23.11.1954
Sameinað þing: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í D-deild Alþingistíðinda. (3028)

97. mál, rannsókn byggingarefna

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þessi fyrirspurn hv. þm. Dal. (ÁB) er, eins og hann skýrði frá, í sambandi við þál., sem samþ. var í marzmánuði s. l., og lýsti hann þeirri þál., svo að ég þarf ekki að taka fram, hvað verkefnið er, sem ráðuneytinu var falið að hafa með höndum.

Þær upplýsingar, sem ég get gefið að öðru leyti um þetta mál, eru, að eins og fram er tekið í þáll. skyldi fela teiknistofu landbúnaðarins að gera þær athuganir, sem þar eru nefndar. Þess vegna skrifaði ráðuneytið forstjóra teiknistofu landbúnaðarins, Þóri Baldvinssyni, 7. apríl 1954, og fól þar með teiknistofunni að hefja umræddar rannsóknir í samráði við ráðuneytið og gefa ráðuneytinu síðan skýrslu um rannsóknirnar, þegar þeim væri lokið.

Forstjóri teiknistofunnar taldi, að til þess að hægt væri að átta sig á þessu og gera þessu verkefni einhver skil, yrði ekki hjá því komizt að athuga þessi mál í ýmsum löndum Evrópu, einkum þar sem gerðar hefðu verið ýmsar nýjar — ja, tilraunir, getum við sagt, við byggingar í kjölfar styrjaldarinnar síðustu. En við vitum, að í ýmsum löndum stóð þá almenningur og ekki síður auðvitað ríkisstjórnirnar gagnvart þeim vanda að reisa óskaplega mikið af byggingum, og var því leitað allra ráða til þess að ná sem bezium árangri og þó sem ódýrustum. Samkvæmt þessu féllst ráðuneytið á það, að Þórir Baldvinsson færi til útlanda í þessum erindum í sumar. Dvaldi hann, að ég hygg, allt að tveim mánuðum í ýmsum löndum, sérstaklega í löndum Mið-Evrópu, og kynnti sér þessi mál, eftir því sem hann áleit ástæðu til. Hann hefur sent hér bráðabirgðaskýrslu, sem er dagsett 8. þ. m., til ráðuneytisins um þessa för sína, en ég vil taka það fram, að það er einungis bráðabirgðaskýrsla, og þær athuganir, sem þarf að gera í sambandi við það, eru ekki komnar nema nokkuð áleiðis og þá einnig þær athuganir, sem þarf að gera hér innanlands.

Ég vil leyfa mér að lesa þessa bráðabirgðaskýrslu Þóris Baldvinssonar, sem er ekki það löng, að það ætti að vera hægt að gera það hér, en í henni segir svo:

„Samkvæmt ráðstöfun síðasta Alþingis og að tilhlutun landbrh. fór á s. l. sumri fram athugun á því, hverjir möguleikar væru á að fá frá erlendum verksmiðjum tilgerð hús úr léttum stálgrindum, sem hentað gætu fyrir búpening bænda. Vegna þessa fór undirritaður utan 27. júní s. l. og kynnti sér téða framleiðslu á Bretlandseyjum, Hollandi, Belgíu og Vestur-Þýzkalandi.

Sá háttur var hafður á, að við komu til hvers einstaks lands var leitað upplýsinga í verzlunar- og iðnaðarmálaráðuneytum hvers þeirra um það, hver væru helztu fyrirtæki, er framleiddu stálgrindarhús til útflutnings í löndunum, en síðan var ferðazt á staðina og framleiðslan athuguð.

Það kom skjótt í ljós, að stærð og gerð húsanna var yfirleitt ekki hentug samkvæmt þeim skipulagsvenjum um peningshús, sem hér tíðkast. Hús þessi eru yfirleitt ekki hugsuð sem búpeningshús, heldur ætluð að vera vöruskemmur, bifreiða- og flugvélaskemmur og herbúðir. Var mér tjáð, að eftirspurn frá bændum um slíka framleiðslu sem þá, er ég leitaði eftir, væri of lítil til þess, að það svaraði kostnaði að eiga við hana.

Nokkrar verksmiðjur, þó aðallega þýzkar, féllust á að gera tilboð um smíði húsa af þeirri gerð, er okkur gæti hentað, og lét ég þeim í hendur upplýsingar viðkomandi hver meginatriði væru, sem yrði að taka tillit til við gerð peningshúsa hér á Íslandi.

Mér var þó tjáð, að það mundi taka alllangan tíma að ganga frá tilboðum, og hafa flest tilboðin borizt mér í hendur nú fyrir mjög skömmu, og þó mun allmörg vanta enn.

Eitt af þessum tilboðum er frá þeirri verksmiðju, er mér virtist líklegust til þess að fullnægja kröfum okkar um húsagerð eftir svipmóti þeirrar framleiðslu, er ég þá sá. Þessi verksmiðja er mjög stórt útflutningsfyrirtæki, sem á bæði námur og verksmiðjur og vinnur úr eigin hráefni. Meginverksmiðjur félagsins eru í Westfalen, Þýzkalandi, og virðast tilboð þessarar verksmiðju álitlegust af þeim, sem enn hafa borizt. Í fljótu bragði virðist verðlag þessara húsa lágt, en það er þó ekki jafnlágt og verðlag á bogaskemmunum ensku, sem fluttar hafa verið hingað til lands á s.l. þremur árum. Bogaformið er ódýrasta húsagrindin, sem til er.

Þýzk hús mundu sennilega njóta sömu kjara um tollafgreiðslu, og mun óhætt að fullyrða, að kaup á þeim yrðu bændum tiltölulega mjög hagstæð. Hús þessi eru þannig frá gengin, að þakefni þeirra er allt sundurlaust, en veggir í samsettum flekum. Annar vankantur er þó á innflutningi þessara húsa, en hann er sá, að verksmiðjan sinnir ekki minni byrjunarpöntun en 50 húsa, en hún mun þó tilleiðanleg að selja eitt eða tvö hús sem sýnishorn, og teldi ég mjög mikilsvert, að gerð væri tilraun í þá átt.

Að líkindum mundi auðvelt að fá bónda eða bændur í nágrenni Reykjavíkur til að hafa samvinnu við teiknistofu landbúnaðarins um uppsetningu slíks húss eða húsa án kostnaðar af hálfu hins opinbera, ef fyrir lægi gjaldeyris- og innflutningsleyfi.

Bréf og gögn varðandi tilboð hinna ýmsu verksmiðja liggja fyrir á teiknistofu landbúnaðarins, og undirritaður (þ. e. Þórir Baldvinsson) er að sjálfsögðu reiðubúinn að gefa nánari upplýsingar, eftir því sem óskað kynni að verða.“

Þetta er sú bráðabirgðaskýrsla, sem forstjóri teiknistofunnar hefur sent, og eins og ég tók fram áðan, er ekki að vænta, að lengra sé komið með þetta efni, því að enn hafa ekki borizt ýmsar þær upplýsingar, sem hann leitaði eftir og bjóst við að fá eftir för sína í sumar. Eftir því verður beðið og eftir nánari till. og skýrslu frá teiknistofu landbúnaðarins, áður en frekar verður aðhafzt í þessu máli af hálfu ráðuneytisins.