09.03.1955
Sameinað þing: 44. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í D-deild Alþingistíðinda. (3083)

163. mál, verðtrygging sparifjár

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Á þinginu 1952 flutti ég ásamt þeim hv. 1. þm. Rang. (HelgJ) og hv. þm. S-Þ. (KK) till. til þál. um verðtryggingu sparifjár. Till. þessi var svo hljóðandi. með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að taka nú þegar til gaumgæfilegrar rannsóknar. hvort eigi sé hagkvæmt og framkvæmanlegt að koma á þeirri skipan, að bankar og sparisjóðir taki fé til ávöxtunar með skuldbindingu um að greiða uppbætur á það, samsvarandi þeirri hækkun. sem verða kann á kaupgjaldsvísitölu eða vísitölu framfærslukostnaðar á þeim tíma, sem féð er geymt óhreyft á sama reikningi, en það sé eigi skemur en 5 ár, enda verði lántakendum þessa fjár sett það skilyrði að þeir greiði bönkum og sparisjóðum verðuppbætur á lánsféð samkv. framangreindri reglu, ef vísitalan hækkar á lánstímanum.

Þá er ríkisstjórninni og falið að vinna að því. að þetta fyrirkomulag um ávöxtun sparifjár og útlán þess verði upp tekið ef jákvæður árangur verður af rannsókninni.“

Þessari till. okkar var vísað til hv. fjvn. og skilaði hún áliti um till., þar sem n. lagði til, að nokkur breyt. yrði á henni gerð, og var till. síðan samkv. till. n. afgreidd frá sameinuðu Alþingi 5. febr. 1953, þannig orðuð:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fram fara athugun, svo ýtarlega sem við verður komið, á því, hvort og með hverju móti takast mætti á hagfelldan hátt að tryggja verðgildi þess fjár, sem bankar og sparisjóðir taka til geymslu og ávöxtunar.“

Á þingi í fyrra bar hv. 1. landsk. þm. fram fsp. til ríkisstj. um þetta efni, og var sú fsp. rædd 18. nóv. 1953. Þá skýrði hæstv. viðskmrh. frá því, að hans rn. hefði sent till. þessa til bankanefndarinnar og ætlazt til þess, að bankanefndin tæki till. til athugunar og benti á úrlausnir og ráð í því efni, sem í till. felst. Ráðh. sagði, að ríkisstj. hefði á þeim tíma ekki borizt svar frá bankanefndinni, en stjórnin gerði ráð fyrir, að álit bankanefndarinnar mundi liggja fyrir, áður en langur tími líður, eins og hann orðaði það, og að þá yrði hægt að ræða nánar um málið. Þetta var í nóv. 1953.

Eftir að ég lagði fram fsp. mína, sem hér er til umr., hafa þingmönnum borizt í hendur álit og tillögur sparifjárnefndar, en það er nefnd, sem bankarnir hafa skipað á næstliðnu ári til þess að athuga um sparnað og möguleika til þess að gera ráðstafanir til aukinnar sparifjársöfnunar, en n. þessi hafði verið skipuð samkv. tilmælum hæstv. viðskmrh. Í áliti þessarar sparifjárnefndar er ýmislegt athyglisvert þessum málum viðkomandi, og n. hefur sett fram till. um það, að lög verði sett um útgáfu vísitölutryggðra verðbréfa. Hins vegar hefur þessi n., sparifjárnefndin, ekki lagt hér fram neinar till. um það, hvort eða með hverju móti takast mætti að tryggja verðgildi þess fjár, sem bankar og sparisjóðir taka til geymslu og ávöxtunar. Það getur að sjálfsögðu verið mjög þýðingarmikið að stíga það skref að gefa út vísitölutryggð verðbréf, en hitt málið er óleyst eftir sem áður, að tryggja verðgildi þess fjár, sem menn leggja inn í banka eða sparisjóði með venjulegum hætti, því að vitanlega verður aldrei nema einhver hluti af sparifjáreign landsmanna bundinn í verðbréfum. Og til þess að fá vitneskju um það, hvernig þetta mál standi nú, hef ég leyft mér að leggja fram þessa fsp. á þskj.423, sem hljóðar þannig:

Hvað líður athugun þeirri á möguleikum til að tryggja verðgildi sparifjár, sem ríkisstjórninni var falin með ályktun Alþingis 5. febr. 1953 ?