08.12.1954
Sameinað þing: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

1. mál, fjárlög 1955

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur eins og oftast áður klofnað, og mynda meiri hl. allir fulltrúar Sjálfstfl. og Framsfl. í n. Hefur frsm. meiri hl., hv. 2. þm. Eyf., nú gert grein fyrir nál. og till. meiri hl. Þær till. eru flestar smálagfæringar á frv. til fjárl. fyrir árið 1955 og viðbætur við það. En í rauninni er með till. meiri hl. lögð blessun yfir fjárlfrv. sjálft og þá viðsjárverðu stjórnarstefnu, sem það er spegilmynd af. Það er því að vonum, að ræða hv. 2. þm. Eyf. varð nálega óslitinn lofsöngur um stefnu ríkisstj. og um ástandið í landinu, sem þeir telja vera harla gott.

Við hv. 11. landsk. (LJós) lítum allt öðruvísi á það mál. Við teljum stefnu ríkisstj. í fjármálum, þá stefnu, sem fjárlfrv. er byggt á, vera í senn ranga og bókstaflega hættulega atvinnuvegum landsins. Ávextir þessarar stefnu blasa hvarvetna við. Gengislækkunin var fyrsta sporið út á þá heljarslóð, sem núverandi og næstsíðasta ríkisstj. hafa troðið síðan. Verðfelling krónunnar átti að vera allsherjarlækning á öllum erfiðleikum og meinum atvinnulífsins, og upp á það voru þjóðinni þulin mörg læknisvottorð frá sprenglærðum Ólöfum og Benjamínum, ríkisstjórninni og ýmsum fleiri. En því miður hafa þessi vottorð reynzt falsvottorð eintóm, og spárnar um gullöld atvinnulífsins hafa sprungið á sjálfum spámönnunum eins og sápukúlur væru. Eftir gengislækkunina varð fljótlega að grípa til annars bjargræðis fyrir bátaútveginn, það var bátagjaldeyrisskatturinn, sem er í raun og veru viðbótargengislækkun eða hundraða milljóna skattur á þjóðina ofan á allt annað. En ekki dugði þetta heldur. Á þessu ári var togaraútgerðin líka komin á heljarþröm, og þá var skellt á sérstökum togaraskatti upp á nokkra tugi milljóna bara til þess að halda togurunum í gangi fram til næstu áramóta. Svo vísdómslega var þessum skatti þó hagað, að af honum drypi jafnframt í ríkissjóð a.m.k. 20 millj. kr. sem aukageta, og var þó sannarlega ekki hægt að segja, að ríkissjóðurinn væri í aurahraki. Þannig er ástand sjávarútvegsins.

En ekki er hörmungarsaga atvinnuveganna öll sögð með því, því að með gengislækkuninni átti svo sem að hverfa af styrkja- og uppbótaleiðinni, allar uppbótagreiðslur til atvinnuveganna áttu þá að falla niður, og hin hátíðlegu loforð, sem gefin voru um það, eru öllum í fersku minni. Er þá ástæða til að spyrja, hvort þau loforð hafi ekki verið efnd. Hefur ekki verið staðið vandlega við loforðin um að hverfa af styrkjaleiðinni? Nei, það er eitthvað annað. Á seinasta ári voru borgaðar 50 millj. kr. í niðurgreiðslur úr ríkissjóði, aðallega til verðlækkunar á landbúnaðarafurðum. Sama upphæð fer í níðurgreiðslur á þessu ári, og sama fjárhæð er enn þá ætluð til þeirra á næsta ári. Þannig eru allir framtíðaratvinnuvegir og framleiðsluatvinnuvegir þjóðarinnar á fátækraframfæri hjá ríkissjóði, en milliliðir og braskarar græða á tá og fingri og velta sér í auði og allsnægtum. Og hvaðan skyldu þeir fá gróða sinn? Auðvitað af framleiðslustörfum þjóðarinnar, því að víst er, að það er vinnan, sem er móðir allra auðæfa. Gæðingar stjórnarfiokkanna hafa fengið óheft frelsi og í flestum tilfeilum einokunaraðstöðu til að soga til sín ofurgróða af sölumeðferð framleiðsluvaranna og síðan margfalda þann ofsagróða aftur með ótakmarkaðri álagningu á þær vörur, sem keyptar eru inn í landið fyrir framleiðslu landsmanna. Á þessum leiðum er siglt við blásandi byr fjárplógs og féflettingar. En hver trillubátur, hver þilfarsbátur og hver togari er rekinn með dúndrandi tapi. Af öllu greiðist meira eða minna. Allir þeir, sem vinna að stjórn eða rekstri atvinnutækja, verða að búa við kröpp kjör. Fólkið flýr þess vegna framleiðslustörfin. Skortur er á mönnum á vélbátaflotann, og nú á að fara að flytja inn útlendinga á bátana. Það er sama sagan og var með togaraflotann í fyrravetur, þar til mönnum hugkvæmdist það snjallræði undir verkfallsógnunum að bæta svolítið kjör togarasjómannanna, og það reyndist auðvitað að leysa vandann.

