09.03.1955
Sameinað þing: 44. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í D-deild Alþingistíðinda. (3088)

215. mál, sparifjáruppbætur

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja fyrirspurn til hæstv. ríkisstj. um greiðslu sparifjáruppbóta.

Svo sem þingheimi er kunnugt, voru ákvæði um það í gengislækkunarlögunum frá árinu 1950, að sparifjáreigendum skyldu greiddar 10 millj. kr. í bætur fyrir það tjón, sem þeir yrðu fyrir af þeim ráðstöfunum, sem lögin fyrirskipuðu.

Sannleikurinn er sá, að þessar 10 millj. kr. til sparifjáreigenda voru smánarbætur af þjóðfélagsins hálfu fyrir það mikla tjón, sem verðlags- og fjármálapólitík undanfarins áratugs hafði bakað þeirri stétt manna, ef tala má um stétt í þessu sambandi. Hin gífurlega verðhækkun, sem orðið hefur, frá því að heimsstyrjöldin síðari skall á, er svo mikil, að verðgildi sparifjár landsmanna var þá. 1950, orðið aðeins lítið brot þess, sem það hafði verið rúmum 10 árum áður.

Nú dregur enginn í efa hið mikla þjóðhagslega og félagslega gildi sparifjársöfnunarinnar í landinu. Þess vegna verður ekki annað sagt en að það sé mikið félagslegt ranglæti og auk þess stórhættulegt, sem í því felst, að verðlags- og efnahagsmálastefna ríkisvaldsins sé með þeim hætti, að trú manna á gildi sparifjársöfnunar fari þverrandi eða verði jafnvel að engu. Þetta ákvæði gengislækkunarlaganna um 10 millj. kr. bætur til sparifjáreigenda virtist bera vott um svolítið samvizkubit í þessum efnum af hálfu ráðandi manna þjóðfélagsins, virtist bera vott um örlítinn vilja til þess að bæta þessum þjóðfélagsþegnum lítinn hlut af því gífurlega ranglæti, sem stefna ráðamanna hefði valdið þeim á undanförnum áratug.

En hvað hefur gerzt síðan? Síðan eru liðin 5 ár, og mér vitanlega hefur enn enginn sparifjáreigandi fengið greiddan einn eyri í sparifjáruppbætur. Og það, sem er öllu merkilegra eða athyglisverðara, er, að á þessu tímabili, sem liðið er síðan lögákveðið var að sparifjáreigendum skyldu greiddar svolitlar bætur, hefur verðgildi sparifjárins enn fallið um 50%. M. ö. o.: Sparifjáreigendum er heitið bótum 1950, að vísu litlum, svo litlum, að þær verða að kallast smánarbætur. Samt eru þeir sviknir um bæturnar í 5 ár, og á þeim tíma heldur hjólið áfram að snúast og verðgildi sparifjárins fellur enn um 50% að minnsta kosti.

Hér er auðvitað um að ræða þess konar háttalag af hálfu ráðamanna þjóðfélagsins, að óverjandi er, allra sízt þegar höfð er hliðsjón af því tali, sem ávallt er haft uppi um nauðsyn þess, að fólk spari leggi það á sig, sem sparnaði er samfara. Hér fara sannarlega ekki saman orð og gerðir. Í orðum er af ríkisvaldsins hálfu því haldið mjög sterklega að almenningi að spara og spara, og það er rétt og satt, en gerðirnar eru svo að hinu leytinu þannig, eins og ég hef lýst, að smánarbætur eru réttar fyrir áratugs ranglæti og síðan dregið að greiða þær í 5 ár og látið viðgangast á þeim tíma, að verðgildi sparifjárins falli enn um 50%.

Hvernig geta menn búizt við því í alvöru, að almenningur fari með glöðu geði eftir þeim hvatningarorðum, sem til hans er beint um að leggja á sig sparnað í þágu sjálfs sín og þjóðfélagsheildarinnar? Það er rétt, að vissar ástæður eru fyrir því, að nokkur dráttur hlaut að verða á því að sparifjáruppbæturnar yrðu greiddar. Lagaákvæðin um greiðslu sparifjáruppbótanna voru að mörgu leyti svo óskynsamleg, að ég ekki segi beinlínis fáránleg, að svo hlaut að fara að það tæki mikinn tíma að koma því máli algerlega í höfn, þótt ég vilji ekki segja, að það hafi þurft að taka allan þennan tíma, sem það hefur raunverulega tekið.

