10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í D-deild Alþingistíðinda. (3022)

209. mál, verkfræðingar í þjónustu ríkisins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég held, að það sé alveg greinilegt af yfirlýsingu hæstv. fjmrh., að núverandi ríkisstj. hefur hvorki vit né vilja til þess að leysa verkfræðingadeiluna. Þessi deila er þegar orðin til stórskammar fyrir hæstv. ríkisstj., og það er ekki til neins að ætla að böslast áfram með þessa þröngsýni að neita mönnum um launahækkanir, sem þeir eiga skilið. Það mun hvorki ganga gagnvart verkalýðnum í landinu almennt né gagnvart þeim starfsmönnum, sem ríkið þarf á að halda, og því lengur sem ríkisstj. reynir að trássast við á þennan hátt, því meiri skaða veldur hún.

Ég hef sjaldan vitað fsp. svarað eins stuttlega og afsakanalaust og þessari fsp. var svarað af hæstv. fjmrh., og það sýndi bezt, hve algert ábyrgðarleysi er hjá þeirri ríkisstj., sem hér á sök á um þessi mál. Svona er ekki til neins að ætla sér að haga sér, og ég get ekki skilið fjmrh. öðruvísi en þannig, að hann sé beinlínis að staðfesta þann orðróm, sem gengið hefur, að það eigi að vera eins konar sparnaðarráðstöfun, að ríkið sjái um, að verkfræðingarnir séu í verkfalli, og með tilliti til þess, hve illa hæstv. fjmrh. er við verklegar framkvæmdir, þá er það ekkert undarlegt, þótt mönnum detti svona í hug, og hve fruntalega er svarað í sambandi við svona hluti. Ég held þess vegna, að Alþingi verði sjálft að láta svona mál til sín taka og það verði að fá úr því skorið hér og Alþingi verði að leggja það nú þegar fyrir ríkisstj., hvað hún eigi að gera í þessum efnum. Það er auðséð, að hún hefur ekki dug í sér til þess að ráða fram úr þeim sjálf.