15.10.1954
Sameinað þing: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

1. mál, fjárlög 1955

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mönnum er það sjálfsagt í fersku minni, að í hvert skipti sem stjórnarandstaðan hefur deilt á hæstv. ríkisstj. fyrir eyðslu og látlausa útþenslu ríkisbáknsins, hefur svar fjmrh. alltaf verið eitt og hið sama: Það er ekkert hægt að spara, alls ekkert. — Og svo hefur hann talið upp öll þau ríkisútgjöld, sem sjálfsögðust eru, og spurt: Á að spara þetta? Vilja menn, að þetta sé skorið niður? — og síðan nefnt heilbrigðismál, menntamál, félagsmál, vegamál, samgöngumál o.s.frv. Að lokum hefur hann svo svarað sjálfum sér, því að það er alltaf auðveldast, og stimplað stjórnarandstöðuna sem ábyrgðarlausa gasprara, sem væru að heimta óframkvæmanlega hluti, og endurtekið að lokum, að ekkert væri hægt að spara á ríkisrekstrinum. Eftir þessar látlausu neitanir ráðh. um sparnaðarmöguleika varð ég því næsta undrandi, þegar ég í athugasemdum við fjárlfrv., sem hér er til umræðu, rak mig á svo hljóðandi upplýsingar, með leyfi hæstv. forseta: „Á síðastliðnu vori beitti fjmrh. sér fyrir því, að hvert ráðuneytanna um sig skipaði einn mann til að athuga útgjöld ríkisins í því skyni að koma fram sparnaði við ríkisreksturinn.“ Eftir þessu að dæma hefur þá loksins hvarflað að hæstv. ráðh., að ef til vill kynni þó eitthvað að vera hægt að spara, því að ekki ætla ég honum það að fara að fela fulltrúum ráðuneytanna vonlaust verk og óframkvæmanlegt, — verk, sem væri fyrir fram vitað að yrði árangurslaust.

Er þá ekki þetta fjárlfrv. sparnaðarfrv.? Er ekki búið að skera niður öll óþarfaútgjöld ríkissjóðs samkvæmt fjárlfrv., sem hér er nú til athugunar og umræðu? Nei, því miður. Sparnaðarnefndin var ekki búin að leggja fram tillögur sínar, áður en fjárlfrv. var samið, og þess vegna var ekki hægt að styðjast við athuganir hennar við samningu þess. Við eigum því inni vonina í öllum þessum sparnaðartillögum, og er því nú lofað, að þær skuli liggja fyrir við afgreiðslu frv. á Alþingi.

Þrátt fyrir það að miðað sé við sömu kaupgjaldsvísitölu og í seinasta fjárlfrv., hækka útgjöldin á hverri einustu grein gjaldabálksins frá því í fyrra. Kostnaður við æðstu stjórn landsins samkv. 8. gr. hækkar úr 560 þús. í 630 þús. 9. gr. hækkar úr 3.7 millj. í 4.5 millj. 10. gr. hækkar úr 13.9 millj. í 14.9 millj. 44. gr. hækkar úr 38.6 millj. í 42 millj. 12. gr. hækkar úr 28.8 millj. í 31.1 millj. 13. gr. hækkar úr 59.2 millj. í 70.5 millj. 14. gr. hækkar úr 64.7 millj. í 72.1 millj. 15. gr. hækkar úr 10.9 millj. í 11.6 millj. 16, gr. hækkar úr 55.1 millj. í 58.3 millj. 17. gr. hækkar úr 51.5 millj. í 57.9 millj. 18. gr. hækkar úr 12.9 millj. í 13.1 millj. og á auðvitað eftir að hækka mikið í meðförum þingsins. Og loks er það svo 19. gr., til óvissra útgjalda og niðurgreiðslna, sem hækkar úr 45 millj. í 51 millj.

