23.11.1954
Sameinað þing: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í D-deild Alþingistíðinda. (3033)

210. mál, áburðarverksmiðja

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Eins og hv. alþm. hafa að sjálfsögðu veitt eftirtekt, eru hér á þskj. 164 bornar fram fsp. í tveimur liðum og frá tveimur hv. alþm. um áburðarverksmiðjuna, þ. e. II og IV. Eins og auðséð er, gripa þessar fyrirspurnir mjög hvor inn í aðra, og er hægt að svara sumum þeirra í einu, en ég mun að sjálfsögðu hér einungis taka til meðferðar og gefa þær upplýsingar, sem ég get varðandi fsp. frá hv. 2. þm. Reykv. (EOl), sem hann lýsti nú.

Ég sný mér þá að fyrsta lið fsp.: Hvað kostar áburðarverksmiðjan upp komin? Stofnkostnaður verksmiðjunnar er nú um 130 millj. kr. Innifalið í þeirri upphæð eru um 8 millj. 750 þús. kr., sem eru vextir af lánum um byggingartímabilið, og 13 millj. í tollum og leyfisgjöldum.

Annar liðurinn er: Hver er rekstrarafkoma áburðarverksmiðjunnar, það sem af er? Um þetta get ég sagt það. að á meðan fyrirtækið er ekki komið upp að fullu og á meðan reynslurekstur stendur yfir. samhliða því sem verið er að ljúka uppbyggingu fyrirtækisins, er ekki hægt að tala um rekstrarafkomu með nokkurri fullkominni vissu. Verksmiðjur eins og þessi eru jafnan, samkvæmt því sem reynsla erlendis hefur orðið, lengi á stigi reynslurekstrar, og er ekki óalgengt, að 18–30 mánuðir og jafnvel þaðan af lengri tími fari í að samræma og jafna reksturinn, svo að hægt sé eftir það að fara að tala um eðlilegan rekstur. En fullkomin ástæða er til að vera ánægður með þann árangur, sem náðst hefur til þessa í framleiddu áburðarmagni.

Verksmiðjan á, samkvæmt þeim áætlunum, sem gerðar voru fyrir fram, að geta framleitt 18 þús. tonn á ári. eða um 1500 tonn á mánuði að meðaltali. Á 7 mánuðum, þ. e. apríl til októberloka s.l.. framleiddi verksmiðjan 9000 tonn, eða 1285 tonn að meðaltali á mánuði. Lægsta mánaðarframleiðslan var í júlí, um 1000 tonn, en mesta framleiðslan í október. um 1660 tonn. og eru þau afköst, sem í október fengust. 11% umfram áætluð meðalafköst. Þessar tölur bera með sér, að verksmiðjan getur afkastað mun meira magni en því, sem hún er gefin upp fyrir.

Þá vil ég snúa mér að þriðja liðnum, sem hljóðar þannig: Hvernig líkar gerð áburðarins. og hvaða horfur eru um sölu hans framvegis? Þessar upplýsingar get ég gefið um þetta: 2300 tonn af áburði verksmiðjunnar voru seld á s.l. vori, og hafa hvaðanæva borizt ummæli um. að vel hafi sprottið af áburðinum. Pantanir á áburði eru ekki að jafnaði komnar fram fyrir áramót, fyrir næsta ár á eftir, en ef dæma má út frá hinni góðu reynslu, sem fengin er um sprettu, verður að segja, að horfur um sölu séu góðar.

Fjórða atriðið, sem spurt er um, er: Hvað er framleiðsluverð áburðarins á smálest, og hvað er verð samsvarandi útlends áburðar? Af þeim ummælum og ástæðum, sem raktar voru hér að framan í þriðja lið, verður framleiðsluverð á tonni ekki enn ákveðið, en ætla má, að þegar meðalafköst verksmiðjunnar eru komin á það stig, sem þau eru áætluð, þá verði hinn íslenzki áburður fullkomlega samkeppnisfær við erlendan áburð.

Fimmti liður þessarar fsp. er svo: Hafa komið fram tæknilegir gallar á gerð verksmiðjunnar? Þarf að gera breytingar á vélakosti hennar, og ef svo er, hvaða kostnað er álitíð, að þær hafi í för með sér? Um þetta hef ég fengið þessar upplýsingar: Engir tæknilegir gallar hafa komið fram á gerð verksmiðjunnar, er gefi tilefni til að ræða um breytingar á vélakosti eða aukakostnað þess vegna. — Þótt aðeins væri tæpt á því, þá skildist mér, að það kæmi fram hjá hv. 2. þm. Reykv., að orðið hefði vart við einhverjar misfellur með ástand áburðarins, kornastærð og annað. Ég kem ekki inn á það atriði hér, en vil geta þess, að ég mun koma að því atriði í sambandi við einn lið í fsp. hv. 8. landsk. þm. (BergS), því að þar er beint spurt um þetta atriði, og tel ég ekki ástæðu til að taka það fram nema einu sinni. Þetta taldi ég rétt, að kæmi fram hér. vegna þess. að mér virtist. að að þessu væri einmitt stefnt með ummælum hv. fyrirspyrjanda.

Hér hef ég látið koma fram þær upplýsingar. sem ég hef fengið, og þær eru að sjálfsögðu frá framkvæmdastjóra áburðarverksmiðjunnar og munu vera yfirfarnar og athugaðar af stjórn áburðarverksmiðjunnar einnig.