19.10.1954
Neðri deild: 6. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í D-deild Alþingistíðinda. (2979)

35. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í grg, þessarar þáltill., er efni hennar að verulegu leyti samhljóða þeim till., sem mþn. í togaramálum, sem sat á rökstólum í sumar, hafði komið sér saman um til stuðnings togaraútgerðinni. En efni þessarar till. er þó ekki nema hluti af þeim till., sem mþn. hafði komið sér saman um. Flm. till. hefur minnzt nokkuð á fleiri till., sem fram höfðu komið í mþn. og fullt samkomulag var þar um, eins og tillögu um að fyrirskipa nokkra lækkun á olíuverði til togaranna, en um þá till. var öll mþn. sammála, till. um að lækka nokkuð vátryggingarkostnað skipanna, um þá till. var líka öll n. sammála, og um að fyrirskipa flutningaskipum að lækka nokkuð sína fragttaxta á afurðum, sem fluttar eru út á erlendan markað, og einnig um að lækka nokkuð vaxtakjör togaraútgerðarinnar. Um allar þær till., sem fram koma í þessari þáltill., sem hér liggur fyrir, svo og þessar till. sem ég minntist á, var mþn. í togaramálum fullkomlega sammála. Eina till., sem ekki hafði náðst fullnaðarsamkomulag um í n., var till. um bílaskattinn, sú till., sem ríkisstj. hefur nú fært út í veruleikann á þann hátt, sem hún kom sér saman um þá framkvæmd.

Ég tel sjálfsagt, eins og nú er komið, að vandamál togaranna verði tekin til athugunar á þessu þingi og að n. sú hér í þinginu, sem þegar hefur fengið frv. ríkisstj. um staðfestingu á brbl., sjútvn. þessarar deildar, taki þetta mál fyrir til athugunar sem heild, kynni sér allar till. mþn. og grg. hennar og athugi þá um leið þessa þáltill., sem hér liggur fyrir og er aðeins hluti af þeim till., sem fram höfðu komið í mþn. Ég geri mér vonir um það, að í beinu framhaldi af því verði fluttar hér í þessari hv. d. tillögur um það, sem nauðsynlegt er að gert verði til stuðnings togaraútgerðinni, og um það, sem framkvæmanlegt ætti að vera nú fljótlega.

Ég er fyllilega samþykkur þessari þáltill., eins og hún liggur fyrir, enda er hún, að ég ætla, nokkurn veginn orðrétt eins og það, sem n. hafði komið sér saman um. En ég held, að það sé alveg nauðsynlegt að fá efni þessarar þáltill. lögfest á þessu þingi. Það mun varla duga að skora aðeins á ríkisstj., að hún beiti sér fyrir því, að stofnlánum skipanna verði breytt frá því, sem nú er. Reynslan hefur sýnt, að það virðist ekki duga, nema um það séu sett ákveðin lög. Ég tel að vísu, að það sé gott, að þessi till. kemur fram. Hún bendir þarna á ákveðnar leiðir. En ég held, að samþykkt hennar mundi ekki koma nema að tiltölulega litlu gagni, nema efni hennar verði beinlínis samþykkt hér í lagaformi.

Vegna þess að sjútvn. fær væntanlega þessa till. til athugunar ásamt málinu í heild, skal ég fresta á þessu stigi málsins að ræða ýtarlega um vandamál togaranna og störf mþn., af því að ég veit, að það gefst tækifæri til þess að ræða það hér ýtarlega síðar. En hér kom fram í umræðunum á dögunum, og var nú aftur lítillega minnzt á það af flm. þessarar till., að hæstv. forsrh. lét orð falla eitthvað á þá lund, að það væri ekki um það að ræða, að togaraútgerðarmenn gætu búizt við að þeir yrðu mataðir eins og einhverjir hvítvoðungar, og tók þar auðvitað nokkuð stórt upp í sig, án þess að ég sé alveg viss um, að hann hafi meint það í verunni. En þessu bregður æði oft fyrir: Því er haldið að mönnum, að togarareksturinn í landinu sé mesti vandræðarekstur. Þar er um taprekstur að ræða, og þar þarf eitthvað að koma til hjálpar, og því eru jafnvel orð eins og þessi viðhöfð, áð það þurfi að mata þetta eins og einhverja hvítvoðungá, ef eitthvað á að gera. Í þessu efni vildi ég aðeins segja það, að það liggur fyrir athugun, sem leitt hefur í ljós, að ef togararnir hefðu notið sömu réttinda og bátaútvegurinn hefur notið í sambandi við hin svonefndu bátagjaldeyrisfríðindi eða ef togararnir hefðu fengið nákvæmlega sama fiskverð og bátarnir, þá hefði gróði á meðaltogara verið s.l. ár rösklega 2.2 millj. kr. Aðeins þessi staðreynd sýnir það, að togaraútgerðin er ekki neinn baggi á þjóðfélaginu. Hins vegar hefur henni verið boðið upp á það að halda úti sínum rekstri við allt önnur skilyrði en yfirleitt nokkur önnur starfsgrein í landinu þarf að búa við. Ég veit, að allir, sem kynna sér það mál, munu komast að raun um, að það er ofur eðlilegt, að það þurfi að grípa til nokkurra ráðstafana eins og nú er komið til stuðnings togaraútgerðinni, og það mun reynast öllum landsmönnum fyrir beztu, að það verði gert, en ekki hitt, að aðgerðaleysi verði látið ríkja og skipin liggi tímunum saman óstarfrækt eins og verið hefur.