10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í D-deild Alþingistíðinda. (3021)

209. mál, verkfræðingar í þjónustu ríkisins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er nú nánast til þess að gera afsökun mína, að ég kvaddi mér hljóðs. Ég hafði ekki litið á dagskrána og tekið eftir því, að það var sundurliðuð þessi umræða í fleiri liði. Þegar mér sýndist, að umr. um launalögin væri að ljúka og ekki hafði verið minnzt á þetta brennandi spursmál um verkfræðingana, þá kvaddi ég mér hljóðs og gerði það mál að umræðuefni. Var þó engan veginn ætlun mín að hlaupa í kapp við frsm. um að gera það mál að umtalsefni, en ég hafði ekki tekið eftir því, að það mál var tekið sérstaklega fyrir í ákveðnum dagskrárlið.

Af þeim umræðum, sem hér hafa farið fram, virðist þó vera ljóst, að hæstv. ríkisstj. hefur enn á sex mánuðum, sem liðnir eru síðan verkfræðingar fóru úr þjónustu ríkisins, engar ráðstafanir gert, og hv. 5. landsk. hefur nú upplýst, að það sé mjög aðkallandi fyrir ríkisstj. að ráða fram úr þessu máli nú þegar, ef ekki eigi að hljótast mjög alvarlegar tafir á framkvæmdum næsta árs hjá ríkinu vegna verkfræðingaskortsins. Ég tel, að hæstv. ríkisstj. hafi verið furðulega aðgerðarlaus og sinnulaus í þessu máli, og má mikið vera, ef enginn sannleiksneisti felst í þeim orðrómi, sem nú er kominn á gang um það, að hún hafi þetta sem hemil íhaldssamrar ríkisstj. um verklegar framkvæmdir.