Þannig er veruleg hækkun á hverri einustu grein gjaldabálksins, miðað við frv. frá því í fyrra. Þá voru heildarniðurstöðutölur á rekstraryfirliti 427 millj., en eru nú komnar upp í 494 millj. og 900 þús. kr., eða fast upp í 1/2 milljarð kr. Kemur frv. þá út með 62 millj. kr. rekstrarafgang, en endanlegur greiðslujöfnuður má hins vegar heita alveg á sléttu, hagstæður greiðslujöfnuður er tæplega 1 millj. kr.

Þá kemur að gróanda tekjuliðanna. Í hittiðfyrra áætlaði hæstv. fjmrh. tolla og skatta 296 millj., í fyrra voru þeir áætlaðir 325 millj., og nú eru tollar og skattar áætlaðir 382 millj. og 500 þús. kr. Auk þess eru áætlaðar nettótekjur ríkissjóðs af brennivíni og tóbaki rúmar 100 millj. kr. Þar af er áætlað að brennivinið gefi nú 60 millj., eða 8 millj. meira en búizt var við í fyrra. Þá hljóðaði tekjuáætlun brennivínsins upp á 52 millj., eða 1 millj. á viku, — snotur tala.

Þannig hefur reynslan af nýju áfengislöggjöfinni með vínveitingaleyfum hótelanna orðið sú, eins og við mátti búast, að meira er drukkið í landinu og ríkissjóður græðir meira en nokkru sinni fyrr á áfengisbölinu. Til þess mun líka leikurinn hafa verið gerður.

Af athugasemdum ráðh. með frv. verður ekki annað séð en að þessi þróun sé talin fagnaðarefni, því að þar er skýrt frá því, að bætt hafi verið við 11 nýjum starfsmönnum hjá Áfengisverzlun ríkisins. Síðan segir orðrétt í athugasemdinni: „Þessa viðbót á starfsliði telja forstöðumenn Áfengisverzlunarinnar og Lyfjaverzlunar ríkisins óhjákvæmilega, bæði vegna aukinna viðskipta og aukinnar framleiðslu .“ — Í þessari ríkisstofnun er sem sé mikið að gera.

Þrátt fyrir skattabreytinguna, sem gerð var á síðasta þingi og mikið var gumað af af stjórnarflokkunum báðum sem stórkostlegri skattalækkun, kemur nú í ljós, að fjmrh. hefur vogað sér að áætla tekju- og eignarskattinn mun hærri en nokkru sinni fyrr. Á fjárlfrv. seinasta árs, fyrir skattalækkunina svo kölluðu, var tekju- og eignar,skatturinn áætlaður 561/2 millj., en er nú 62 millj. og 800 þús. kr. Hækkunin er þannig 6 millj. og 300 þús. frá seinasta ári. Vörumagnstollurinn hækkar um 2 millj., úr 24 í 26 millj. Söluskatturinn tekið mikið stökk upp á við. Í hittiðfyrra var hann 77 millj. og komst í fyrra upp í 911/2, hækkaði þannig á einu ári um 141/2 millj. kr. Nú gerir hann þó enn þá betur í blóðið sitt, því að hann hækkar nú úr 911/2 millj. í 107 milljónir, og er hækkunin núna þannig 151/2 millj. frá því í fyrra. En hækkun tveggja seinustu ára nemur réttum 30 milljónum. Verðtollurinn er eins og í fyrra hæsti tekjuliður fjárl. og tekur þó stærsta stökkið. Hann er á frv. í fyrrahaust áætlaður 110 milljónir, en er að þessu sinni áætlaður 138 millj. Hækkun á þessum eina skattstofni er hvorki meiri né minni en 28 milljónir á einu ári.

Þannig er látið vaða á súðum. Útgjöld fjárl. eru að komast upp í hálfan milljarð, og skattar og tollar eru bara hækkaðir að sama skapi og vel það, því að alltaf hefur reynslan leitt það í ljós, að skattarnir, sem innheimtir eru af skattþegnunum, eru a.m.k. 30–50 millj. hærri en hæstv. fjmrh. áætlar á fjárlfrv. Það er nú einu sinni hans búskaparlag og stjórnarinnar í heild, enda er þá hægara um vik að hafa nokkra milljónatugi til ráðstöfunar út í kjördæmi stjórnarflokkanna utan fjárlagaákvæða.

