10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í D-deild Alþingistíðinda. (2994)

83. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það var að gefnu tilefni, að ég vil segja hér nokkur orð út af ræðu hv. fyrirspyrjanda. Hann upplýsti hér, að ákveðinn fjöldi vinnustunda hefði glatazt vegna slysa, sem orðið hefðu hér á Íslandi fyrir vanrækslu í eftirliti og ekki er hægt að skilja öðruvísi en að stafi frá því, að lögin um eftirlitið væru ekki nægilega ströng og helzt, eftir því sem mátti heyra á orðum hans, að væri að kenna iðnn. Ed. eða Ed. allri fyrir að hafa fellt út úr frv. ákveðinn kafla. Í þessu sambandi vil ég upplýsa, að iðnn. Ed. á sínum tíma athugaði mjög gaumgæfilega orsakirnar til þessara slysa og þess vinnustundatjóns, sem af þeim hlauzt. Og það var upplýst þar, að orsakirnar lágu ekki í vöntun á reglugerð eða lagaákvæðum, heldur beinlínis fyrir slælegt eftirlit í stofnuninni. Það var einnig upplýst á sama tíma, að forstjórar stofnunarinnar og starfsmenn höfðu þá allt að jafnháum launum fyrir að vinna í annarri ríkisstofnun sem kennarar við ríkisskóla, og sýndi, að þeir höfðu ekki varið öllum sínum tíma til þess að líta eftir þessum málum samkv. þeim reglugerðum og lögum, sem fyrir lágu. Og það var í þriðja lagi upplýst þá, að viðkomandi ráðuneyti hafði aldrei neitað að staðfesta nokkra þá reglugerð, sem forstjóri stofnunarinnar fór fram á að væri staðfest til öryggis eftirlitinu. Að síðustu vil ég benda á, að einmitt allan þennan tíma var það hæstv. iðnmrh., sem þá var Emil Jónsson, sem bar ábyrgð á stofnuninni eins og hún var á þeim tíma. Þetta þótti mér rétt að láta koma fram fyrir þær athugasemdir, sem komu hjá fyrirspyrjanda.