02.12.1954
Sameinað þing: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í D-deild Alþingistíðinda. (3039)

211. mál, jöfn laun karla og kvenna

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér út af þessari fsp. að gefa þessar upplýsingar:

Ég vil fyrst geta þess, að enn sem komið er eru það aðeins átta ríki, sem fullgilt hafa samþykkt þessa. Þessi ríki, sem það hafa gert, eru Austurríki, Belgía, Kúba, Dominicanska lýðveldið, Filippseyjar, Frakkland og Mexíkó. Okkar nábúaríki hér á Norðurlöndum, Bretland og sem sagt flest ríki hér í Vestur-Evrópu hafa ekki gert það enn. En á s.l. hausti var skipuð n. af félagsmálaráðuneytinu, og hennar hlutverk átti fyrst og fremst að vera það að athuga, hverjar af samþykktum alþjóðavinnumálaþingsins eða stofnunarinnar mætti fullgilda hér á landi að óbreyttri löggjöf, eins og löggjöf væri nú. Þessi n. er skipuð fulltrúum frá félmrn., Vinnuveitendasambandinu og Alþýðusambandinu, og ég get getið þess, að í þessari n. eru fulltrúi í félmrn., Jón Ólafsson, og frá Alþýðusambandinu, tilnefndur af því, Magnús Ástmarsson, og frá Vinnuveitendasambandinu Björgvin Sigurðsson, sem er framkvæmdastjóri sambandsins.

Þessi n. er á einu máli um það, að ekki sé hægt að fullgilda umrædda samþykkt hér á landi eins og sakir standa enn, og hefur því þó sérstaklega verið vikið til nefndarinnar að athuga einmitt um þessa tillögu. Það stafar m. a. af því, að grundvallarreglum hennar er ekki framfylgt hér, nema að því er tekur til starfsmanna ríkisins og sennilega starfsmanna bæjarins raunverulega líka. Í lögum um laun opinberra starfsmanna er kveðið svo á, að við skipun í starfsflokka og flutning milli launaflokka skuli konur að öðru jöfnu hafa sama rétt og karlar. Á vegum ríkisins er því þessi till. framkvæmd tvímælalaust. En við vitum, að hér á landi eins og á öðrum Norðurlöndum er það viðurkennd regla, að vinnuveitendur og verkamenn eða samtök þeirra semji sín í milli um kaup og kjör verkafólks án íhlutunar ríkisvaldsins, og það hefur ekki hingað til þótt rétt né æskilegt að bregða út af þessari reglu, enda lítur ríkisstj. svo á, að þessi mál séu bezt komin í höndum samtaka vinnuveitenda annars vegar og verkamanna hins vegar. En af hálfu ríkisins væri ekki hægt að koma svona tillögu í framkvæmd öðruvísi en að brjóta þá grundvallarreglu, sem gilt hefur um þessi efni, eins og háttar til hér á landi um þessi samtök og samninga þeirra í milli.