13.04.1955
Sameinað þing: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í D-deild Alþingistíðinda. (2968)

184. mál, úthafssíldveiðar

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Mér þykir hlýða, þegar slík till. er lögð fyrir Alþingi, að gefa í örfáum orðum nokkrar upplýsingar, sem ég hygg að hv. flm. hafi ekki verið kunnugt um.

Þessi till. hnígur að því, að mér skilst, að hafin verði leit að nýju veiðarfæri eða að gerðar séu ýtarlegar tilraunir til, að takast megi að búa til veiðarfæri, sem gæti áorkað því, að auðið yrði að veiða síld á djúpmiðum umfram það, sem nú er, og þó að hún vaði ekki. Þetta er mjög virðingarverður tilgangur, og það er alveg rétt, sem hv. 1. fim. gat um, að hér er um mikla þjóðarþörf að ræða og ef takast mætti að finna slíkt veiðarfæri, þá væri kannske vandreiknaður í snarkasti sá hagur, sem af því yrði fyrir þjóðarbúið. Ég er honum þess vegna alveg sammála um þetta allt, og ég met áð sjálfsögðu þann hug, sem stendur á bak við þessa tillögu, þ. e. skilning á nauðsýn Íslendinga fyrir bætta aðstöðu til síldveiði einmitt nú, eftir að síldveiði hefur svo lengi brugðizt jafnhörmulega og raun ber vitni.

Hitt er svo önnur staðreynd, sem rétt er að Alþingi sé minnt á, að úr ríkissjóði hefur verið varið milljónum — mörgum milljónum — á undanförnum árum í því skyni að efla möguleika fyrir síldveiðar hér við strendur landsins. Það er að sönnu rétt, að verulegum hluta þessa fjár hefur verið varið til þess að rannsaka síldargöngur og reyna að gera sér grein fyrir, hvort meiri eða bjartari vonir standi eitt árið en annað til þess, að síldin komi að ströndum landsins. Þannig var, man ég, einu sinni án fjárveitingar frá Alþingi og í trausti til síðara samþykkis Alþingis keypt hið kunna asdic-tæki, sem sett var í varðskipið Ægi. Ég hygg, að það hafi kostað um milljón krónur þar komið eða þar um bil, og hefur stjórnin ekki sætt neinu ámæli Alþingis fyrir að vera svo djarftæk til fjár ríkissjóðs sem þær aðgerðir báru vitni um. En stjórnin leyfði sér þetta einmitt í vitund þess, að Alþingi skilur þá þörf, sem hér er á ferð. Ríkisvaldið hefur á undanförnum árum einnig veitt á fjárlögum allmiklar fúlgur, hálfa milljón og heila, til þess að sinna málefnum síldarútvegsins með leitum og eins til þess að kosta gerð nýrra veiðarfæra og loks til þess að reyna hin nýju veiðarfæri. Allar þessar tilraunir hafa staðið yfir á undanförnum árum, kannske ekki skilað verulegum árangri, en allt eru þetta spor í rétta átt — spor til að leysa úr þeirri þörf, sem hv. 1. flm. gat um í sinni ræðu. Í sumar er ráðgert, að verulegar tilraunir verði hafnar um veiðar, og nú þegar hefur verið leitað hófanna hjá einum hinum mesta aflamanni íslenzka flotans um, að hann yrði veiðistjóri á slíku skipi. Ég vil, að þetta sé hv. Alþ. ljóst, til þess að menn viti a. m. k., að stjórnin hefur ekki verið sofandi í þessum efnum. Það hafa verið framúrskarandi hæfir menn, sem staðið hafa fyrir málum stjórnarinnar á þessu sviði, og ég get fullyrt, að af minni litlu getu hef ég bæði viljað ljá öllum skynsamlegum tillögum lið og reynt einnig að vera nokkur spori í þessum efnum, og ég vil enn fremur staðhæfa og með góðri samvizku, að ég hef aldrei, svo að ég muni, borið fram við ríkisstj., þó að Alþingi ætti ekki setu, óskir um fjárveitingar í þessu skyni, þannig að ríkisstj. hafi ekki orðið við þeim með miklum einhug. Þessi mál eiga bæði skilningi og góðvilja að fagna. Hvort við svo höfum haft yfir þeim hæfileikamönnum að ráða, sem hv. flm. telja nú að þörfin kalli á, er að sjálfsögðu ekki mitt eins um að dæma, þó að ég endurtaki það, sem ég sagði, að við höfum valið í þessu skyni mikla kunnáttumenn og mikla áhugamenn í þessum efnum.

Ég hygg, að það sé alveg rétt ráðið, að þessi till. fari til nefndar, og þá mundi sú nefnd fá fyllstu upplýsingar frá þar til hæfum mönnum um, hvað búið er að gera annars vegar og hvað á að gera í sumar á næsta áfanganum hins vegar. Ef svo hv. flm. vildu bæta þar við ráðum eða einhverjir aðrir, þá er það að sjálfsögðu allt kærkomið, því að sérhver bending, sem mætti leiða til skjótari úrlausnar þessu mikla nauðsynjamáli, er og verður ævinlega vel þegin, alveg án tillits til þess, hvaðan hún kemur.

Ég er einn af þeim, sem hafa trúað því, að nýtt veiðarfæri hlyti að finnast. Ég hef ævinlega sagt: Við hljótum að finna veiðarfæri til þess að ná síldinni hér í bugtinni, þegar bugtin er full af síld. — Við höfum gert tilraunir suður með söndum og nærri Vestmannaeyjum, þegar við höfum vitað um mikla síld þar, og við höfum trúað því, að með aðstoð radartækis mætti ná síld á djúpmiðum. Ég veit, að Norðmenn eru lengra komnir, einmitt með því að hafa radartækin ekki aðeins í leitarskipunum, heldur í sjálfum fiskiskipunum.

Ég vildi aðeins, að þetta kæmi fram, svo að þingmenn vissu, að málið hefur á undanförnum árum sætt athugun og á við að búa góðan skilning þeirra, sem um það eiga að fjalla, þó að ævinlega sé rétt að minnast hins fornkveðna, að betur sjá augu en auga, og góð ráð munu vel þegin, hvaðan sem þau koma.