Ekki er það betra með landbúnaðinn. Um ástandið þar hafa þeir hv. stjórnarstuðningsmenn, Jón á Reynistað og Jón Pálmason, þm. Skagf. og Húnv., sagt hv. Alþingi sannleikann, en hann er sá, að aldrei í sögunni hafi tilveru íslenzks landbúnaðar verið ógnað eins og nú af verkafólksskorti, vinnuaflsskorti. Og þeirra till. er að flytja inn kvenfólk frá Hollandi eða öðrum Evrópulöndum til þess að reyna að halda íslenzkum landbúnaði gangandi. Ekki er þó gefin nein fullnægjandi heildarmynd af upplausnarog neyðarástandi atvinnulífsins, nema á það sé minnzt, að atvinnuleysi herjar nú í þremur landsfjórðungum, og er það ástand ekki aðeins viðurkennt af stjórnarandstæðingum, heldur hafa stuðningsmenn stjórnarinnar komið fram í hópum og röðum hér á Alþingi, lýst atvinnuskortinum hver í sínu byggðarlagi og krafizt úrbóta.

Þetta eru ávextir þeirrar stjórnarstefnu, sem hóf hér innreið sína árið 1950 með gengisfellingunni og hefur drottnað alvöld síðan. Það má nú segja, að þetta er búskapur í lagi — Sjálfstæðisbúskapur — það er sjálfsagt að nefna hann því nafni, enda annast bústjórnina Sjálfstæðisflokkur og bændaflokkur, sem kennir sig við framsækni og framfarir. Ríkisstj. ætti vissulega að staldra við á heljarslóðarmarsi sínum og spyrja: Hvað er nú orðið okkar starf, höfum við gengið til góðs? — Ef til vill sýnist stjórninni sem ofurgróði milliliða og braskara sé aðalatriðið, að dýrtíðarflóðið sé gæði, en ekki þjóðfélagsböl. Ef til vill segir forsrh. bara með hressilegu handapati: Skítt með atvinnuvegina, lifi milliliðirnir. — A.m.k. verður ekki annað séð en að kjörorð stj. séu að anda og innihaldi eitthvað á þá leið, og starf stj. er nú aðallega orðið það að gripa sífellt til nýrra og nýrra neyðarúrræða — hún játar sjálf, að það séu neyðarúrræði — til þess að reyna að koma í veg fyrir algera stöðvun atvinnulífsins í bili. Stendur hún í því efni í líkum sporum og meistarinn Miinehausen, þegar hann var að reyna að draga sjálfan sig upp á hárinu.

