20.04.1955
Sameinað þing: 53. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í D-deild Alþingistíðinda. (2963)

180. mál, póstgreiðslustofnun

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég stend ekki upp til þess að bæta neinu við þá glöggu framsöguræðu, sem hv. 1. flm. flutti fyrir þessu máli, sem ég er meðflm. að, og ekki heldur til þess að undirstrika gagnsemi þess, að till. þessi nái fram að ganga, það gerði hann nógu rækilega í máli sínu. Ég stend upp til þess að skjóta því til hv. nefndar, sem fær þetta mál til meðferðar, hvort hún vildi ekki í sambandi við afgreiðslu þess taka til athugunar, hvort ekki væri unnt að gera ráðstafanir til þess að bæta póstþjónustuna hér í Rvík, sem er með ýmsum hætti þannig, að umbóta er þörf.

Svo sem kunnugt er, er hér ekki starfandi nema eitt pósthús í bænum, og hefur verið svo frá fyrstu tíð, þó að bærinn hafi margfaldazt að íbúatölu og að flatarmáli á undanförnum árum. Þeir, sem þurfa að rækja almenn póstviðskipti, þurfa að sækja hingað niður í miðbæinn. Að vísu mun á fáeinum stöðum í úthverfunum vera hægt að fá keypt frímerki og afhenda bréf. Ég hef ekki glöggar upplýsingar um það, hve staðirnir eru margir, en harla fáir munu þeir vera. Annað vildi ég nefna. Þegar um sendingar á ábyrgðarbréfum er að ræða, verða menn að fara niður í bæ til þess að sækja bréfin og kvitta fyrir. Mjög víða annars staðar eru slík bréf borin heim til manna, og geta menn kvittað fyrir þeim þar, en menn eru ekki ómakaðir á ákveðna bréfhirðingarstöð til þess að sækja þau. Sérstaklega bagar þetta auðvitað hér, þegar ekki er nema ein slík afgreiðsla fyrir allan bæinn.

Ég vildi aðeins skjóta því til hv. n., hvort hún sæi sér ekki fært í sambandi við þetta nauðsynjamál, sem hér er á dagskrá, að ræða um það við þá forráðamenn póstmálanna, sem hún væntanlega ræðir hvort sem er við, hvort ekki væri unnt að gera ráðstafanir til þess að bæta póstþjónustuna almennt hér í Reykjavík, þannig að hún geti orðið umsvifaminni fyrir almenning.