08.12.1954
Sameinað þing: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

1. mál, fjárlög 1955

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil þakka meiri hluta fjvn. fyrir góða samvinnu um málið og láta þess getið, að meiri hl. hefur haft samráð við ríkisstj. um langflestar hinna veigameiri brtt., sem frá meiri hl. koma.

Ég gat þess hér við framsögu frv., að tilætlunin væri sú að afgreiða að þessu sinni fjárlfrv. með greiðsluafgangi og leggja hann í framkvæmdasjóð. Þetta væri gert með það fyrir augum, að við byggjum nú við óvenjulegt góðæri og þess vegna væri hyggilegt að eyða ekki öllu því, sem aflað væri, heldur geyma eitthvað af því og nota til verklegra framkvæmda, þegar sérstök ástæða væri til þess að auka atvinnu í landinu.

Eins og till. meiri hl. bera með sér, hefur nú svo ráðizt, þegar farið var að líta yfir þær margvíslegu umsóknir, sem hjá hv. fjvn. voru um framlög til nauðsynlegra mála, að ekki hefur þótt verða hjá því komizt að hækka talsvert fjárlfrv. frá því, sem það var, þegar það var lagt fyrir hv. Alþ. Við skoðun á tekjuáætluninni, sem farið hefur fram jafnhliða, hefur það svo komið í ljós, að meiri hl. nefndarinnar, í samráði við ríkisstj., hefur ekki talið hyggilegt að hækka tekjuáætlunina um meira en 19 millj., þ.e.a.s. upp í 514 millj. kr. á rekstrarreikningi. Af þessu tvennu, að ekki hefur verið talið hægt að komast hjá því að sinna á þann hátt, sem gert er í till., ýmsum óskum um framlög til nauðsynjamála, og sökum þess að ekki þykir fært að áætla tekjurnar hærra en nú þegar hefur verið á minnzt, hefur nefndin orðið að fara inn á þá braut að lækka um helming það framlag, sem áætlað var til framkvæmdasjóðs, eða með öðrum orðum að lækka í raun og veru um helming þann greiðsluafgang, sem gert var ráð fyrir í frv. Það er að vísu svo, að reikningslega er í frv. gert ráð fyrir rúmlega 10 millj. kr. greiðsluafgangi núna, ef till. meiri hl. verða samþ. eftir 2. umr., en það eru engar horfur á öðru en að það verði að hækka útgjöld frv. við 3. umr. um þá fjárhæð svo að segja alla eða alla, og kem ég að því síðar.

Það hefur þess vegna orðið að breyta stefnunni þannig, að í stað þess, að gert var ráð fyrir, að greiðsluafgangur gæti orðið um 10 millj. rúmar og þær lagðar til framkvæmdasjóðs, þá er nú ekki ráðgert, að það geti orðið meira en 5 millj., sem ætlaðar verða í þessu skyni. E.t.v. getur svo farið, að það þurfi að skerða þá upphæð enn við 3. umr. fjárl., ef það tekst ekki að komast þá af með til gjaldahækkana þessar 10 millj. eða svo, sem nú yrðu greiðsluafgangur, ef menn halda sér við till. meiri hl. við 2. umr., þ.e.a.s. samþykkja ekki aðrar till.

Það hefur verið nokkuð rætt, og er það alveg eðlilegt, hvort tekjuáætlunin sé hæfileg, hvort það sé hæfilegt að gera ráð fyrir, að á næsta ári verði tekjurnar 514 millj. Sumir vilja halda því fram, að það ætti að áætla tekjurnar mun hærra. Ég vil fara um þetta fáeinum orðum, þó að hv. frsm. gerði þessu að vísu allmikil skil.

Tekjurnar urðu 510 millj. í fyrra, en á þessu ári gerum við ráð fyrir, að þær verði um 550 millj. Það er aðeins eftir að fá reynsluna um desembermánuð. Ég held, að þetta geti aldrei skeikað verulega. Þó er ekki hægt að fullyrða þetta alveg enn sem komið er. En þetta er sú tala, sem allir þeir, sem þessi mál hafa skoðað, telja líklegasta nú, 550 millj. Nú mundu sumir segja, og það hefur raunar komið fram hér við umr. frá hv. minni hl.: Fyrst þið gerið ráð fyrir að fá 550 millj. kr. í ár, þá er rétt að áætla tekjurnar næsta ár 550 millj. — En frá mínu sjónarmiði og meiri hl. væri þetta hið mesta óráð, og kemur þar einkum tvennt til.

