02.03.1955
Sameinað þing: 40. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í D-deild Alþingistíðinda. (3080)

214. mál, bygging þingmannabústaðar

Forsrh. (Ólafur Thors):

Í þeim fáu orðum, sem ég mælti hér áðan, svaraði ég þeirri fyrirspurn, sem fyrir lá. Ég tel, að nú sé farið að ræða tvö óskyld mál: annars vegar hvernig hægt er að leysa þá þörf, sem aðkomuþingmenn telja vera fyrir hendi — og raunar kannske aðrir líka — um að sjá þeim farborða um sæmilegar íbúðir, meðan þeir dvelja hér í bænum; hins vegar hvernig eigi að leysa framtíðarþörf Alþingis sjálfs fyrir viðunandi vistarverur. Ég sé ekki að þessi tvö mál eigi né megi tengjast of föstum böndum. Það eina, sem er ástæða til að gera sér grein fyrir á þessu stigi málsins, er, að það er ekki rétt að hugsa sér að leysa þarfir aðkomuþingmanna með því að hnýta einhverjum kumbalda við alþingishúsið, því að það er áreiðanlega sú lausnin, sem yrði óheppilegust, enda fyrir þá, sem hafa ríkan áhuga á þessu máli, rétt að gera sér grein fyrir því, að ef ætti að halda inn á þá braut, mundi það vera tryggasta ráðið til að koma þeirra óskum og vonum fyrir kattarnef.

Ég má ekki mæla gegn mínum samherjum hér á þingi eða samstarfsmönnum. Sá veit bezt, hvar skórinn kreppir, sem sjálfur ber hann, og sannarlega vita þessir menn, sem koma frá sínum heimilum hvaðanæva af landsbyggðinni, um þær óvistlegu vistarverur, sem þeir verða nú að hafast við í, og er eðlilegt, að þeir beri fram þær kröfur og óskir. sem þeir hafa gert. Að þinginu stafi hins vegar bein hætta, af því, að lausn þessa máls dragist út frá því sjónarmiði, sem hv. 1. flm. gat um, að það gætu orðið nokkur vandkvæði á að fá hingað úrval manna við jafnbág kjör sem þeir eiga hér að búa, held ég að aldrei verði sterk rök, meðan menn þurfa ekki annað en renna augunum um þennan þingsal og sjá hið virðulega og ágæta mannval. sem leggur á sig að fara heiman að til þess að setjast á þingbekkina við þetta harðræði, sem þeir eiga við að búa. Ég teldi hitt miklu hæpnara fyrir þingmenn og þingið. ef t. d. hæstv. forsetar hefðu hnigið að því ráði að bæta úr þörf þessara þingmanna með því að búa þeim vistarverur í því húsi, sem ríkisstj. hefur sínar samkomur í, eins og mér skilst að forsetinn hafi mjög tekið til athugunar, í Tjarnargötu 32. En sem sagt, ég vil ekki á nokkurn hátt gerast meinsmaður þess, að úr þessum þörfum verði bætt.

Þó er rétt, að við gætum þess, að þegar málið liggur upplýst fyrir og m. a. kemur í ljós, að til þess að sjá farborða hverjum einstökum utanbæjarþingmanni þarf að leggja fram af ríkisfé 170 þús. kr., og er þó óséð fyrir húsmunum bæði í þessar íbúðir og til sameiginlegra salarkynna, mun margur hika og minnast þess, að á undanförnum árum hefur það verið eitt vandasamasta viðfangsefnið að koma upp þaki yfir fjölskyldumenn með þeirri rausn af hendi Alþingis — og þó ríkisstjórnarinnar fremur en Alþingis — að tryggja fátækum mönnum 25 þús. kr. lán til íbúðar yfir sig og sína. Það er eitt af mestu vandamálum ríkisstj. nú, sem hún hefur verið að glíma við að undanförnu, að hækka þessa upphæð allverulega. En ég býst við, að við þurfum margir að gæta að samvizkunni, áður en við tökum ákvörðun um það, hvort okkur þykir henta að skammta úr ríkissjóði sjálfum okkur fyrir vistarveru í nokkra mánuði 170 þús. og þó raunar heldur 200 þús. eða yfir það, meðan við getum ekki bætt betur úr þörfum almennings en við höfum verið menn til enn þá. Og ég vil enn fremur minna á það, að þegar við erum að tala um þessar vistarverur þingmannanna, þá eru hér þúsundir manna, sem búa í bröggum og heilsuspillandi íbúðum, og meðan þær þarfir eru ekki leystar, þá er rétt, að við athugum, að sú skylda hvílir líka á okkur að leysa þær þarfir. Má vera, að mönnum þyki þetta kaldlega mælt af manni, sem sjálfur býr í ágætum vistarverum og þarf aldrei að fara að heiman nema nokkur skref til þess að komast niður á Alþingi.

