23.11.1954
Sameinað þing: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í D-deild Alþingistíðinda. (3052)

212. mál, áburðarverksmiðjan

Fyrirspyrjandi (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. landbrh. fyrir þau svör, sem hann hefur hér gefið við fsp. mínum, og ég skil mætavel þau mistök, sem urðu á því, að tveir liðir af fsp. höfðu fallið niður, og mun ekki bera fram neina ósk um það, að málið verði tekið aftur á dagskrá af þeirri ástæðu, enda gaf hæstv. ráðh. hér svör við seinni liðnum a. m. k.

Ég tel ekki ástæðu til að ræða mikið um þetta mál á þessu stigi. Það var aðeins eitt atriði í ræðu hæstv. ráðh., sem ég hefði talið æskilegt að fá ofur lítið nánari upplýsingar um, og það var þegar hann talaði um kornastærð áburðarins, að áburðurinn hefði verið afar fínn í fyrstu, en sagði jafnframt, að kornastærðin hefði vaxið nú síðustu mánuði. Í sambandi við þetta hefði ég talið æskilegt að fá það upplýst, hvort þetta þýddi jafnmikla áburðarframleiðslu, þ. e. a. s. eftir því sem kornastærðin vex, hvort þá verði framleiddur jafnmikill áburður í verksmiðjunni og framleiddur var með minni kornastærð.

Í sambandi við fsp. mína um það, hvort víða væri framleiddur sams konar áburður með tilliti til kornastærðar og hér er gert, svaraði hæstv. ráðh. því til, að eitt af stærstu orkuverum Bandaríkjanna framleiddi slíkan áburð. Mér skilst nú, að þetta svar þýði nánast það, að í sambandi við eitt af stærstu orkuverum Bandaríkjanna sé verksmiðja, sem framleiði slíkan áburð, þ. e. a. s., að það sé áburðarverksmiðja þar, sem fái orku frá einu af stærstu orkuverum Bandaríkjanna. En annað í þessu sambandi gat hæstv. ráðh. ekki um. Hann nefndi engin fleiri dæmi. Og þar sem hér er að sjálfsögðu um tæknilegt atriði að ræða, skal ég ekki á það leggja neinn dóm, hversu hér hafi heppilega til tekizt, ef rétt er, sem mér skildist af ræðu hæstv. ráðh., að ekki væri unnt að vitna til nema eins fyrirtækis í þessu sambandi, sem framleiddi sams konar áburð og hér er gert. Mörgum reyndum búmanni held ég hefði orðið það fyrir að framleiða hér áburð, sem meiri reynsla væri fyrir en þó að eitt fyrirtæki hefði fengizt við að framleiða hann. En ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um málið meira á þessu stigi.