Í fyrsta lagi er það, að þetta ár, sem nú er að líða, er alveg óvenjulega gott ár. Þjóðartekjurnar eru óvenjulega miklar, þannig að það er alls ekki hægt að gera ráð fyrir því, að næsta ár verði betra að þessu leyti. Ég skil varla í því, að nokkur mundi vilja gera ráð fyrir slíku fyrir fram, a.m.k. enginn sá, sem hefði hugsað sér, að afgreiða ætti greiðsluhallalaus fjárlög. Það hefur verið svo mikil atvinna í landinu, að verulega hefur borið á fólksskorti, og tekjur almennings hafa verið óvenjulega miklar. Þetta vita allir. Þetta er önnur ástæðan til þess, að það er vitanlega engin skynsemi í því að áætla tekjurnar næsta ár jafnháar og þær verða í ár. Við gætum frekar búizt við því, að einhver breyting yrði til hins lakara, en til hins betra. - Svo er önnur ástæða, sem sker alveg úr um þetta. Hún er sú, að óhugsandi er, að fjárlög verði greiðsluhallalaus í reyndinni, ef tekjurnar fara ekkert fram úr áætlun. Það er blátt áfram óhugsandi, að slíkt geti átt sér stað. Þess vegna eru þeir menn, sem leggja það til, að tekjurnar séu áætlaðar eins háar og hægt er að hugsa sér að þær verði hæstar, raunverulega að gera till. um að afgreiða fjárl. með greiðsluhalla. Og fram hjá þessu er ekki með nokkru móti hægt að komast. Reynslan sýnir þetta svo ótvírætt. Það er búið að vefja ríkisvaldið inn í svo stórkostleg afskipti af öllum högum landsmanna, atvinnurekstri og öllu starfslífi yfirleitt, að á hverju einasta ári koma fram óskir eða kröfur um útgjöld á milli þinga, sem verður að sinna að einhverju leyti. Það væri fróðlegt fyrir þá, sem vildu bera á móti þessu, að athuga reynsluna undanfarin ár og vita, hvað þeir segðu, eftir að þeir hefðu kynnt sér hana. Auk þess má ævinlega gera ráð fyrir því, að áætlaðir gjaldaliðir fari fremur fram úr áætlun en hið gagnstæða.

Hv. frsm. meiri hl. gaf nokkrar upplýsingar í þessu sambandi. Mig langar til að bæta dálitlu við. Ég ætla að lesa fyrir menn hérna ofur lítinn lista um það, hvernig þetta hefur tekizt í reyndinni undanfarin 30 ár. Það tekur ekki svo langan tíma, mönnum finnst það kannske geigvænlegt, að nú eigi að fara að gefa skýrslu hér um 30 ár, en ég held, að það takist á 11/2 mínútu. Ég ætla að byrja á 1924. Þá ern umframgreiðslur á rekstrarreikningi 21%. 1925 urðu þær 44%, 1926 urðu þær 32%, 1927 urðu þær 16%, 1928 urðu þær 26%, 1929 urðu þær 43% og 1930 urðu þær 45%, 1931 urðu þær 29%, 1932 urðu þær 17%, 1933 urðu þær 25%, 1934 43% og 1935 17%, 1936 10%, 1937 15%, 1938 8%, 1939 16%, 1940 22%, 1941 79%, 1942 216%, 1943 61%, 1944 38%, 1945 42%, 1946 33%, 1947 29%, 1948 16%, 1949 15%, 1950 1%, 1951 16%, 1952 7%, 1953 11%. Ég skal taka það fram, að ég sleppi brotum. Ég les bara heilu tölurnar. Fyrir utan þetta, sem eru umframgreiðslur á rekstrarreikningi, hafa svo ævinlega komið verulegar greiðslur á 20. gr., sem ýmist hafa verið eftir sérstökum heimildum eða ákveðnar á milli þinga, oftast nær ákveðnar af Alþingi utan fjárlaganna.

