10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í D-deild Alþingistíðinda. (3011)

208. mál, launalög

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans við fsp., en verð jafnframt að láta í ljós vonbrigði yfir því, að þess skuli ekki að vænta, að frv. til nýrra launalaga verði lagt fyrir þetta þing.

Hæstv. ráðh. virðist hafa tilhneigingu til þess að skella skuldinni vegna þess óhæfilega langa dráttar, sem orðið hefur á endurskoðun launalaganna, á Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Hvað rétt er í þeim efnum, vil ég ekki fullyrða. En höfuðábyrgðina gagnvart opinberum starfsmönnum í heild ber ríkisstj. sjálf, og henni getur hún ekki velt yfir á nokkurn annan aðila. Það óréttlæti, sem opinberir starfsmenn eiga við að búa, er, eins og ég sagði áðan, orðið algerlega óviðunandi. Þeir hafa ekki fengið neitt líkt því hliðstæðar uppbætur á laun sín og flestar, ef ekki allar starfsstéttir þjóðfélagsins hafa fengið. Það er ekki við því að búast, að vinnufriður haldist lengi á þessum markaði, ef ekki verður gripið til skjótra aðgerða í málinu. Ég harma það sem sagt, ef ekki er von á frv. um þetta efni, og vildi mjög mælast til þess við hæstv. ráðh., að hann ýtti sem allra mest á eftir n. þeirri, sem nú starfar að endurskoðun launal., þannig að frv. geti orðið tilbúið af hennar hálfu sem allra fyrst.