En er þá ekki allt í stöku himnalagi í landinu, fyrst útlit er fyrir, að afgreidd verði hallalaus fjárlög? Einhverjir kynnu að ætla það. En slíkt er mikill misskilningur. Hitt skiptir meira máli, hvort við höfum þróttmikið og heilbrigt atvinnulíf í landi okkar. Það er spurning, sem fyllsta ástæða er til að velta nokkuð fyrir sér. Ef hægt væri að svara þeirri spurningu játandi, væri það lofsamlegur vitnisburður um stjórnarstefnuna. En það er nú eitthvað annað en svo sé. Sjúkdómseinkenni atvinnulífsins eru bæði mörg og margvísleg. Hér í Reykjavik og í nágrenni hennar er mikið talað um of mikla eftirspurn eftir vinnu. Því veldur Keflavíkurflugvöllur fyrst og fremst. Þaðan streyma inn í efnahagslíf þessarar fámennu þjóðar 250–300 millj. kr. á ári. Af þessu stendur öllu heilbrigðu og lífrænu atvinnulífi landsins bráður háski. Samt virðist ríkisstj. líta á þetta sem varanlegt bjargráð, sem nýjan atvinnuveg, sem leysa megi gjarnan aðra höfuðatvinnuvegi Íslendinga af hólmi. Gullstraumurinn frá Keflavíkurflugvelli er látinn mæta árlegum hundraða milljóna óhagstæðum viðskiptajöfnuði við útlönd, og fólkið er sogað frá íslenzku framleiðslustarfi án nokkurrar fyrirhyggju. — Fyrirhyggjulausari og glæfralegri stjórnarstefnu er ekki hægt að hugsa sér. Góðri ríkisstjórn bæri auðvitað skylda til að sjá um, að þetta innskotsfjármagn ærði ekki þjóðina og espaði til sjúkrar kaupfýsi og eyðslusemi.

Ef öll umhyggja ríkisstj. snerist ekki um braskarana, bæri henni að sjá um, að ekkert af gjaldeyri þeim, sem þjóðinni berst í sambandi við hernaðarframkvæmdirnar, færi til daglegrar eyðslu, heldur eingöngu til að leysa stórbrotin framtíðarverkefni, sem létt gætu þjóðinni lífsbaráttuna í framtíðinni og orðið heilbrigðu athafnalifi hennar til styrktar á næstu árum. Raforkumál Austfjarða og Vestfjarða væri t.d. hægt að leysa á myndarlegan hátt með eins til tveggja mánaða gjaldeyri frá Keflavíkurflugvelli. En þetta dettur stjórninni ekki í hug. Glysið og óþarfinn er látinn sitja fyrir. Hann verður að kaupa inn; braskararnir verða að græða á honum. Og svo leggja stjórnarvöldin höfuðin í bleyti um, hvernig sé hægt að svíkjast frá virkjun Dynjanda og Lagarfoss, sem þó er eina fullnægjandi lausnin á raforkumálum Vestfirðinga og Austfirðinga. Margar ófullnægjandi smávirkjanir eru að hyggju stjórnarinnar lausnin á raforkumálavanda Vestfirðinga, og í viðbót við þessar smávirkjanir er svo ætlunin að klúðra upp mörgum olíubrennslustöðvum. Einfasa raftaug um háfjöll og öræfi á hins vegar að veita Austfirðingum langþráð öryggi í atvinnu- og raforkumálum þeirra. Þetta eru draumar þeirrar ríkisstj., sem mestu hefur lofað allra ríkisstjórna fyrr og síðar í raforkumálum — og ætlar sér líka að svíkja mest. Þetta er raunveruleikinn, þó að talað sé af fjálgleik um jafnvægi í byggð landsins og ágætir menn hafi verið kosnir í nefnd til þess að framleiða tillögur í þá átt. Það er engu líkara en að hæstv. ríkisstj. hafi ekki hugmynd um það, að fjöldi kauptúna og bæja, jafnvel heilir landshlutar, búa nú við átakanlegt atvinnuleysi og lamað atvinnulíf. Þaðan verður fólkið að flýja, ef ekkert verður að gert, og sá flótti verður aðeins stöðvaður með skipulagsbundinni uppbyggingu atvinnulífsins. Það er sjálfsagður hlutur og auðskilinn. Það eru þær ráðstafanir einar, sem bjargað geta þjóðinni, þegar öllum hernaðarframkvæmdum sleppir.

