20.04.1955
Sameinað þing: 53. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í D-deild Alþingistíðinda. (2962)

180. mál, póstgreiðslustofnun

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér ásamt tveimur öðrum hv. þm. till. til þál. um póstgreiðslustofnun. Efni hennar er það, að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að láta fram fara athugun á því, hvort hagkvæmt mundi að koma hér á póstgreiðslufyrirkomulagi, svipað því sem tíðkast mjög erlendis og á Norðurlandamáli er kallað „postgiro“.

Það er fyrir beiðni neytendasamtakanna, sem nýlega hafa verið stofnuð hér í Reykjavík, sem við höfum flutt þessa þáltill. En eitt meginverkefni þeirra er að stuðla að bættri þjónustu fyrir almenning á ýmsum sviðum. Þessi samtök hafa hafið baráttu fyrir bættum afgreiðsluháttum, og reynslan hér á landi af starfi þeirra, þó að hún sé stutt, hefur sýnt, að þau hafa komið ýmsu gagnlegu til leiðar.

Ég vil með örfáum orðum gera grein fyrir, hvert er aðalatriði þessarar hugmyndar um póstgreiðslustofnun.

Þessi starfsemi er yfirleitt í höndum sérstakrar deildar á póstmálaskrifstofum. Aðalatriði þess kerfis, sem hún byggist á, er, að einstaklingar, félög og fyrirtæki opna reikning, sem hefur visst númer, og senda greiðslur þaðan og vísa greiðslum þangað, en það fer fram á þann einfalda hátt, að kort eru útfyllt og síðan sett í póstkassa, hvar og hvenær sem mönnum bezt hentar. Þessi kort eru þrenns konar: svokölluð innborgunarkort, sem notuð eru af þeim, sem ekki hafa „postgiro“-reikning, en óska að senda þeim, sem hafa slíkan reikning, greiðslur; í öðru lagi er um að ræða útborgunarkort, sem notuð eru af þeim, sem hafa þennan póstgreiðslureikning og óska að senda þeim greiðslu sem ekki hafa reikning; að lokum eru svokölluð „giro“-kort, sem notuð eru, þegar um er að ræða greiðslur, sem sendar eru á milli aðila, sem báðir hafa slíka reikninga.

Aðalhagræðið við þetta greiðslufyrirkomulag er í því fólgið, að menn þurfa ekki að nota reiðufé, þegar greiðslur eru inntar af hendi. Þannig verður komizt hjá áhættu við geymslu peninga, og engin hætta verður á mistalningu, þar sem menn hreinlega losna við það sjálfir. Enn fremur verður bókhald við þetta léttara. Loks má á það benda, að menn geta með þessum hætti greitt hin margvíslegustu gjöld á einum og sama stað og þurfa ekki að eyða miklum tíma til þess að ganga á milli þeirra fjölmörgu stofnana, sem þeir þurfa að inna af höndum greiðslur hjá.

Ég býst við, að sú spurning muni rísa í hugum einhverra hv. þm., hvort þetta kerfi muni ekki verða alldýrt og þungt í vöfum. Við því er aðeins því að svara, að þar sem það hefur verið tekið upp, hefur reynslan — ég held alls staðar — orðið sú, að starfsemin hefur borið sig, getað risið sjálf undir rekstrarkostnaði.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þessa tillögu. Ég vænti þess, að sú hv. n., sem fær málið til athugunar að þessari umr. lokinni, afli sér þeirra upplýsinga, sem þurfa þykir, þannig að unnt verði að leggja málið sem ljósast fyrir hv. þingheim.

Ég leyfi mér svo að óska þess, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.