10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í D-deild Alþingistíðinda. (3016)

209. mál, verkfræðingar í þjónustu ríkisins

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Svo sem alkunnugt er og þegar hefur lítillega verið vikið að nú hér á hinu háa Alþingi, hurfu á s.l. sumri úr þjónustu ríkisins nær allir verkfræðingar, sem þar hafa starfað undanfarið, svo að ríkið er nú algerlega verkfræðingalaust. Verkfræðingar sögðu yfirleitt alls staðar upp störfum, þar sem þeir störfuðu hjá opinberum eða hálfopinberum fyrirtækjum. Stóð nokkurn tíma í samningum milli þeirra og hinna ýmsu opinberu eða hálfopinberu aðila, sem þeir höfðu unnið hjá.

Mér er nú tjáð, að stéttarfélag verkfræðinganna hafi náð samningum við alla þá aðila, sem þeir áður unnu hjá, nema ríkisstjórnina. Fyrsti heildarsamningurinn, sem verkfræðingarnir gerðu, var við Reykjavíkurbæ, en Reykjavíkurbær er sá opinberi aðili í landinu, sem mestra hagsmuna hefur að gæta í þessu sambandi, að ríkinu sjálfu frátöldu. Þar var gerður kjarasamningur þess efnis, að mánaðarlaun verkfræðinga á 1. og 2. starfsári skuli vera 4265 kr., á 3.–9. starfsári 4480 kr. og á 10. starfsári og þar yfir 4585 kr., en deildarverkfræðingar skuli hafa nokkru hærri laun á mánuði, 4710 kr., og yfirverkfræðingar 4965 kr. Auk þess var samið við verkfræðingana um, að þeir ynnu reglubundna aukavinnu, samtals 260 stundir á ári, sem skyldi greiðast með 45-65 kr. á klst., en deildarverkfræðingar og yfirverkfræðingar fá 15% og 30% álag á þá fjárhæð. Mér hefur skilizt, að laun almennra verkfræðinga í þjónustu Reykjavíkurbæjar verði með þessu móti frá 62–73 þús. kr. á ári, en deildarverkfræðinga og yfirverkfræðinga nokkru hærri. Þegar þessi samningur hafði verið gerður við Reykjavíkurbæ, gerði stéttarfélag verkfræðinga samning við Vinnuveitendasamband Íslands í aðalatriðum á sama grundvelli. Einnig hefur verið samið við Félag íslenzkra iðnrekenda. Enn fremur hefur verið samið við ýmsar hálfopinberar ríkisstofnanir, sem telja sér heimilt að ráða starfsmenn án þess að spyrja yfirmenn sína í stjórnarráðinu um leyfi, svo að alls staðar munu verkfræðingar vera aftur komnir til starfa nema hjá ríkisvaldinu sjálfu, og hafði þó engin stofnun jafnmikla þörf fyrir það að njóta áfram starfskrafta þessara sérfræðinga og einmitt ríkisvaldið. Það hefur mjög háð ýmissi fjárfestingarstarfsemi ríkisvaldsins á s.l. sumri, að verkfræðingar hafa ekki verið fyrir hendi til þess að inna af hendi nauðsynleg sérfræðistörf í því sambandi, og mun þó enn þá meir há fjárfestingarstarfsemi ríkisvaldsins á næsta sumri, ef ekki verður skjótlega ráðin bót á þessu. Af þessum sökum hef ég leyft mér að bera fram fsp. um það, hvers vegna ríkisstj. hafi ekki enn þá samið við þá verkfræðinga, sem hurfu úr þjónustu ríkisins á s.l. sumri, og tekið þá aftur í þjónustu sína.