16.02.1955
Sameinað þing: 36. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í D-deild Alþingistíðinda. (3062)

142. mál, mótvirðissjóður

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson):

Hæstv. viðskmrh. hefur nú upplýst, hvað mikið hann leggur upp úr því orðalagi, að það séu aðeins 95%, sem sé greitt í mótvirðissjóð, og að 5 prósentin, sem fara til ameríska sendiráðsins, séu dregin frá áður, en þau eru með öðrum orðum, eins og við vitum báðir, dregin frá því mótvirði, sem Ísland leggur fram á móti hinum svonefndu Marshallgjöfum, og má þá ef til vill ekki telja, að miklu skipti, hvort maður orðar það svo, að 5 prósentin séu greidd úr mótvirðissjóðnum, þar sem það minnkar, sem í hann fer, um þessi 5%, eða hitt, hvort maður kallar aðeins 95 prósentin af því mótvirðissjóð. Það er mótvirðisupphæðin, sem þarna er um að ræða. — Það er rétt, sem hæstv. ráðh. tók fram, að þessum 95% má ekki ráðstafa nema með samþykki Alþingis, en hæstv. ráðh. gleymdi að geta um áframhaldið af þeim skilyrðum; það má ekki heldur ráðstafa því nema með samþykki amerísku ríkisstjórnarinnar, og það hefur verið notað sem svipa á okkur hér í þinginu og af nefnd íslenzku ríkisstj., fjárhagsráði, verið lýst yfir, að það mætti ekki samþykkja lög, sem búið var að samþykkja í Nd., mætti ekki afgreiða þau frá þinginu, vegna þess að ella mundi Bandarikjastjórn neita að leyfa okkur að nota féð úr mótvirðissjóði. Og yfirboðarar mótvirðissjóðs voru þá taldir vera ríkisstjórnin í Washington, en ekki Alþingi Íslendinga. Það er hins vegar gott, að hæstv. ríkisstj. er nú farin að reyna að draga fjöður yfir þetta.

Svo fór hæstv. ráðh. nokkuð inn á, að eitthvað af þessum 20 millj. kr., sem ameríska sendiráðið hefur fengið greitt frá íslenzka ríkinu, hafi verið notað sem styrkur til ferðalaga og upplýsinga í sambandi við íslenzkan landbúnað. Hann minntist ekki á hve mikill hluti. Það hefði verið æskilegt, að það hefði verið hægt að gefa fleiri upplýsingar um það. Ég mun kannske gera ráðstafanir til þess, að það verði hægt að fá þær fram. Ég held, að það sé ekki vanþörf á því.