Við hv. 11. landsk., sem stöndum að áliti og till. minni hl. fjvn., gerum okkur ljóst, að það ber nauðsyn til, að breytt verði um stefnu í fjármálum landsins, en slík breyting næst ekki fram með því einu að gera nokkrar smábreytingar á ýmsum liðum fjárlfrv. Við höfum því látið undir höfuð leggjast að bera fram brtt. að þessu sinni til að draga úr hinu sívaxandi embættisbákni ríkisins. Til þess að koma þar fram breytingum, sem máli skipti, þarf margvíslegar lagabreytingar, en þannig væri líka hægt að gera embættisbáknið miklu einfaldara, starfhæfara og ódýrara. Við erum líka í meginatriðum ósamþykkir þeirri tekjuöflun, sem nú er bundin í lögum, og væri vissulega þörf margvíslegra lagabreytinga á því sviði. En við viljum, að hinir lögbundnu tekjustofnar ríkisins séu rétt áætlaðir, en það hafa þeir ekki verið nú í mörg undanfarin ár. Hefur nú verið upplýst, að tekjur ársins 1954 hafi farið 108 millj. kr. fram úr tekjuáætlun fjárl. fyrir þetta ár. Á fjárl. þessa árs voru tekjurnar áætlaðar 443 millj., en verða a.m.k. 551 millj. kr., áður en þessu ári lýkur. Og þessar röngu áætlanir eru heldur engin ný bóla, því að svona hefur þetta gengið á hverju einasta ári, a.m.k. síðan ég kom í fjvn. og man til þessara mála. Á hverju einasta ári hef ég lagt til, að tekjuáætlunin væri hækkuð um nokkra milljónatugi. Á hverju einasta ári hefur hæstv. fjmrh. hamazt á móti þessum leiðréttingum, og allt stjórnarliðið hefur lamið fram fyrir hann hinar röngu — þ.e.a.s. allt of lágu — tekjuáætlanir. Hæstv. fjmrh. hefur á hverju ári fullyrt, að áætlanir mínar væru óraunhæfar, þær væru allt of háar, hann hefur talað um blekkingar, barnaskap, fáfræði í því sambandi. En hver hefur svo reynslan orðið? Hún hefur orðið sú á hverju einasta ári, að allar mínar áætlanir hafa staðizt og reynzt mjög varlegar, eins og ég hef haldið fram að þær væru og eins og ég hef vitað að þær voru.

Aldrei hefur hæstv. fjmrh. þó haft stærri orð um glannalegar áætlanir mínar um tekjuáætlanir fjárl. heldur en í fyrrahaust um þetta leyti. Þá lagði ég til, að tekjuáætlanirnar á fjárl. yrðu hækkaðar um rúmar 35 millj. kr., að mig minnir. Að lokum lét stjórnarliðið svolitið undan síga og hækkaði tekjuáætlunina um 17 eða 18 millj., að ég held. En hver hefur svo reyndin orðið á þessu ári, sem síðan er liðið? Hún er þessi, sem ég áðan sagði. Tekjurnar hafa farið 108 millj. a.m.k. fram úr áætlun fjárl., eins og frá þeim var gengið að síðustu, en nálægt 130 millj. fram úr áætlun hæstv. fjmrh. samkv. fjárlfrv. ársins 1954. Þetta er kórónan á röngum tekjuáætlunum fjári. á undanförnum árum.

Nú skyldi maður ætla, að fjmrh. hefði séð að sér og viðurkenndi staðreyndir, en það er ekkert útlit fyrir það enn þá. Hann lagði í haust fram fjárlfrv., þar sem gert er ráð fyrir, að tekjurnar árið 1955 verði 494 millj., eða um 60 millj. kr. lægri en tekjur þessa árs reynast. Þetta heitir á biblíumáli að forherðast í syndinni, en er á alþýðumáli íslenzku nefnt að lemja hausnum við steininn. Sá kostur er þó einn fyrir hendi að gera enn þá eina tilraun til að leiðrétta tekjuáætlun fjárl., sem enn þá er bersýnilega röng um marga milljónatugi. Verður enn farið svo varlega í sakir, að víst megi telja, að reynslan skili hærri tölum, eins og ég hef gert undanfarin ár.

