27.04.1955
Sameinað þing: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í D-deild Alþingistíðinda. (2948)

175. mál, óháðir alþýðuskólar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta, sem ég sagði áðan, en vil þó að gefnu tilefni taka nokkur atriði fram.

Það er auðvitað orðaleikur, hvort menn vilja segja, að það eigi að breyta fyrirkomulagi starfandi skóla eða stofna nýjan skóla. Þetta er einungis orðaleikur og haggar engu um það, hvort skóli með því sniði, sem lagt er til í þeirri till. eða réttar sagt þeim tillögum, sem hér liggja fyrir, sé í samræmi við fræðslulöggjöfina eða ekki.

Ef það er óheimilt að stofna skóla með þessum hætti, þá er auðvitað á sama hátt óheimilt að breyta fyrirkomulagi nú starfandi skóla í þessa átt, og allar bollaleggingar byggðar á mismun á orðalagi að þessu leyti eru alveg órökstuddar og utan veruleikans.

Þá er það líka misskilningur, að landsprófið sjálft skipti nokkru meginmáli í þessu sambandi. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég lesa upp úr lögunum um gagnfræðanám, en þar stendur í 18. gr.:

„Unglingaskólar eru tveggja ára skólar, og lýkur námi í þeim með unglingaprófi. Er það landspróf að öllu eða nokkru leyti, eftir því sem ákveðið er í reglugerð.“

Í 19. gr.:

„Unglingapróf veitir rétt til framhaldsnáms í miðskólum og gagnfræðaskólum.“

Og 20. gr.:

„Miðskólar eru þriggja ára skólar, og lýkur námi í þeim með miðskólaprófi.

Er það landspróf að öllu eða einhverju leyti, eftir því sem ákveðið er í reglugerð.“

Svo stendur í l. um menntaskóla, nr. 58 7. maí frá 1946, í 7. gr.:

„Rétt til inngöngu í 1. bekk skólanna veitir miðskólapróf bóknámsdeildar með lágmarkseinkunn, sem ákveðin er í reglugerð.“

Þarna segir berum orðum, í þessum ákvæðum, að kennsluna í unglingaskólunum á að miða við próf, sem veiti rétt til framhaldsnáms í miðskólum og gagnfræðaskólum, og kennsluna í miðskólum á að miða við nám, er ljúki með prófi, sem veiti rétt til náms í menntaskólum, ef vissum stigafjölda er náð í prófinu. Þetta er eins ótvírætt og verða má, og landsprófið sjálft sker ekki úr í þessu efni. Landsprófið er einungis öryggisráðstöfun, sem sett er til þess að tryggja, að prófin séu fyllilega sambærileg um allt land — eingöngu til þess. En lagaákvæðin segja tvímælalaust, við hvað kennsluna á að miða. Og það er alveg rétt, eins og hv. 3. landsk. sagði, að það er hægt að afnema landsprófið sjálft að einhverju leyti a. m. k., og það er ekkert á móti því, að Alþ. láti uppi óskir um það, ef það vill. Þá tekur kennslumálastjórnin eða menntmrn. það til athugunar, hvort það treysti sér til að verða við þeim óskum. En án lagabreytinga er ekki hægt að breyta uppbyggingu sjálfs skólakerfisins, því að það er alveg ótvírætt, eftir því sem hér er sagt, og að hv. n. alveg ólastaðri og hv. flm., þá virðist mér, að þeir hafi ekki íhugað þetta til hlítar, þegar þeir fluttu sína till. Og það er því síður hægt að áfellast þá fyrir þetta, þegar þess er gætt, að jafnþaulkunnugur maður þessum málum og fræðslumálastjórinn áttar sig ekki á þessu strax við fyrsta álit og verður, vikum eftir að hann er búinn að láta annað álit uppi við hv. frsm. n., að skrifa n. bréf til leiðréttingar á því, sem hann áður sagði. Þetta er sá maður, sem er auðvitað bezt að sér í þessum flóknu lagareglum hér, og úr því að honum skýzt yfir það, er engin furða, þó að hv. n. og flm. skjótist yfir þetta.

Ég er með þessu alls ekki að ræða á móti efnisatriði tillagna hv. flm., síður en svo, en ég er einungis að benda á þá annmarka, sem eru á því að framfylgja till., meðan l. eru óbreytt; það er mín skylda að gera.

Ég vil vekja athygli á því, eins og hv. 3. landsk. greinilega tók fram og ég vék lítillega að í minni fyrri ræðu, að hér er í raun og veru um tvær gagnólíkar till. að ræða, sem fram eru komnar. Annars vegar er frumtill. um að reka skóla, einn eða fleiri, í samræmi við það, sem gert var samkvæmt héraðsskólalöggjöfinni, er var í gildi fyrir 1946, og svo hitt, sem kemur fram í brtt. og er allt annars eðlis, að taka upp eiginlegt lýðháskólafyrirkomulag, sem mér skilst að n. hafi hoppað inn á vegna meira og minna óljósra ummæla fræðslumálastjóra við sjálfan flm.