En þeirri ríkisstj., sem lét stærstu framleiðslufyrirtæki þjóðarinnar, togaraflotann, liggja í höfn í allt sumar, er vissulega ekki treystandi til að leysa vandamál atvinnulífsins. Togaravandamálið er óleyst enn þá. Bílaskatturinn, sem skilar togaraútgerðinni aðeins 11 millj. kr., en ríkissjóði 24 eða 25 millj., leysir ekki vandann nema fram til næstu áramóta, og hinum mikla bílainnflutningi fylgir auðvitað mikil gjaldeyriseyðsla vegna olíueyðslu og varahluta í sambandi við rekstur þeirra. Sannleikurinn er sá, að öll mál atvinnulífsins eru í stjórnleysi og reiðileysi. Jafnvægisleysi, öngþveiti og uppgjöf blasir við í öllum áttum, og engin viðleitni er sýnd í þá átt af ríkisstj. að ráða varanlega bót á neinum erfiðleikum atvinnulífsins. Þetta er hennar höfuðsynd, og ætti að verða hennar dauðasynd.

Þær raddir gerast nú æ háværari í báðum stjórnarflokkunum, að þetta stjórnarfar íhalds og Framsóknar megi ekki halda öllu lengur áfram. Hafa bæði aðalmálgögn stjórnarinnar mætt þessari mögnuðu óánægju með svæsnum skömmum hvort um annað, og þessar æðisgengnu svívirðingar eiga auðvitað að gefa þeim óánægðu í báðum flokkum vonir um, að stjórnarsamstarfið sé nú loksins að gliðna. Þetta taki bráðum enda. En hér er aðeins um leiktjöld að ræða, góðir hlustendur. Stjórnarflokkarnir eru báðir jafnráðnir í því að sitja meðan sætt er, helzt út allt þetta kjörtímabil. Framsóknarmenn gera sér ljóst, að Sjálfstfl. stefnir nú markvisst að því að ná Vestur-Ísafjarðarsýslu, Dalasýslu, Mýrasýslu, Vestur-Húnavatnssýslu og Austur-Skaftafellssýslu af Framsókn í næstu kosningum, svo sem í þakklætisskyni fyrir góða aðstoð seinasta sprettinn við það að ná hreinu flokksræði yfir landinu.

Út af þessu ávarpaði Tíminn fóstbróður sinn, Sjálfstfl., allhressilega og óvenju einarðlega þann 2. okt. s.l., á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er vel þess vert að gera sér tvennt ljóst,“ segir Tíminn, „hvað er í vændum, ef íhaldið eitt fær meiri hluta, og hvernig verður slíkum valdadraumum þess bezt kollvarpað. Það stjórnarfar, sem mundi skapast hér á landi, ef íhaldið fengi meiri hluta, væri alræði braskaranna, versta og skaðlegasta stjórnarfar, sem til er í heiminum, þegar skipulag kommúnismans er undanskilið. Það eru braskarar, sem ráða Sjálfstfl., og þeir mundu nota valdaaðstöðuna án minnstu miskunnar og tillitssemi“.

„Íhaldið mundi vissulega,“ segir Tíminn enn fremur, „misbeita þannig valdinu, ef það fengi það einsamalt, að eftir það yrði ekki til lýðræði á Íslandi nema að nafninu til. Og ekki mundi horft í það að þiggja erlenda aðstoð, ef völdin yrðu ekki tryggð með öðrum hætti. Þetta geta menn bezt dæmt um, ef þeir kynna sér, hvernig alræði braskaranna hefur gefizt, þar sem það hefur komizt á, í Suður-Ameríku.

