03.11.1954
Sameinað þing: 9. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í D-deild Alþingistíðinda. (2984)

54. mál, ferðir varnarliðsmanna

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Við umræður þær, sem urðu hér á Alþ. í gær í tilefni af skýrslu þeirri, sem hæstv. utanrrh. gaf þá um herstöðvamálið, bar það efni á góma, sem þessi fsp. mín fjallar um, þ. e. a. s. reglurnar, sem Bandaríkjamönnum hafa verið settar varðandi ferðir utan samningssvæða hersins. Hæstv. ráðh. gaf þá nokkur svör við þessari fsp., og vöktu þau allmikla athygli mína og að ég hygg flestra hv. þingmanna. Svörin voru í stuttu máli á þá leið, að frá þessum reglum mætti ekki skýra og væri ekki hægt að skýra, vegna þess að þau væru hernaðarleyndarmál. Þó að þetta hljómi heldur ótrúlega af vörum hæstv. ráðh., sem vill að sjálfsögðu láta taka sig alvarlega, þá geri ég að vísu ekki ráð fyrir að fá önnur svör nú. En þrátt fyrir það hef ég ekki séð ástæðu til þess að draga þessa fyrirspurn til baka, þótt hæstv. ráðh. vildi ekki svara henni í gær á annan hátt en hann þá gerði. — Efni þessarar fsp. er svo augljóst og margrætt, að ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða þar um.