23.11.1954
Sameinað þing: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í D-deild Alþingistíðinda. (3032)

210. mál, áburðarverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það þarf raunverulega ekki að segja mikið með þessari fsp., hún er nokkuð skýr. Það er í fyrsta lagi spurt um, hvað áburðarverksmiðja ríkisins kosti, eins og hún nú er upp komin. Það hefur ekki verið gefin enn þá skýrsla um það til þingsins, í hvaða verði hún stendur. Í öðru lagi, hvernig hafi verið rekstrarafkoma áburðarverksmiðjunnar, það sem af er. Það hlutafélag, sem hefur áburðarverksmiðjuna til rekstrar, mun vafalaust þegar hafa getað gert sér nokkra hugmynd um, hvernig rekstrarafkoman sé, þó að ég geti hins vegar vel skilið, að það sé, eins skamman tíma og verksmiðjan er búin að starfa, nokkuð erfitt að gera það glöggt, a. m. k. þannig, að hægt sé að byggja á um framtíðarrekstur. Þá er í þriðja lagi spurt um, hvernig gerð áburðarins líki og hvaða horfur séu um sölu hans. Þessi spurning er meðfram komin vegna þess, að nokkrar raddir hafa gengið um, að þarna mundu vera einhverjir erfiðleikar á, og væri gott að fá upplýst, hvort það er rétt. Þá er í fjórða lagi spurt um framleiðsluverð áburðarins á smálest. Það er náttúrlega eitt af því, sem er höfuðatriði, hvort áburðarverksmiðjan reynist fær um að framleiða áburðinn ódýrari eða a. m. k. jafnódýrt og útlendar verksmiðjur. Að vísu verður í hverri verksmiðju til að byrja með oft ýmiss konar aukakostnaður, meðan rekstur er að byrja, sem rétt er að taka tillit til, þannig að það verður ekki alger mynd, sem fæst af reynslunni fyrstu mánuðina, en nokkra hugmynd ætti það a. m. k. að geta gefið, og væri þess vegna fróðlegt að fá það upp. Þá er í síðasta lagi spurt um, hvort nokkrir tæknilegir gallar hafi komið fram á gerð verksmiðjunnar. Eins og ég býst við að flestir hv. þm. viti, hefur nokkuð verið talað um, að síðustu vélarnar, sem með áburðarframleiðsluna hafa að gera, mali áburðinn of smátt, að það hafi skapað nokkra erfiðleika í notkun hans og að hugsanlegt væri í því sambandi, að einhverjar breytingar yrði að gera á hennar vélakosti, og þá er spurt um, ef svo væri, hvaða kostnað væri álitið, að það hefði í för með sér.

Ég vil vænta þess, að hæstv. ráðh. — ég býst við, að það sé landbrh., sem fyrirspurninni svarar — geti leyst nokkuð úr þessum spurningum, því að ég býst við, að það séu fleiri þm. en ég, sem gjarnan vildu vita, hvernig til stendur með áburðarverksmiðjuna, eftir því sem hægt er að sjá, svo skamman tíma sem hún enn hefur starfað.