Ég skal taka það fram, að þessar umframgreiðslur eru auðvitað margar hverjar greiðslur samkvæmt sérstökum lögum, sem færðar hafa verið á rekstrarreikninga, og svo eru hreinar umframgreiðslur. Ég vil benda mönnum á, að árið 1952 voru þessar greiðslur á 20. gr. utan fjárlaga 16 millj. og árið 1951 voru þessar greiðslur 46 millj., þar af voru 25 millj. hluti af andvirði 10 togara.

Þetta sýnir, svo að ekki verður um villzt, að ef tekjurnar væru áætlaðar eins háar og þær gætu hæstar orðið, þannig að engar umframtekjur yrðu, þá er greiðsluhallinn alveg vís. Hversu vel sem upp á er passað að þessu leyti, þá er margt af því, sem til fellur, þannig, að það er ómögulegt að komast undan því. Það koma atvik fyrir, sem valda því, að aukagreiðslur verða að fara fram. Ef óhöpp henda atvinnuvegina eða eitthvað ber út af einhvers staðar, þá er yfirleitt leitað til ríkisstj., til ríkisvaldsins, og það getur oft ekki komizt undan því að hlaupa þar undir bagga, þó að það sé á miðju fjárhagstímabilinu. Ef við gerum ráð fyrir, að næsta ár verði jafngott ár og þetta, þá væri 36 millj. upp á að hlaupa, eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, eða um 7% umfram þær tekjur, sem áætlaðar eru í fjárlfrv. Þetta ætti þá að duga til þess að mæta öllum hugsanlegum umframgreiðslum í rekstrinum og öllu því, sem kynni að geta komið fyrir að þyrfti að leggja út á 20. gr. á næsta ári eftir sérstökum lögum, sérstökum heimíldum eða vegna sérstakra óhappa, sem kunna að koma fyrir á árinu. Það er óhugsandi annað en að meiri hluti, sem hefur þá stefnu að afgreiða greiðsluhallalaus fjárl., hafi borð fyrir báru að þessu leyti. Annars væri vísvitandi upp tekin sú stefna að afgreiða fjárlögin með greiðsluhalla.

Ég minntist á það áðan, að gera mætti ráð fyrir einhverjum hækkunum við 3. umr., og skal ég ekki ræða í því sambandi einstök atriði, en vil þó minnast hér nokkrum orðum á launamál opinberra starfsmanna. Eins og mönnum er kunnugt, þá hafa launalögin nú undanfarin missiri verið í athugun. Frv. til þeirra hefur verið nokkuð lengi hjá Bandalagi opinberra starfsmanna til athugunar, og bandalagið skilaði uppástungum sínum um launalögin til ríkisstjórnarinnar núna í haust. Þá var skipuð nefnd, sem er skipuð mönnum frá bandalaginu og mönnum frá ríkisstjórninni, til þess að fara yfir launalagafrv., sem fyrir lá, og till. bandalagsins. En það er augljóst mál og var raunar augljóst þegar í þingbyrjun, eins og ég upplýsti þá, að ekki mundi verða mögulegt að leggja nýtt launalagafrv. fyrir þetta hv. Alþ., sem nú situr, og þó að við sjáum fram á, að þinginu lýkur ekki fyrir jól, heldur verður að koma saman aftur eftir jólin, þá höfum við ekki von um að geta komið nýjum launalögum fram á þessu þingi.

Þá mundu sennilega sumir spyrja: Er þá nokkur ástæða til annars en að láta launamál opinberra starfsmanna bíða alveg næsta þings? Eins og ég tók fram í sambandi við svör við fsp., sem fram kom í Sþ. um þetta mál á dögunum, þá er það skoðun stjórnarinnar, að verði ekki hægt að setja ný launalög á þessu þingi, þá verði að samþykkja. eða gera einhverja bráðabirgðaúrlausn í launamálum opinberra starfsmanna.

Það hefur sem sé komið í ljós við þá athugun, sem gerð hefur verið á þessum málum, að verulegar hækkanir á grunnlaunum almennt hafa átt sér stað síðan launalögin voru sett, þannig að opinberir starfsmenn hafa dregizt nokkuð aftur úr. Ég nefni ekki í þessu sambandi núna neinar tölur, en þetta liggur fyrir. Stjórninni sýnist því eðlilegt, að á þessu þingi verði gerðar bráðabirgðaráðstafanir, sem miði til samræmis í launamálum opinberra starfsmanna við þau laun, sem annars staðar eru nú greidd. Og stjórnin gerir sér vonir um að hafa till. um þetta tilbúnar fyrir 3. umr.