Það er svo annað mál og þessu óskylt, að þegar við komum að hinu mikla máli. hvernig við eigum að leysa vandann um, að þingmenn geti fengið að vinna sína vinnu í þarfir þjóðarinnar í sjálfu alþingishúsinu, þá erum við farnir að glíma við annað og miklu stærra og líka miklu þýðingarmeira vandamál. Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Eyf. og hv. 7. þm. Reykv. og fleiri hafa hér tekið fram, að þinghúsið er ekki lengur boðlegt, vegna þess að menn geta ekki unnið skyldustörfin fyrir húsnæðisskortinum. Það er alveg rétt. Við skulum samt gera okkur grein fyrir því, að í þessu húsi verðum við lengi enn þá. þ. e. a. s. Alþingi verður hér lengi enn þá. Við höfum séð að Reykjavíkurbær, sem hefur yfir 60 þús. íbúa, hefur ekki talið sér fært enn að byggja ráðhús yfir sig. Hvers vegna? Vegna þess að hann hefur alltaf þurft að líta á brýnni þarfir fólksins, og hann hefur gert það. Stjórnarvöld Reykvíkinga hafa sætt fyrir þetta ámæli, þegar bent er á að hér vantar ráðhús, en þau hafa alltaf risið undir því ámæli, vegna þess að þau hafa bent á að þær milljónir sem áttu að fara í ráðhúsið fóru annað, þar sem þörfin var brýnni. Við komum til með að horfast í augu við það sama. Við eigum auk þess eftir að byggja yfir stjórnarráðið. Það er 20 millj. kr. hús sem þar þarf að byggja. Við erum byrjaðir að draga saman aura í sjóð, sem á að verja í þessu skyni. Á meðan sú þörf er ekki leyst, verðum við hérna kyrrir.

En það er rétt, að menn eiga nú þegar eða sem fyrst að gera sér grein fyrir því, hvar alþingishús Íslendinga á að standa. Og ég trúi því mætavel, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði og virtist hafa leitað sér upplýsinga um, að það sé allmiklum vanda bundið að breyta þessu húsi, sem við nú störfum í, þannig að það komi að fullum notum. Ég veit, að þeim verður mikill vandi á höndum, sem á þeim tíma eiga að taka ákvarðanir um staðarvalið, einmitt vegna þess, sem hv. 7. þm. Reykv. einnig gat um, sem sé hversu margar helgar tilfinningar eru bundnar þessum stað. Í því sambandi gat hann sjálfur um annað hús, sem svipað mætti segja um, þó að þar hafi Alþ. skemur staðið, þ. e. a. s. um menntaskólahúsið, og það hefur þá einnig verið til álita, bæði innan núverandi og fyrrverandi ríkisstj., hvort til greina gæti komið einmitt að flytja framtíðarþinghúsið þangað. Um það skal ég nú ekki ræða á þessu stigi málsins.

Ég gat ekki stillt mig um það, herra forseti, úr því að þetta mál barst út á þennan víða grundvöll, aðeins að geta um þetta, því að auðvitað hefur þetta nokkuð komið til umræðu bæði í núverandi ríkisstj., fyrrverandi og öðrum ríkisstj. í sambandi við lóðareignir ríkisins og þá þörf, sem allir koma auga á, að áður en mjög langt um líður verður að athuga, hvernig leysa eigi.