Áætlun hæstv. fjmrh. um tekju- og eignarskattinn læt ég standa óbreytta eins og hann hefur gert hana, en hún er 65 millj. og 700 þús. kr. Má þó telja alveg víst, að hin alkunna varfærni hæstv. ráðherra lumi þar á nokkrum milljónum sem afgangi. — Vörumagnstollurinn, sem í frv. er áætlaður 26 millj., er nú orðinn 25.3 millj. í nóvemberlokin. Hann á því áreiðanlega eftir sem svarar tveggja mánaða viðbót um það leyti sem hann verður fulluppgerður, og áætlast hann því af okkur í minni hl. 30.5 millj. kr. — Verðtollurinn er áætlaður í frv. 138 millj. kr. Hann er þegar orðinn 133.3 millj., en kemur inn nokkru eftir á. Eftir reynslu undanfarinna ára á hann eftir að hækka mikið, og áætla ég hann þó ekki nema 158.3 millj. kr. — Innflutningsgjald af benzíni er áætlað 91/2 millj., en þegar er komið á 13. millj., og áætla ég það því 141/2 millj. kr. — Gjald af innlendum tollvörum áætla ég 1 millj. kr. hærra en gert er í frv. og bifreiðaskattinn aðeins 700 þús. kr. hærri þrátt fyrir allan þann bílafjölda, sem nú á að flytja inn í landið á þessu og næsta ári. Hvort tveggja er svo varlega gert, að ekki verður um það deilt. - Aukatekjur, sem hafa tekið mikið stökk upp á við frá árinu 1953, áætla ég 1 millj. hærra en gert er í frv., eða 8.6 millj. í staðinn fyrir 7.6 millj.

Þá kemur að hinni miklu mjólkurkú ríkisstj., söluskattinum. Hann er áætlaður 107 millj. á fjárlfrv., en varð árið 1953 nokkru hærri, og nú í nóvemberlokin er hann orðinn 104 millj. Hann er einn þeirra tekjustofna, sem skila sér í ríkiskassann nokkuð eftir á, og er því óhætt að reikna með því, að hann eigi eftir að skila í desember, þeim mikla kaupsýslumánuði, og janúar allt að þriggja mánaða meðaltekjum. Áætla ég hann því örugglega 126 millj. kr. og veit, að hann verður nokkru hærri. — Reynsla seinasta árs, þegar söluskatturinn var áætlaður 911/2 millj. kr., en tekjurnar fóru 108 millj. fram úr áætlun, eins og áður er sagt, sýnir, að vel hefði verið forsvaranlegt að samþykkja till., sem fram kom í fyrra um að fella söluskattinn alveg niður. En þrátt fyrir það leggur minni hl. nú aðeins til, að þriðjungur hans, 42 millj. kr., verði látinn renna til tekjuvana bæjar- og sveitarfélaga og ríkissjóði séu ætlaðir 2/3 af söluskattinum.

Samkv. ríkisreikningunum 1953 voru tekjur af rekstri ríkisstofnana, aðallega áfengisverzlunar og tóbakseinkasölu, 112.8 millj. kr. Nú þegar eru tekjur þessara stofnana orðnar 96 millj. kr., og er vitað, að desember er jafnan tekjudrjúgur hjá báðum þessum fyrirtækjum. Ég tel mig því ekki áætla of djarft, þegar ég geri ráð fyrir, að áfengi og tóbak skili ríkissjóði á næsta ári 115 millj. kr. með sífjölgandi veitingahúsum, sem vínveitingaleyfi hafa fengið nýlega og eru að fá.

Niðurstaðan af tekjuhækkunartill. mínum og hv. 11. landsk. (LJós) er þá sú, að tekjur fjárl. yrðu samkv. okkar till. tæpar 553 millj. kr., eða nokkurn veginn sama upphæð og tekjurnar reynast þetta ár, 1954. Hefur meiri hl. enga tilraun gert til að sýna fram á, að tekjur muni fara lækkandi á næsta ári, enda er ekkert, sem bendir til þess, að það séu komin straumhvörf í tekjuupphæðum ríkissjóðs. Hins vegar má geta þess, að þegar er vitað, að ríkissjóður fær á næsta ári um 20 millj. kr. aukatekjur vegna togaraskattsins á bílana, þó að skipulag þessa togaraskatts verði ekki framlengt, en miklu meiri upphæð, ef gripið verður til þess að framlengja það fyrir næsta ár. Til þessarar upphæðar hefur ekkert tillit verið tekið í okkar hækkunartill., og á hæstv. fjmrh. hana til góða.

Till. þær, sem við berum fram um beinar gjaldahækkanir á fjárl., nema hins vegar samtals ekki nema 28.3 millj. auk þeirra 14 millj. hækkunartill., sem við stöndum að ásamt hv. meiri hl. fjvn. Þannig skiljum við þá við fjárlfrv., þótt till. okkar yrðu allar samþ., með meiri tekjuafgangi en stjórnarliðið, enda höfum við þá leiðrétt nokkuð tekjuáætlunina, sem hefur verið röng mörg undanfarin ár og er jafnvitlaus nú eins og áður.

