10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í D-deild Alþingistíðinda. (2992)

83. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Fyrirspyrjandi (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fsp. á þskj. 114 til hæstv. iðnmrh. um, hvað liði setningu reglugerðar um III. kafla laganna um öryggi á vinnustöðum. Í tilefni þessarar fsp. minnar vildi ég segja nokkur orð.

Fyrstu öryggislögin, er um getur með afskiptum ríkisvaldsins, eru lögin um eftirlit með verksmiðjum og vélum frá 27. maí 1928. Ári síðar, 9. júní 1929, tók til starfa öryggiseftirlit, er tveir stjórnskipaðir menn sáu um. Þannig var eftirlitið um 12 ára skeið, eða til ársins 1941, að lögunum var enn nokkuð breytt. Árið 1953 fóru hins vegar fram gagngerðar breytingar á lögunum. Tildrög þeirra breytinga voru fyrst og fremst till. hv. 5. landsk., Emils Jónssonar, er hann lagði fram með frv. sínu á þinginu 1948, þá sem iðnmrh., en eftir að hann lét af ráðherradómi, flutti hann málið á ný á þingunum 1949, 1950 og 1951. Á þinginu 1950 var frv. samþ. í Nd., að vísu nokkuð breytt, en Ed. vék málinu frá með rökstuddri dagskrá, sem var í því fólgin, að ríkisstj. skyldi falið að athuga, hvort ekki væri hagkvæmt og eðlilegt að sameina skipaskoðun ríkisins og verksmiðjueftirlitið undir eina yfirstjórn og hve mikið það fyrirkomulag mundi spara í útgjöldum. Á Alþingi 1951 flytur svo sami flm. frv. í hið fjórða sinn með þeim breytingum, sem Nd. hafði á því gert. Undir lok þess þings náði frv. loks fram að ganga og var samþ. sem lög frá Alþingi 22. janúar 1952.

Við meðferð þingsins hafði frv. að vísu tekið allmiklum breytingum. T. d. voru felld niður ákvæði III. kafla þess um sérstakar reglur varðandi ráðstafanir til verndar heilbrigði og velferð verkamanna, en í þess stað gert ráð fyrir, að, ráðh. setti um það sérstaka reglugerð að fengnum till. öryggismálastjóra. Það er þessi breyting, sem fyrri fsp. mín er byggð á.

Í öðru lagi var felldur niður úr frv. VII. kafli þess, sem gerði ráð fyrir skipun fimm manna öryggisráðs, m. a. með aðild Alþýðusambands Íslands, Félags íslenzkra iðnrekenda og Landssambands iðnaðarmanna, en hins vegar er beint og óbeint gert ráð fyrir, að öryggismálastjóri geti kallað fulltrúa þessara aðila til ráðuneytis við sig um setningu reglugerðar o. s. frv., án þess að þeir séu til þess skipaðir með þeim skyldum, er því fylgja.

Með samþykki Alþingis á frv. um öryggisráðstafanir á vinnustöðum hefur verið viðurkennt af hálfu löggjafarvaldsins, að nauðsyn sé á haldgóðri löggjöf um öryggi og velferð verkamanna annars vegar og þá jafnframt að koma í veg fyrir það þjóðhagslega tjón, sem stafar af slysförum á vinnustað.

Iðnaðarsérfræðingur einn, sem kom hingað á vegum efnahagssamvinnustofnunarinnar í París árið 1950, lýsti þessu þjóðfélagstjóni þannig í ræðu, er hann hélt við brottför sína, með leyfi hæstv. forseta:

„Ykkar eigin skýrslur sýna, að á árinu 1944, 1945 og 1946 töpuðust 104231 vinnudagur og 22 mannslíf á vinnustöðum. Þar við bættust 37 starfsmenn, sem urðu með öllu óverkfærir af sömu orsökum. Þetta svarar til 417 starfsmanna í heilt ár, án þess að tekið sé tillit til þeirrar eymdar og þjáninga, sem þetta fólk og aðstandendur þeirra hafa orðið fyrir.“

Það er óþarft í umr. um þessar fsp. að tilnefna fleiri dæmi um hina brýnu nauðsyn á því, að þessum lögum sé vel fylgt eftir og vel fyrir framkvæmd þeirra séð. Reglugerðin, sem um getur í III. kafla gildandi laga að sett verði af ráðherra, er einn veigamesti þáttur þessarar löggjafar. Meðan sú reglugerð er ekki komin í framkvæmd, er eðlilegt, að hinar vinnandi stéttir verði lítið varar við aukið öryggi. Þess vegna er nauðsynlegt að fá skýr svör um, hvað þessari reglugerð liði.

Hin síðari spurning mín, í hverju starf öryggiseftirlitsins sé nú fólgið, liggur í augum uppi að er fram borin í beinu framhaldi hinnar fyrri og þá jafnframt til þess að upplýsa, hvað nú þegar sé gert til öryggis hinum ýmsu starfsgreinum.

Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. gefi skýr svör varðandi þessi mikilvægu atriði um slysavarnir, varnir gegn atvinnusjúkdómum, varnir gegn hinu gífurlega þjóðhagslega tjóni á vinnustöðum, sem þjóðin verður árlega fyrir af vankunnáttu og eftirlitsleysi í þessum efnum.