöggið eftir annað féll í sama knérunn til rýrnunar afkomu launastéttanna: gengislækkun, afnám verðlagseftirlits, bátagjaldeyrisálög, svo að nokkuð sé nefnt. Allt þetta fór í kjölfar alþingiskosninganna í lok ársins 1949, er núverandi samstarfsflokkar í ríkisstj. höfðu tekið höndum saman um stjórnarmyndun. Þetta gerist á sama tíma og atvinnuleysið hélt innreið sína. Alþýðusamtökin gerðu tilraunir með að fá hlut sinn bættan í vísitöludeilunni í maí 1951 og desemberdeilunni 1952. Árangurinn af þessum átökum sýndi þá ljóslega, að ekki hafði tekizt að fá uppborið það tjón, sem hlotizt hafði af fyrrnefndum aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Það kom því engum á óvart, þó að kaupgjaldsmálin yrðu eitt aðalmál þess Alþýðusambandsþings, sem kom saman í nóvember s.l. haust. Þar var að loknum umræðum samþykkt ýtarleg ályktun þess efnis, að sambandsstjórn var falið að boða til ráðstefnu með fulltrúum þeirra sambandsfélaga, sem möguleika hefðu til samningsuppsagna, svo fljótt sem auðið væri, og samræma sem bezt aðgerðir félaganna til kaupgjaldsbaráttunnar sjálfrar. Tillaga þessi var samþykkt einróma af á fjórða hundrað fulltrúum fyrir nálega 28 þús. félagsbundinna karla og kvenna í verkalýðssamtökunum. Þetta sambandsþing var að ýmsu leyti mikið deiluþing. En um þessa stefnu var enginn ágreiningur, þótt vitað væri, að allir starfandi stjórnmálaflokkar ættu sína fylgishópa á þinginu. Það er því vísvitandi staðreyndafölsun, þegar því er haldið fram nú, þegar verið er að framkvæma þessa mörkuðu stefnu, að hún sé borin upp af kommúnistum og fylgismönnum þeirra eingöngu. Að baki þessarar baráttu standa verkalýðssamtökin í heild, og meðan á henni stendur, er pólitískt vopnahlé í alþýðusamtökunum. Þær staðreyndir er hverjum og einum hollt að hafa í huga.

Hæstv. ráðherrar létu sér í umræðunum um þessi mál nokkuð tíðrætt um nauðsyn þess, að rannsókn þar til lærðra sérfræðinga færi fram á hlutfallinu milli kaupgjalds og verðlags og gjaldþoli atvinnuveganna. Meðan rannsókn þessi færi fram, væri nauðsynlegt, að verkalýðsfélögin frestuðu öllum frekari aðgerðum. Þessum rannsóknum til stuðnings er svo óspart skírskotað til þjóðhollustu verkalýðsfélaganna o. s. frv. Það er athugunarvert, að þetta tilboð ríkisstj. kemur ekki fram fyrr en tveim mánuðum eftir að hin yfirlýsta stefna Alþýðusambandsins í kaupgjaldsmálum hafði verið gerð heyrinkunn.

Alþfl. flutti í upphafi yfirstandandi þings þáltill. um lækkun vöruverðs. Í þessari till. var gert ráð fyrir því, að ríkisstj. hlutaðist til um, að lækkuð yrði álagning milliliða o. s. frv., og var skilmerkilega á það bent, að alþýðusamtökin teldu þá stefnu farsælustu leiðina til þess að koma í veg fyrir kaupgjaldsbaráttu og að launþegar fengju á þann hátt raunhæfast og haldbezt uppborna kjaraskerðingu undanfarinna ára. Áhugi stjórnarflokkanna fyrir þessari leið út úr ógöngunum var svo mikill, að nú loks undir lok febrúar var till. þessi tekin til fyrri umr. og liggur svo í n. síðan. En rétt er þó að geta þess, að ríkisstj. mun hafa haft nokkra tilburði í frammi í þessa átt og í því efni leitað til nokkurra þeirra fyrirtækja og stofnana, er hafa með innflutning og dreifingu innanlands að gera. Svar þessara aðila mun hafa borizt í gær og verið algerlega neikvætt. Ríkisstj. mun hins vegar af eðlilegum ástæðum ekki geta beitt sér frekar í þessu efni, þar sem slíkt mundi brjóta í bág við hið gullvæga frelsi einstaklinganna í verzlunarmálum.

Þannig mótast stefna núverandi ríkisstj. af aðgerðaleysi og að of seint er hafizt handa, ýmist ekki eða of seint. Það er af þessum ástæðum ekki beinlínis fýsilegt frá sjónarmiði verkalýðssamtakanna að óska eftir miklum afskiptum þess ríkisvalds, sem nú ræður ríkjum í landinu. A. m. k. þykir sýnt, að undanskilinni tilnefningu sáttanefndar, að í yfirstandandi deilu muni áhrifa til lausnar á deilunni ekki að leita í herbúðum hæstv. ríkisstjórnar.

Raunhæfar tilraunir til þess að komast hjá deilunni hafa ekki verið gerðar, en það er þó ein af höfuðskyldum hverrar ríkisstjórnar í hugum allra landsmanna.

Hér á Alþ. er fram komin till. um skipun nefndar með þátttöku atvinnurekenda, var hér næsta mál á undan á dagskránni, og hefur þegar verið flutt fyrir því framsaga. Á till. þessari skilst mér, að n. þessi eigi að starfa stöðugt og til hennar megi leita um allar upplýsingar um atvinnuástand og afkomumöguleika hverju sinni. Ég tel slíka till. mjög athyglisverða að vísu með tilliti til framtíðarinnar, en þann vanda, sem nú er fyrir höndum, mundi slík n. ekki leysa. Reynslan, sem fengizt hefur þá fjóra mánuði síðan fyrsta ákvörðun alþýðusamtakanna um samningsuppsögn var tekin, sýnir, að hér er brýnna úrbóta þörf og ekki lengur á því stætt að fljóta sofandi að slíkum átökum ár eftir ár, þó þannig að sjálfsögðu, að sjálfsákvörðunarréttur beggja aðila verði í fullum heiðri hafður.

Verkalýðsfélögin, sem nú standa í deilu, hafa undirbúið kröfur sínar í nánu samstarfi við hvert annað og bundizt samkomulagi um náið samstarf í deilunni sjálfri. Kröfurnar hafa atvinnurekendur nú haft til athugunar fjórar vikur, og enn virðist lítið miða í samkomulagsátt. En eins og ég hef áður minnzt á, hefur ríkisstj. nú skipað fimm manna sáttanefnd, sem í eiga sæti tveir hv. alþm. auk sjálfs sáttasemjara. Af þessum ástæðum virðist till. sú, sem hér er til umr., vart tímabær með tilliti til lausnar á núverandi launadeilu. En með tilliti til þess, að deilan kynni að dragast á langinn, tel ég þó rétt, að hún yrði samþykkt, og lýsi fylgi mínu við hana.