Ég skal taka það fram, að það er ekki með neinum rökum hægt að líta á till. um uppbætur nú á laun opinberra starfsmanna sem upphaf að nýrri kauphækkunaröldu í landinu. Það mundi eingöngu verða um uppbætur að ræða til þess að færa laun opinberra starfsmanna til samræmis við þær launahækkanir, sem átt hafa sér stað á undanförnum árum hjá öðrum.

Ég skal þá fara fáeinum orðum um nál. frá hv. minni hl. fjvn. Það mátti nú búast við því, að það yrði eitthvað vizkulegt, þegar þeir hv. 11. landsk. og hv. 3. landsk. lögðu saman í nál. Það hefur líka farið eftir vonum. Mér finnst þetta nál. af þeirra hendi vera hinn furðulegasti samsetningur. Ég skal ekki fara mjög langt út í nál. það, en nefna hér aðeins dæmi um þetta.

Það stendur hér í nál. með öðru góðu, að aðaleinkenni fjármálastefnu þessara tveggja ríkisstj., þ.e.a.s. núverandi og fyrrverandi ríkisstjórna, hafi verið að hækka álögur á landsmenn og auka þannig tekjur ríkissjóðs. Þetta er lesið orðrétt úr álitinu. En hvað er nú það rétta í þessu? Það rétta í þessu er, að núverandi ríkisstj. og fyrrverandi ríkisstj. hafa beitt sér fyrir stórkostlegum skatta- og tollalækkunum á þessu tímabili, sem nál. ræðir um. Og ég vil til þess að taka af öll tvímæli gefa hér enn einu sinni yfirlit um, hverjar þessar tollalækkanir og skattalækkanir eru. Það er í fyrsta lagi, að afnuminn hefur verið kaffitollur og sykurtollur. Í öðru lagi hefur verið felldur niður söluskattur af bifreiðaakstri. Í þriðja lagi hafa verið hækkaðar fyrningarafskriftir á iðnaðarvélum. Í fjórða lagi hafa verið lækkaðir tollar af iðnaðarhráefnum. Í fimmta lagi hefur verið lækkaður tekjuskattur á einstaklingum að meðaltali um hvorki meira né minna en ca. 29% og 20% á félögum. Í sjötta lagi hefur sparifé og vextir af sparifé verið gert skattfrjálst. Í sjöunda lagi hefur fasteignaskattur ríkissjóðs verið afhentur bæjar- og sveitarfélögum. Og í áttunda lagi hefur veitingaskatturinn verið afnuminn. Svo koma þessir hv. þm. og segja, að aðaleinkennið á fjármálastefnu núverandi ríkisstj. hafi verið að auka tekjur ríkissjóðs með því að hækka álögur á landsmenn. Ég verð að segja, að þeir menn eru ekki vandir að virðingu sinni, sem gefa út þess háttar þingskjöl.

Svo eru þessir hv. þm. auðvitað að tala um í framhaldi af þessu, að skattpíningarvélinni hafi verið beitt gegn atvinnulífi landsmanna, og nota önnur þvílík stóryrði. Yfirleitt er allt nál. byggt á þessari röngu staðhæfingu, sem ég hef hrakið. Nál. hefur því ekkert gildi. Hins vegar vitum við, að það nagar alltaf þessa hv. þm. innan og út af því hafa þeir enga sálarró eða eirð í sínum beinum, að framleiðslan í landinu hefur aukizt. svo mikið, að tekjur ríkissjóðs hafa farið hækkandi í krónutölu, þó að skattar og tollar hafi verið stórkostlega lækkaðir. En það er vegna þess, að þjóðartekjurnar hafa vaxið stórkostlega á þessu tímabili. Það bendir sannarlega ekki til þess, að stefna ríkisstj. hafi orðið atvinnuvegunum þung í skauti, heldur auðvitað til hins gagnstæða, enda hafa margar af þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. hefur gert, einmitt orðið til þess að efla atvinnulífið frá því, sem það var áður, og það svo verulega, að þótt skattarnir og tollarnir hafi verið lækkaðir, hafa tekjur ríkissjóðs samt farið hækkandi.

