30.03.1955
Sameinað þing: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í D-deild Alþingistíðinda. (2954)

177. mál, fiskveiðalandhelgi

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða efni þessarar till. og kvaddi mér hljóðs aðeins út af því, að hv. aðalfim. leggur til að vísa þessari till. til allshn. þingsins. Það hafa verið bornar fram ýmsar till. viðvíkjandi landhelgi og gæzlu landhelginnar nú á þessu þingi, þeim till. hefur verið vísað til allshn., og við það er ekkert að athuga, því að í þeim till. er aðeins lagt til, að Ísland sjálft geri einhliða ráðstafanir. En hér er lagt til, að leitað sé til stjórna annarra ríkja um ákveðnar aðgerðir. Till. fjallar því alveg tvímælalaust um utanríkismál, og samkv. þingsköpum ber að vísa öllum utanríkismálum til utanrmn. Það er eina n., sem þingsköp taka alveg sérstaklega fram um, hvaða málaflokkum beri að vísa til. Hitt þykir liggja nokkuð í hlutarins eðli með aðrar nefndir, en segir skýrum stöfum í þingsköpunum, að utanríkismálum skuli vísa til utanrmn. Þess vegna vil ég nú leggja til, að þessari till. verði þangað vísað.

Hv. aðalflm. var að vísu að tala um það, að utanrmn. væri viðurkenndur kirkjugarður. (Forsrh.: Hvar líður manni betur, eins og þar stendur?) Já, hvar líður manni betur? En í því sambandi vil ég aðeins benda á það, að enn sem komið er hefur allshn. ekki séð sér fært að afgreiða þær till. um svipað efni, sem til hennar hefur verið vísað. Hún hefur tekið þær oft fyrir á fundum og rætt þær, en ekki afgr. neina þeirra enn. Þessi mál öll eru viðkvæm, og þó að halda beri að sjálfsögðu á málum okkar Íslendinga með fullri festu í þessu efni sem öðru, þá þarf þó að sjálfsögðu að gæta nokkurrar varúðar, þegar um þau er fjallað, þannig að ég sé ekki, að hv. þm. hafi ástæðu til að gera þann greinarmun á þessum tveimur nefndum, að önnur sé tvímælalaust kirkjugarður að því er snertir þetta mál, en hin örugg höfn til framhaldandi lífs.