02.12.1954
Sameinað þing: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í D-deild Alþingistíðinda. (3044)

211. mál, jöfn laun karla og kvenna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. þykktist nokkuð út af því, sem ég sagði hér áðan, en hann hafði nú ekki út af miklu að reiðast, því að það, sem ég sagði, eru staðreyndir. Hann upplýsti sjálfur, hæstv. ráðh., að n., sem hann hefði skipað í þetta mál, teldi ekki hægt að fullgilda jafnlaunasamþykktina eins og stæði, og þar með virðist mér vera fengin niðurstaða, sem bindi ákaflega eðlilegan endi á starf n. Hún hefur sagt, að það þurfi breytingar á íslenzkri löggjöf, svo að íslenzka ríkið geti staðfest jafnlaunasamþykktina. Ég skal því taka það fram, að því er snertir þátttöku Alþýðusambands Íslands í n., að ef hún hefur þegar gefið svar við því úrlausnarefni, sem hún átti að leysa, þá er ég ekki áfram um það, að n. starfi áfram, og sé engan tilgang með því.

Um það er hins vegar deilt, hvort þær lagaheimildir, sem nú séu fyrir hendi um að greiða konum sömu laun og körlum, séu heiðarlega og samvizkusamlega framkvæmdar hjá ríki og Reykjavíkurbæ. Og hér eru þeir menn til staðar, sem ættu að geta sannað það með tölum, ef svo væri. Nú skal ég játa það, að ég hef ekki skýrslur frá árinu í ár, þær liggja ekki fyrir, en nýjustu skýrslur frá Reykjavíkurbæ segja okkur dálítið um þetta á þennan hátt:

Af föstum starfsmönnum Reykjavikurbæjar árið 1950 voru 140 konur, þar með taldar kennslukonur og hjúkrunarkonur. Af þeim voru tvær konur alls í níu hæstu launaflokkunum, en 118 karlmenn af 468 voru þá í níu hæstu launaflokkunum. En í sex lægstu launaflokkunum voru hins vegar 111 karlmenn, eða 23.7% allra fastráðinna karla, og 62 konur, eða 44% allra fastráðinna kvenna í lægstu launaflokkunum. Hjá fyrirtækjum Reykjavíkurbæjar, rafmagnsveitu, gasveitu, vatns- og hitaveitu og Reykjavíkurhöfn, voru sama ár 25 konur taldar fastir starfsmenn, en af þeim var aðeins ein kona með hærri laun en í 10. launaflokki. Þetta er jafnréttið í framkvæmd.

Nú bið ég hæstv. borgarstjóra að segja okkur, hvort það hafi orðið breytingar á þessu eftir löggjöfina, sem hann vitnaði í áðan.

Af föstum starfsmönnum ríkisins voru sama ár 246 konur, og af þeim var engin í fjórum hæstu launaflokkunum. Tvær konur eru til í fimmta launaflokki, aðrar tvær eru til í sjötta launaflokki og fimm eru til í sjöunda launaflokki. Í sjö hæstu launaflokkum eru þannig til hjá ríkinu samtals níu konur. Það er jafnréttið þar. Níu konur í sjö hæstu launaflokkunum.

Þetta bendir til þess, sem hv. borgarstjóri sagði hér áðan: Það ber að stefna að jafnrétti í launamálum kvenna og karla, og að svo miklu leyti sem þörf er lagasetningar, þá ber að framkvæma nýja lagasetningu í því efni. Ég er honum sammála um þessa niðurstöðu og ég tel, að ég hafi sýnt með tölum, að það, er full ástæða til þess að fá ákveðnari lagafyrirmæli um sömu laun kvenna og karla, eftir þeirri framkvæmd, sem er á þessum málum hjá ríki og bæ.