10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í D-deild Alþingistíðinda. (3009)

208. mál, launalög

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Því miður eru þingsköp þannig, að þegar fyrirspurnir eru til umræðu, er hverjum þm., jafnvel fyrirspyrjanda, aðeins leyft að taka til máls tvisvar sinnum. Þetta veit auðvitað hæstv. viðskmrh. Þess vegna var það heldur lítið riddaralegt af honum, þegar hann vissi það, að ég hafði lokið mínum tveim stuttu fimm mínútna ræðum, að hefja þá stórpólitískar umræður með almennum ásökunum á mig og flokk minn fyrir það að hafa ekki lagt fram tillögur til lausnar á dýrtíðarvandamálinu. Ég get í þessari ræðu minni auðvitað ekki svarað þessu, en vil þó aðeins minna hann á það, að eina frv., sem fram hefur komið á Alþ. í seinni tíð um hækkun á gengi íslenzku krónunnar, kom frá Alþfl. á fyrri árum stríðsins, þegar skilyrði voru til þess af efnahagslegum ástæðum að hækka gengi krónunnar. Ekki veit ég, hvort hæstv. ráðh. var kominn á þing þá, en þetta ætti hann a. m. k. að vita, þegar hann er kominn jafnhátt í valdastiganum og hann er núna kominn. Enn fremur lagði Alþfl. fram í styrjöldinni hvað eftir annað tillögur um allsherjar lausn á dýrtíðarvandamálinu. — Frekar ræði ég málið ekki.

Þá sný ég mér frá þessu, sem ég sagði að gefnu tilefni, og að fsp., sem nú er til umræðu. Gildandi launalög eru frá árinu 1945.

Þegar þau voru sett, voru þau þegar orðin úrelt og urðu það enn meir á allra næstu árum. Opinberir starfsmenn drógust þá eins og oft áður aftur úr öðrum launastéttum. Þetta var viðurkennt að nokkru þremur árum seinna, árið 1949, en þá skipaði hæstv. þáverandi ríkisstj. nefnd manna til þess að gera tillögur um breyt. á launalögunum.

Þessi endurskoðun leiddi til þess, að laun opinberra starfsmanna voru hækkuð um 10–17%. Þessi launahækkun var þó ekki leidd í lög, heldur var hún fyrst greidd samkv. þál., og nú hin síðari ár — ég held aðeins eitt eða tvö — hefur hún verið greidd samkv. ákvæðum í fjárlögum. En lögfest með venjulegum hætti hefur þessi launauppbót aldrei verið. Þegar verkfallið mikla var háð 1952 með sigri launþegasamtakanna, sem það verkfall háðu, urðu opinberir starfsmenn einnig aðnjótandi nokkurra launabóta í samræmi við niðurstöðu verkfallsins. Þessi launahækkun hefur verið lögfest í sérstökum lögum, sem framlengd hafa verið frá ári til árs, og liggur frv. um framlengingu á þeim enn fyrir þessu þingi.

Opinberir starfsmenn búa því nú við það ástand um launamál sín, að löggjöfin, sem um þau gildir, er orðin næstum áratugs gömul og algerlega úrelt. Þeim eru greiddar nokkrar bætur samkv. sérstökum lögum, en verulegur hluti uppbótanna, sem þeir nú njóta, er greiddur án sérstakrar lagaheimildar. Þetta er í sjálfu sér algerlega óviðunandi ástand fyrir jafnstóra starfsstétt og opinberir starfsmenn eru. Þetta mun hæstv. ríkisstj. einnig hafa viðurkennt — með sjálfri sér a. m. k. — öðru hverju, því að hún mun hafa skipað n. fyrir þrem eða fjórum árum til þess að framkvæma enn nýja endurskoðun á launalögunum. Hún mun hafa lokið störfum, Bandalag opinberra starfsmanna fengið till. hennar til úrlausnar, sent ríkisstj. sínar till., en hún ekkert aðhafzt í málinu. Og nú nýlega er mér tjáð, að ríkisstj. hafi skipað enn eina n. til þess að endurskoða þessi mál og hún muni nú vera starfandi. En opinberir starfsmenn eru að vonum orðnir langeygir eftir því í fyrsta lagi, að núverandi laun þeirra verði lögfest, og svo í öðru lagi, að launalögunum í heild verði breytt og nokkur bót ráðin á því misrétti, sem enn hefur skapazt varðandi laun opinherra starfsmanna og laun annarra sambærilegra starfsstétta í þjóðfélaginu.

Af þessum sökum hef ég leyft mér að bera fram fsp. um það, hvað líði endurskoðun launalaganna og hvort þess sé að vænta, að frv. til nýrra launalaga verði lagt fyrir yfirstandandi þing.