02.03.1955
Sameinað þing: 40. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í D-deild Alþingistíðinda. (3074)

214. mál, bygging þingmannabústaðar

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það má nú kannske segja, að hv. fyrirspyrjandi, hv. 1. þm. Eyf. (BSt). hafi í rauninni gert hvort tveggja í senn að bera hér fram fyrirspurn á þskj. 357 og einnig að svara henni sjálfur. svo að það kann að vera að bera í bakkafullan lækinn að bæta þar nokkru við. En með því að fyrir hv. fyrirspyrjanda vakir ekki fyrst og fremst, eins og hann sjálfur segir. að fá vitneskju um, hvað hefur skeð í þessu máli, heldur einnig að aðrir hv. þm. geti fengið sömu vitneskju, þá skal mér vera ánægja að staðfesta, að svo miklu leyti sem til minna kasta hefur komið, það sem hann sagði um þetta.

Það er rétt. að í 2. gr. l. nr. 84 1953 segir svo: „Reisa skal þingmannabústað svo fljótt sem því verður við komið. Skal undirbúningur. svo sem staðarval, uppdráttur o. s. frv. hafinn nú þegar og honum lokið á árinu 1954. Kostnaður við bygginguna greiðist úr ríkissjóði.“

Í bréfi til forsrn., dags. 12. febr. 1954. lögðu forsetar Alþ. til. að skipuð yrði sérstök n. til þess að fara með þetta húsbyggingarmál. Að fengnu bréfi forsetanna óskaði forsrn. eftir því, að kannað væri meðal utanbæjarþingmanna, hverjir þeirra mundu kjósa að búa í slíkum væntanlegum þingmannabústað. Nítján þingmenn svöruðu þeirri fyrirspurn afdráttarlaust játandi. Einn sagði: „Já, ef boðlegt er“ — annaðhvort að segja já eða húsið, — ég veit ekki, hvort hann átti við. Einn taldi það sennilegt, einn óvíst og enn einn vafasamt. Einn þm. var veikur, og varamaður hans óskaði ekki að taka afstöðu til málsins. Með bréfi 12. okt. 1954 skipaði svo forsrn. forseta Alþ., þá Jörund Brynjólfsson, Gísla Jónsson og Sigurð Bjarnason, ásamt skrifstofustjóra Alþingis, Jóni Sigurðssyni, í byggingarnefnd þingmannabústaðar. Jafnframt var húsameistara ríkisins falið að vera n. til aðstoðar.

Aðrar upplýsingar getur forsrn. ekki gefið um þetta mál að svo stöddu, enda er það nú. eins og menn mega skilja af þessu, í höndum byggingarnefndarinnar.