Stærstu till. okkar eru þær, að atvinnubótafé verði 10 millj. kr. í stað 5 millj., sem nú eru á frv. Aðrar 10 millj. kr. leggjum við til að fari til stuðnings bæjar- og sveitarfélögum til kaupa á fiskibátum. Þá leggjum við til, að varið verði 20 millj. kr. af tekjuafgangi ríkissjóðs 1954 til ' eflingar Fiskveiðasjóði Íslands. Það er einnig styrkur fyrir atvinnulífið. 50 millj. kr. verði teknar að láni, að svo miklu leyti sem fjárhagur ríkissjóðs á næsta ári gerði ekki mögulegt að leggja þá upphæð eða meiri hluta hennar fram, og þetta fé yrði síðan endurlánað bæjarog sveitarfélögum á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi til viðreisnar og eflingar atvinnulífinu í þessum aðþrengdu landshlutum. Þetta er sem sé okkar till. um að hætta að snakka og fara að gera eitthvað til aukins jafnvægis í byggð landsins.

Húsnæðisleysinu leggjum við til að verði mætt með 15 millj. kr. láni til byggingarsjóðs kaupstaða og kauptúna. Við leggjum enn fremur til, að aðrar 15 millj. kr. verði ætlaðar lánadeild smáíbúða, enda sé allri framkvæmd þeirrar lánastarfsemi komið í hendur einhverjum bankanna. Samvinnubyggingarfélögin vinna líka merkilegt og virðingarvert starf til lausnar á húsnæðisvandamálinu, og leggjum við til, að þeim verði útvegað 10 millj. kr. lánsfé til byggingarstarfsemi sinnar. Væri þá samkv. þessum till. okkar varið 40 millj. kr. til úrlausnar á húsnæðisvandræðunum í landinu. Enn fremur leggjum við til, að varið verði 3 millj. kr. samkv. 3. kafla laga nr. 44 frá 7. maí 1946, um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis í kaupstöðum og kauptúnum, en sú löggjöf hefur legið dauð nú um nokkurra ára skeið.

Raforkumálin áttu að verða eitt aðalstefnumál þessarar ríkisstj., en framkvæmdir í þeim málum hafa til þessa valdið þjóðinni meiri vonbrigðum en allt annað í starfsemi stjórnarinnar. Þess vegna minnum við hæstv. ríkisstj. á hin gullnu loforð hennar í raforkumálunum með því að leggja nú til, að raforkusjóði verði ætlaðar 10 millj. kr. og að til nýrra raforkuframkvæmda á 16. gr. verði ætlaðar 12 millj. kr.

Lofað hefur verið að greiða niður verð á raforku, framleiddri í díeselrafstöðvum, en það er viða geysilega hátt, og þetta loforð hefur ekki verið efnt. Þess vegna leggjum við til, að varið verði 1 millj. kr. í þessu skyni.

Lánasjóð stúdenta teljum við nauðsynlegt að efla, svo að hann geti orðið sterkur sem fyrst og gegnt nauðsynlegu hlutverki sínu í framtíðinni. Það er um einar 300 þús. kr. sem við leggjum til að framlagið til hans verði hækkað.

Malbikuðum vegum og götum í kaupstöðum, sem lengi hafa á fjárl. átt að fá 100 þús. kr., en aldrei fengið neitt, ætlum við 2 millj. kr. og til verkamannaskýla í hafnarbæjum 1 millj. kr. gegn tvöföldu framlagi, sem kæmi annars staðar að.

Með þessum till. okkar teljum við, sem minni hl. skipum, að sýnd væri þó nokkur viðleitni í þá átt að snúast við erfiðleikum atvinnulífsins úti á landi, byrja á lausn húsnæðisvandamálsins og sinna nokkrum öðrum aðkallandi viðfangsefnum, sem fjárlfrv. sýnir lítinn eða engan lit á að leysa. Þyrfti þó miklu gagngerðari umbyltingu á frv. öllu, ef vel ætti að vera. En það verður sjálfsagt að bíða betri tíða, þegar ný ríkisstj. og ný stjórnarstefna hefur tekið við á Íslandi.