02.12.1954
Sameinað þing: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í D-deild Alþingistíðinda. (3046)

211. mál, jöfn laun karla og kvenna

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú í meginatriðum svarað þessum ásökunum hv. 3. landsk. þm., að ríki og Reykjavíkurbær hafi gengið fram hjá konum við skipun hinna hærra launuðu starfa. Og þegar um þetta er að ræða, verður fyrst og fremst að athuga þrjú atriði: Í fyrsta lagi, ef um slíkt starf er að tefla, hvort umsækjandinn fullnægi þá lögmætum skilyrðum, þekkingarskilyrðum, prófum eða öðru, í öðru lagi, hvort konur hafa sótt um starfið, og í þriðja lagi, hvort það hefur þá verið ranglega gengið fram hjá þeim.

Við getum ósköp vel litið yfir nokkra af þessum starfsmannahópum hjá Reykjavíkurbæ. Það eru ekki svo margir í þessum launaflokkum, sem hann nefnir. Í hæsta launaflokknum er borgarstjóri. Mér er ekki kunnugt um, að kona hafi sótt um það starf; ég hef a. m. k. ekki heyrt það. Í öðrum launaflokki eru nú aðallega forstjórar einstakra fyrirtækja, sem verða að vera verkfræðingar. Það er t. d. hafnarstjóri, rafmagnsstjóri, bæjarverkfræðingur. Þessi störf hafa verið auglýst á sínum tíma. Mér er ekki kunnugt um, að nein kona hafi um þau sótt, þegar af þeirri ástæðu, að það er engin íslenzk kona til, sem er verkfræðingur. Í þessum flokki er t. d. líka húsameistari bæjarins; kona hefur aldrei sótt um það starf. Borgarlæknisembættið, sem einnig er í einum af þessum æðstu flokkum, var auglýst til umsóknar fyrir örfáum árum. Það sótti engin kona um það. Borgarritarastarfið — sá maður þarf að vera lögfræðingur — var líka auglýst til umsóknar. Engin kona sótti um það.

Það eru þess vegna alveg furðulegar staðhæfingar hjá hv. þm., þegar hann leyfir sér að koma fram með slíka gagnrýni og vantar allan grundvöll undir þessar ásakanir. Ef maður á að nefna aðra, þá eru það t. d. framkvæmdarstjórar bæjarútgerðar Reykjavíkur. Það hefur engin kona sótzt eftir því. Eða t. d. togaraskipstjórar. Mér er ekki kunnugt um, að nein kona hafi sótt um það að verða skipstjóri á bæjartogara.

Ef litið er yfir þessa hæstu launaflokka, þá kemur það vafalaust í ljós, að það hefur engin kona sótt um þau störf. Og um sum þeirra er þannig varið, að til þeirra þarf sérþekkingu, sem konur hafa ekki öðlazt hér á landi. T. d. hefur engin íslenzk kona gengið á verkfræðiskóla og lokið þar prófi.

Í rauninni þarf ekki frekari orð um þetta að hafa. Aðalatriðið er hér ekki það, hversu margar konur eða karlar eru í einhverjum tilteknum launaflokki, heldur hitt: Njóta konur jafnréttis á við karlmenn, þannig að þær fái sömu laun fyrir sömu störf? Og það er þegar orðið lögfest hér og er í framkvæmd bæði hjá bæ og ríki.