10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í D-deild Alþingistíðinda. (3018)

209. mál, verkfræðingar í þjónustu ríkisins

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Ég þakka hæstv. ráðh. svarið, þó að býsna hafi það verið stuttaralegt.

Ég fæ ekki séð, að það geti verið nægileg ástæða fyrir því að verða af starfskröftum jafnmikilvægrar starfsstéttar og verkfræðingarnir eru, að þó að gengið yrði að kröfum þeirra eða samið við þá á svipaðan hátt og Reykjavíkurbær hefur samið, Vinnuveitendasamband Íslands hefur samið, Félag íslenzkra iðnrekenda hefur samið, þá mundi það valda óviðunandi misrétti í launakjörum ríkisins.

Það er gömul saga, sem hæstv. fjmrh. og ýmsum öðrum stuðningsmönnum núverandi ríkisstj. er kunnug, að það ríkir nú þegar mjög mikið misrétti í launagreiðslum ríkisins. Þótt samningur verkfræðinganna við Reykjavíkurbæ yrði gerður að samningi ríkisins við stéttarfélag verkfræðinganna, þá efast ég um, að það skapaðist svo mikið ósamræmi, að ekki mætti benda á hliðstæður í öðrum starfsgreinum ríkisins, sem væru nákvæmlega eins. Ég trúi því ekki, að óttinn við misræmi í launagreiðslum valdi því eingöngu, að ekki hafa hér komizt á samningar. Það er kunnugt, hefur komið fram opinberlega, að ýmsar tungur, ef til vill illar tungur, hafa sagt, að núverandi ríkisstj. hafi í raun og veru gripið uppsögn verkfræðinganna fegins hendi, vegna þess að hún hafi haft mikinn hug á því að takmarka ýmsa fjárfestingarstarfsemi ríkisins, þótt það aðeins gott í raun og veru að fá þessa afsökun fyrir því að draga úr ýmsum framkvæmdum, sem erfitt hefði verið að afla fjár til á s.l. sumri, og líkt væri hugsað til næsta sumars. Ég vil ekki gera hæstv. ríkisstj. slíkar getsakir, en mér finnst hún þurfa að bera fram einhverjar skýrari og gleggri skýringar á því, hvers vegna er ekki gengið a. m. k. að samningaborði og þrautreynt að ná skynsamlegum samningum. Aðrar skýringar og betri á því máli þarf að fá. Og það vil ég endurtaka að síðustu, að það er ekki viðunandi, að svo fari fram sem gert hefur. Það var slæmt, hversu margar framkvæmdir þurftu að bíða á s.l. sumri. Það verður óviðunandi, ef ekki verður búið að ráða endanlega bót á þessu máli fyrir næsta vor, þannig að opinberar framkvæmdir geti hafizt og orðið með reglulegum hætti næsta sumar.