Mér virðist þetta benda til þess, að málið hafi ekki fengið fullnaðarathugun. Ég vil auðvitað ekki fortaka, eins og ég sagði í minni frumræðu, að það sé mögulegt og gerlegt samkvæmt þáltill., ef hún er samþ. óbreytt, að koma upp eða reka slíkan skóla sem hún gerir ráð fyrir, ef um það næst samkomulag við einhver héruð að leggja fé fram, ef menn gera sér grein fyrir því, að það er þá alveg utan skólakerfisins, alveg eins og hér eru reknir iðnskólar, stýrimannaskólar, búnaðarskólar, sem að þessu leyti eru utan kerfisins. Ég mundi telja næga heimild til þess að gera þá tilraun felast í till., eins og hún lá fyrst fyrir, ef Alþ. samþ. hana, og að því áskildu, að eitthvert hérað fáist til þess að leggja fram tillag að sínu leyti og einhver skóli sé til. Mér er ljúft að verða við þeirri áskorun, ef það er vilji þingsins. En það er þá annars eðlis en stofnun eða rekstur lýðháskóla. Og menn verða að gera sér ljóst, að þá er það alveg utan skólakerfisins, sem sett var 1946, þá séu menn með opin augun og vitandi um það, sem þeir eru að gera, að skora á stjórnina að taka upp svipað fyrirkomulag að einhverju leyti og ákveðið var að vel athuguðu máli að hverfa frá 1946. Og þó að það sé alveg rétt, að margvísleg hlunnindi eru því samfara að hafa sérskóla fyrir nokkuð þroskaða unglinga, þá eru auðvitað margvísleg hlunnindi samfara núverandi fyrirkomulagi. Það eru auðvitað stórkostleg hlunnindi fyrir æskumenn úti um allt land að þurfa yfirleitt ekki að fara nema tiltölulega stutt frá heimilum sínum til þess að geta tekið próf, er veiti þeim inngöngurétt í menntaskólana. Áður fyrri urðu menn, jafnvel þeir sem búnir voru að ljúka prófi í gagnfræðaskólum, að vera á námskeiðum hér í Reykjavík eða annars staðar til þess að tryggja sér inngöngurétt í þessa skóla. Og ég hef heyrt — og tel víst, að hlutaðeigandi skólastjóri hafi ekkert á móti því, að ég vitni til hans — gagnfræðaskólastjórann í Vestmannaeyjum telja þetta hina mestu réttarbót, sem hann hefði fengið, vegna þess að nú nytu nemendur jafnréttis, í hvaða skóla sem þeir hefðu lært; áður hefði það óhjákvæmilega orðið svo, að nemendurnir úr skólunum sem áttu að taka við nemendunum og höfðu líka kennt unglingum á þessu sama reki áður, hefðu haft forgang, og t. d. stóru staðirnir, sérstaklega Reykjavík og Akureyri, hefðu staðið miklu betur að vígi í þessu en staðirnir úti á landi.

Ég er ekki alveg viss um, hvort héruðin, ef til á að taka, eru reiðubúin til þess að sleppa þessum hlunnindum, sem þau nú hafa. Það var sagt: Hvaða ástæða er til þess, að Laugaskóli hafi menn, sem séu þar í landsprófsdeild? Það er sú ástæða, að þá þurfa menn ekki að fara úr Þingeyjarsýslu til þess að taka próf, er veiti þeim öruggan rétt til þess að komast að í menntaskóla. Í stað þess að dvelja heilan vetur eða a. m. k. nokkra mánuði við nám á hinum stærri stöðum til þess að undirbúa sig undir prófið inn í stóru skólana, geta þeir nú lokið þessu heima hjá sér. Sveitirnar og héruðin töldu þetta mjög verulega réttarbót, þegar hún var veitt 1946. Og alveg án tillits til þess, þó að það þurfi að breyta skólalöggjöfinni, — ég er sannfærður um, að hún eins og önnur löggjöf verður að vera stöðugum breytingum undirorpin, — þá er ég ekki viss um, hvort menn vilja, þegar þeir hugsa um þetta, kasta þessum hlunnindum frá sér og fá eitthvað meira og minna óvíst í staðinn.

Ég kom nýlega í héraðsskóla — það er víst kallað gagnfræðaskóli núna — uppi í Borgarfirði. Þar voru menn í 2. bekk frá 14 ára upp til tvítugsaldurs, sátu í sama bekknum. Við vitum, að það eru auðvitað ýmiss konar vandkvæði því samfara að hafa menn á svo ólíku aldursskeiði saman. En það sýnir þó, að unglingar úr sveitunum láta stundum nokkur ár líða, þangað til þeir koma í skólana aftur, svo að sá möguleiki er fyrir hendi, sem hv. þm. A-Sk. talaði um, að menn gætu þannig horfið frá námi um sinn og komizt þó í skóla og fengið sér framhaldsmenntun.

Af hálfu ríkisins og skólamanna var það að fella skólakerfið saman hugsað fyrst og fremst sem réttarbót fyrir þá, sem erfiðara eiga um að sækja skóla, og þá fyrst og fremst fyrir þá, sem eiga heima úti um sveitir landsins og í hinum minni kauptúnum og kaupstöðum. Ef fulltrúar þessara byggðarlaga vilja hverfa frá þessu og telja, að þrátt fyrir þessa réttarbót séu ókostirnir svo margir, að það eigi að hverfa frá því, þá er mjög vafasamt fyrir okkur hina að standa á móti þeirra óskum. En ég efast sem sagt um, að þetta mál hafi verið skoðað nóg ofan í kjölinn, og vil því beina því til hv. n., hvort hún teldi ekki ástæðu til að athuga þetta mál nokkru nánar. Fundartími er kominn að lokum nú, og það liggur hér fyrir, að álitsgerð fræðslumálastjóra hefur ekki verið borin undir n. Það hafa komið hér fram upplýsingar um löggjöfina, sem ég hef fulla ástæðu til að ætla að hv. n. hafi ekki gert sér grein fyrir, svo að ég mundi telja það vænlegra fyrir framgang þessa máls og til þess að menn geri sér ljóst, hvað þeir séu í raun og veru að gera, að umr. yrði frestað og hv. n. sýndi þá vinsemd að taka þetta til frekari athugunar, áður en málið kemur hér til endanlegrar atkvgr.