Sjálfstfl. er ekki lýðræðissinnaður íhaldsflokkur, er stendur á gömlum og þjóðlegum merg, heldur valdatæki ófyrirleitinna braskara, eins og íhaldsflokkarnir eru í Suður-Ameríku.“

Þetta er sem sé dómur þess stjórnmálaflokks, sem af löngu og nánu samstarfi þekkir Sjálfstfl. og innviði hans bezt. Morgunblaðinu varð að vonum heldur fátt nm svör, þegar þessi ósköp dundu yfir frá samstarfsflokknum. Það sagði, að Tíminn hefði gengið af göflunum, fengið sálsýkiskast, og þar fram eftir götunum, og hefði Morgunblaðið og fyrirmenn þess sjálfsagt langað til að setja Tímann á Klepp, ef það hefði verið hægt. — En svo spurði Morgunblaðið: „Hvernig má það nú vera, að Framsókn skuli hafa valið sér slíkan glæpaflokk til náins samstarfs um margra ára skeið?“ Og mér finnst ekki nema von, að Morgunblaðið spyrji um það. Helzta skýring Morgunblaðsins á því, hvers vegna Tíminn léti nú svona, var annars sú, að forráðamenn Framsfl. sæju, að aðstaða braskaranna í Framsókn mundi versna stórkostlega, ef þeir lentu í stjórnarandstöðu. Og e.t.v. er sú skýring ekki órafjarri því rétta.

Í framhaldi af þessum hróðurlegu umræðum birtist grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Gulljata Framsóknar“. Og hver halda menn að þessi gulljata sé? Jú, það er Keflavíkurflugvöllur og hernaðarframkvæmdirnar víðs vegar um landið. Í þessari „gulljötugrein“ spyr höfundurinn, sem sennilega er sjálfur dómsmrh.: „Hvað vakti fyrir Framsókn, þegar hún setti það að skilyrði fyrir stjórnarsamstarfí, að hún fengi utanríkismálini Hún sá hilla undir gulljötu Framsóknarbraskaranna á Keflavíkurflugvelli, og eru þeir nú sem óðast að raða sér á hana og er það efni í aðra blaðagrein. Og svo hrópar veslings Tíminn um alræði braskaranna.“

Þetta er fróðlegt samtal milli forustusauðanna, sem nú berjast um að komast á gulljötuna. En hverjir voru það, sem voru við þessa gulljötu, áður en braskarar Framsóknar röðuðu sér á hana? Og hver er það nú, sem er að kveinka sér yfir að hafa misst þarna jötupláss? Eru ekki þarna helmingaskipti milli íhalds og Framsóknar eins og alls staðar annars staðar um alla aðstöðu og gróðamöguleika í skjóli ríkisvaldsins? Er ekki þarna einmitt skipt bróðurlega í fjöru í tvo staði eftir sömu grundvallarreglu og allt stjórnarsamstarfið að öðru leyti byggist á? Og hvers vegna þá þetta æðisgengna rifrildi fyrir opnum tjöldum milli þessara fóstbræðra? — En, góðir hlustendur, það lærdómsríka við þessi ofsaskrif stjórnarblaðanna er það, að þau sýna ljóslega, hvað hugurinn hringsólar um í stjórnarherbúðunum. Það er „gulljatan“, en ekki atvinnulíf þjóðarinnar. Það er braskið, en ekki framleiðslustörf landsmanna.