Hér í þessu nál. er talað um, að það þurfi að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Maður þekkir nú þann söng þeirra stjórnarandstæðinga. En nú í þetta skipti ætla hv. þm. hins vegar að hafa vaðið fyrir neðan sig, því að nú lýsa þeir því yfir, að til þess að draga úr embættisbákninu þurfi að breyta lögum og þess vegna flytji þeir ekki um það neinar till. Ef það er hægt að draga stórkostlega úr embættismannabákninu með því að breyta lögum, hvers vegna flytja þeir þá ekki lagafrv. um það á þinginu? Hvers vegna eru þá öll lagafrv., sem koma fram frá þessum hv. þm., um það að auka útgjöld ríkissjóðs? Hvers vegna sýna þeir mönnum ekki, hvernig þeir vilja lækka útgjöld ríkissjóðs? Og ef þeir hafa nú allt í einu uppgötvað það, sem þeir hafa nú víst ekki áður vitað, skilst manni, að það muni þurfa lagabreytingar til þess að lækka útgjöldin, hvers vegna koma þeir þá ekki með lagafrv., svo að menn sjái svart á hvítu, hvernig eigi að fara að því að þeirra dómi að lækka stórlega útgjöld ríkisins?

Fyrst þegar hv. 3. landsk. þm. (HV) fór að tala hér um sparnaðinn, fór hann að flytja hér ýmsar till. um lækkanir á áætlanaliðum fjárlfrv., og það hafa þm. kommúnista stundum gert líka. En svo þegar sýnt var fram á, að þetta voru ekkert annað en sýndartill. um lækkanir á áætlunarliðum, sem engin áhrif gátu á það haft, hvað endanlega yrði útborgað, hafa þeir hætt við þetta og í staðinn talað um, að annaðhvort væri það svo mikið verk að gera till. um sparnaðinn, að þeir gætu ekki komizt yfir það, eða þá að það þurfi að breyta lögum til þess að koma sparnaðinum við. En ég spyr enn: Hefur þessum hv. þm. ekki dottið í hug, að leiðin til þess að breyta lögum er sú að flytja frumvörp til breytinga á lögum?

Hv. þm. (HV) kvartaði yfir því, að það hefði ekki á undanförnum árum verið farið eftir hans till. um áætlunina á tekjunum. Sem betur fer hefur það ekki verið gert. Ef það hefði verið gert, þá hefði sum árin orðið stórkostlegur greiðsluhalli, önnur árin hefði kannske skriðið, vegna þess að það urðu óvenjuleg góðæri, sem enginn gat séð fyrir.

Ég hef fært alveg fullnægjandi rök fyrir því og hv. frsm. meiri hl. líka, hvers vegna meiri hl. fjvn. og stjórnin álitu hæfilegt að áætla tekjurnar sem næst því, sem nú er lagt til, en ekki eins og hv. minni hl. stingur upp á.

Að lokum aðeins eitt atriði. Hv. 11. landsk. þm. (LJós) sagði, að sósíalistar væru á móti tollum og söluskatti, áfengis- og tóbaksgróða. skildist mér. Mér skildist helzt, að hann vildi láta selja brennivín við sannvirði, láta lækka brennivínið. Hann leiðréttir, ef ég hef misskilið hann. Hann sagði sem sé, að sósíalistar væru á móti því að afla ríkinu tekna með tollum og söluskatti, áfengis- og tóbaksgróða, og sagði, að þeir vildu taka meira með raunverulegum sköttum á breiðu bökin. Í fyrra var verið að fjalla hér um tekju- og eignarskattinn og þá voru hér frammi till. um að lækka hann allverulega, og sósíallstar greiddu atkv. með öllum þeim lækkunum á tekjuskattinum. Þetta gefur mér tilefni til þess að spyrja: Hvað er það, sem sósialistar eða kommúnistar vilja? Hvernig vilja þeir afla teknanna? Það væri fróðlegt að vita, hvað ætti að koma í staðinn fyrir alla tollana, söluskattinn, áfengis- og tóbaksgróðann. Væntanlega á það ekki að vera tekjuskattur, því að í fyrra voru þeir með því að lækka hann.