16.02.1955
Sameinað þing: 36. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í D-deild Alþingistíðinda. (3061)

142. mál, mótvirðissjóður

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er mesti misskilningur hjá hv. fyrirspyrjanda, að ríkisstj. sé óljúft að ræða um þetta mál eða þessa fyrirspurn. Hitt er öllu leiðinlegra, að hv. þm. skuli vera með fyrirspurn af slíku tagi, vegna þess að það verður að ætlast til, að hann viti um það, sem hann er að spyrja.

Það vita, held ég, allir hv. alþm., hvernig mótvirðissjóðurinn er til kominn, að 95% af andvirði seldra gjafadollara var lagt á sérstakan reikning samkvæmt samningi milli Íslands og Bandaríkja Ameríku um efnahagssamvinnu, sem undirritaður var 3. júlí 1948 og birtur er í stjórnartiðindum 1948, A-deild, bls. 232–250. Þessi reikningur hefur verið kallaður mótvirðissjóður, og samkv. l. nr. 47 frá 25. maí 1949 má ekki ráðstafa honum nema með samþykki Alþingis. Fyrirspurnin ber því vitni um mikla vanþekkingu eða misskilning, þar sem ætlað er, að ameríska sendiráðinu hafi verið greitt stórfé úr mótvirðissjóðnum.

Er hugsanlegt, að fyrirspyrjandi rugli saman mótvirðissjóðnum og hinum svokallaða 5% reikningi, sem er eign Bandaríkjanna, og eins og segir í 4. mgr. 4. gr. samningsins um efnahagssamvinnu, er það fé til ráðstöfunar ríkisstjórnar Bandaríkja Ameríku vegna útgjalda hennar á Íslandi. Hluta af þessu fé hefur verið varið til stuðnings tilrauna- og fræðslustarfsemi í þágu íslenzks landbúnaðar og fiskveiða og einnig til styrktar Iðnaðarmálastofnuninni. Annars er það á valdi Bandaríkjanna sjálfra að nota þetta fé að eigin geðþótta í samræmi við ákvæði samningsins um efnahagssamvinnu.

Ég ætla nú, að hv. 2. þm. Reykv. sé ljóst, hversu fráleitt það er að gera í þessu sambandi fyrirspurn um það, hvort sendiráði Bandaríkjanna hafi verið greitt stórfé úr mótvirðissjóðnum, og ég reyndar veit, að þetta er fullnægjandi svar fyrir hann, enda þótt hann kunni að koma hér og spyrja um fleira, sem hann veit um, en þessi hv. þm. er allt of fróður til þess að vera að leika hér eitthvert fífl, sem lítið veit.