Á það var bent af mörgum þegar gengislækkunarlögin voru sett, m. a. af mér, sem átti sæti í þeirri n., sem um gengisskráningarlögin fjallaði 1950, að brýna nauðsyn bæri til þess að hafa þessi ákvæði miklu einfaldari og miklu gleggri en þau voru. Auk þess eru þau á marga lund þannig að með þeim er beinlínis stefnt að því, að úthlutunin hljóti að verða handahófskennd, ef ekki beinlínis ranglát.

Í breytingu, sem gerð var á ákvæðum sjálfra gengisskráningarlaganna frá 1950 á árinu 1953, segir svo, að bætur skuli miða við heildarinnstæðufjárhæð eins og hún var í árslok 1941 og í lok júnímánaðar 1946, og skuli miða við lægri innstæðufjárhæðina. Ef einhver breyting verður m. ö. o. á innstæðufjárhæðinni á tímanum 1941–46, þótt maður hafi átt verulega upphæð inni í sparisjóði meginhluta þess tíma, hafi aðeins vantað einn dag á, að hann hafi átt upphæðina inni allan þann tíma, þá fær hann engar bætur. Mér hafa verið tjáð mörg slík dæmi, þar sem menn hafa verið mjög sárir yfir úrlausn málanna, einmitt vegna þess arna. Slík ákvæði verða að teljast óskynsamleg og óréttlát, og hefði verið ástæða til þess að breyta þeim, þegar ljóst varð, hve þau tilfelli mundu verða algeng, að slíkt ranglæti bitnaði harkalega á mönnum. En fleiri dæmi mætti nefna um ákvæði laganna en þetta, þótt ekki sé tími til þess í fyrirspurnatíma, því til sönnunar, að niðurstaðan verður handahófskennd og að mörgu leyti beinlínis óeðlileg.

Það er af þessum sökum, að ég hef leyft mér að bera fram þessar fyrirspurnir, sem í aðalatriðum eru um það, hversu margir hafi sótt um uppbætur á sparifé samkvæmt gildandi lagaákvæðum frá 1950 og hversu miklar uppbætur verði greiddar og þá hversu mörgum, og jafnframt, hversu mörgum hafi verið neitað um þessar uppbætur og hver sé aðalástæða þess ef neitað hefur verið umsóknum. Jafnframt hefur mér fundizt ásfæða til þess að spyrja um það, hvort þeir, sem er neitað geti áfrýjað þeim úrskurði til einhvers æðri aðila en þess, sem neitunina hefur gefið út. Hér er um mikið fjárhagsatriði að ræða fyrir marga menn, og þá er auðvitað algerlega óeðlilegt, ef menn eiga að þurfa að sætta sig við neitun eins aðila í þessum efnum og geta ekkert áfrýjað þeim úrskurði því að mér er kunnugt um, að ýmsir sem fengið hafa neitanir, telji sig órétti beitta og hafa ekki vitað, hvert þeir ættu að snúa sér með umkvartanir um þau mál eða áfrýjun úrskurðarins.

Þá hef ég líka spurt um, og er það mjög mikilvægt, hvort ríkisstj. hyggist neyta heimildar laganna til þess að greiða uppbæturnar að einhverju eða öllu leyti í ríkisskuldabréfum, og þá, ef svo er til hversu langs tíma þau mundu verða og með hvaða vaxtakjörum. Það væri sannarlega að kóróna málið allt saman, ef nú, eftir að búið er að draga eigendur sparifjárins á greiðslu uppbótanna í 5 ár, ætti að borga þær út í ríkisskuldabréfum, því að reynsla sparifjáreigendanna af ríkisvaldinu er orðin sú, að þeir hlytu að telja slíkt vera ranglæti. Fyrst verða þeir að sætta sig við hina gífurlegu verðbólgu styrjaldaráranna fram til gengislækkunar 1950, síðan við það að í þá sé slett 10 millj. kr. í bætur fyrir það ranglæti. sem þá er búið að fremja, Svo verða þeir að sætta sig við að bíða í 5 ár eftir greiðslunni og láta enn lækka fyrir sér spariféð um 50% á þessum 5 árum. Og ef þeir svo núna enn eiga að þola það, að þeim séu rétt ríkisskuldabréf, kannske til 5, 10 eða 20 ára, og láta enn fella þau í verði á skuldabréfatímanum um 50%, þá er hér um að ræða þvílíka meðferð á þessum hópi manna, að hann getur ekki við það unað.