23.11.1954
Sameinað þing: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í D-deild Alþingistíðinda. (3034)

210. mál, áburðarverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. landbrh. þessar upplýsingar, svo langt sem þær ná.

Skýrasta upplýsingin er um fyrsta atriðið, viðvíkjandi kostnaði verksmiðjunnar, 130 millj. Ég vil vekja eftirtekt á því til umþenkingar framvegis. Það kemur þarna sama í ljós og var viðvíkjandi Sogsvirkjuninni. að 8 millj. kr. eða tæpar 9 millj. fara í vexti af lánum, meðan á byggingartímanum stendur. og 13 milli. kr. lenda í tollum og leyfisgjöldum. Þetta þýðir, að þarna eru yfir 20 millj. kr. af þessum kostnaði verksmiðjunnar. sem lenda beinlínis í vöxtum til bankanna og gjöldum beint til ríkisins. Þetta íþyngir ákaflega mikið svona fyrirtæki. en það er ekki staður og stund til þess að ræða það hér. Hins vegar var gott að fá þessar upplýsingar, þær voru mjög greinilegar.

Það skorti ýmislegt á um hina liðina. Ég gat vel skilið með annan liðinn og hafði sjálfur minnzt á það, að það mundu verða nokkrir örðugleikar að gefa upp rekstrarafkomuna, það sem af væri, en gott hefði verið að fá þar nokkra hugmynd um. Hins vegar var gott að heyra, að sjálf hin „tekniska“ framleiðsla gengur vel.

Viðvíkjandi fjórða liðnum gaf hæstv. ráðh. þær upplýsingar. að framleiðsluverðið mundi verða þannig. að samkeppnisfært væri. Ég hef heyrt til getið, að það mundi vera um 1200 kr. miðað við tonnið af köfnunarefni, milli 1200 og 1300 kr. Ég veit ekki, hvort það er rétt, en ég skil vel, að það er ákaflega erfitt að reikna þetta nákvæmlega enn sem komið er, en ef til vill hefði nú verið hægt að fá einhverja áætlun um þetta.

Síðustu spurningunni, sem er meira „teknisks“ eðlis, býst ég svo við, eins og hæstv. ráðh. lýsti yfir, að verði svarað undir IV. liðnum af fyrirspurnunum.

Ég þakka hæstv. ráðh. sérstaklega upplýsinguna um fyrsta liðinn. Það hefði verið gott að geta fengið að vita nánar um hina, en ég skil að ýmsu leyti hans erfiðleika, og eins og ég hef tekið fram, er hér hvorki staður né stund til þess að ræða þetta frekar.