Fyrir tveim dögum vítti hæstv. forsrh. í ræðu á Alþ. atvinnurekendasamtökin harðlega fyrir það, að þau hefðu sýnt of mikla undanlátssemi við samtök togarasjómanna. Hann taldi með öðrum orðum, að allt of miklar kjarabætur hefðu verið veittar sjómönnum með hínum nýju kjarasamningum, sem fengizt hafa. Liggur þannig fyrir hans viðhorf og sennilega stjórnarinnar allrar í því máli. Að öðru leyti blasir það ástand nú við í launamálum, að starfsmenn og embættismenn ríkisins geta ekki lengur dregið fram lífið á sómasamlegan hátt, nema mjög veruleg hækkun fáist á launalögum. Ein stétt, verkfræðingarnir, er þegar búin að vera í verkfalli við ríkisvaldið, og mun þetta koma tilfinnanlega niður á verklegum framkvæmdum ríkisins á næsta ári, þar eð sérfræðilegur undirbúningur undir þessar framkvæmdir hefur nú fallið niður að mestu. Þar sem verkfræðingar eru þó engan veginn meðal lægst launuðu embættismanna ríkisins, er vitað mál, að þetta þing getur ekki komizt hjá að afgreiða ný og hækkuð launalög. Þetta er bein afleiðing þess, að ríkisstj. hefur herfilega brugðizt þeirri verðlækkunarstefnu, sem verkalýðssamtökin knúðu ríkisstj. þó inn á með lausn verkfallsins mikla haustið 1952. Enn munu verkalýðssamtökin knýja á af alefli um viðnám gegn vaxandi dýrtíð og um lækkað verðlag. Með þeirri stefnu vinnst tvennt í senn: aukinn kaupmáttur gildandi kaupgjalds og meiri samkeppnismáttur íslenzkrar framleiðslu á erlendum mörkuðum, og hvort tveggja er þýðingarmikið fyrir vinnandi fólk. En beri þessi barátta ekki árangur, munu verkalýðssamtökin ekki láta hræða sig með hótunum um gengislækkun frá sanngjörnum kröfum um hækkað kaup. Jafnframt þessu munu verkalýðssamtökin ástunda sem nánasta samvinnu við atvinnurekendur um sameiginleg hagsmunamál þeirra og verkafólksins, svo sem um vöruvöndun og aukin framleiðsluafköst. En hitt er jafnvíst, að í stjórn verkalýðssamtakanna verða ekki þoluð nein afskipti eða áhrif atvinnurekenda. Þau eiga þar ekki heima, fremur en þátttaka baráttumanna verkalýðssamtakanna á heima í stjórn Vinnuveitendasambands Íslands.

Verkalýðssamtökin munu gera það að höfuðbaráttumáli sínu á næstunni, að sama kaup verði greitt um land allt fyrir sömu vinnu, en ekki lægra kaup á einstökum stöðum úti um land. Jafnframt þessari kröfu munu verkalýðssamtökin knýja fram kröfuna um sömu laun kvenna og karla. En stöðug atvinna er ekki síður grundvallaratriði góðra lífskjara en viðunandi kaup að krónutölu. Þess vegna munu verkalýðssamtökin bera fram vel undirbúnar tillögur um skipulagsbundna uppbyggingu atvinnulífsins í þeim byggðarlögum og landshlutum, sem nú liggur við eyðingu vegna vanrækslu ríkisstj., en sú vanræksla er bein afleiðing af hinni trylltu baráttu stjórnarflokkanna um „gulljötuna“, eins og Morgunblaðið hefur réttilega bent á.

Stjórnarfarið, eins og það er nú, hefur opnað augu alls vinnandi fólks fyrir því, að það verður að eiga öruggt vígi í stéttarsamtökum sínum. En kæmi það fyrir, að íhaldið næði meirihlutavaldi yfir þjóðfélaginu, er það vissulega lífsnauðsyn öllum vinnandi stéttum, að Alþýðusamband Íslands lúti sterkri stjórn og sé sá helgi reitur, sem algerlega sé friðaður fyrir öllum áhrifum þeirra spilltu pólitísku afla, sem Tíminn hefur sagt að afnema mundu allt lýðræði hér á landi og ekki hika við að þiggja erlenda aðstoð, ef völdin yrðu ekki tryggð með öðrum hætti. Nú eiga vinnustéttirnar á Íslandi, að minni hyggju, allt undir því, að þær láti hleypidóma og sundrungu víkja og sýni í verki, að þær kunni einu sinni vel að standa saman á stund hættunnar.