23.03.1955
Sameinað þing: 48. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í D-deild Alþingistíðinda. (3096)

174. mál, landshöfn í Rifi

Fyrirspyrjandi (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Um leið og ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör, sem hann hefur hér gefið, vildi ég mega taka það fram, að ég er honum náttúrlega ekki alveg sammála um það, að ég telji þau fullnægjandi, eins og hann lagði mikla áherzlu á. Og ég veit ekki, hvernig hann getur ætlazt til þess, þegar maður spyr hér um þrjú atriði og um eitt atriðið er tekið fram, að því sé ekki hægt að svara, að maður geti talið það fullnægjandi svar. En 2. liðnum, hve mikið fé væri talið að þyrfti til að fullgera umrædda landshöfn á Rifi, sagði hæstv. forsrh. að væri ekki hægt að svara eins og sakir stæðu.

Nú er það í sjálfu sér lítið atriði, þó að einn ráðh. hér svari ekki spurningu á Alþ. ýtarlega eða nógu ýtarlega. En hitt er mjög alvarlegt atriði, sérstaklega ef það væri algengt, að ráðizt væri í framkvæmdir fyrir það opinbera og fyrir fé almennings, þannig að þeir, sem um þetta eiga að sjá og fyrir þessu eiga að standa, séu almennt þannig við því búnir og standi almennt þannig að málum, að þeir hafi ekki hugmynd um, hvað það kostar, sem á að gera og ætlað er að gert verði. Það tel ég mjög alvarlegt og mjög ískyggilegt mál. Og ég er satt að segja eiginlega stórforviða á því, að hæstv. forsrh. skuli koma með svona svar frá sínum undirmönnum og telja það fullnægjandi, þegar hann er spurður hér alvarlegra spurninga inni á þingi þjóðarinnar.

Um hitt atriðið, að þarna hefðu átt sér stað mistök, þannig að það hefði borið sand inn í höfnina aftur, sem hefði kostað 60–70 þús. kr. að dæla í burtu, vildi ég mega segja það, að þannig hlutir hafa gerzt ekki aðeins þarna, heldur og víðar, og einmitt þess vegna spurði ég um þetta. Ég vildi fá tækifæri til að ræða þessi mál nokkrum orðum. Við höfum heyrt getið um brimbrjóta, sem hafa farið og brotnað í vetrarveðrum, um hafnargarða, sem hafa farið og brotnað, og um fleiri og fleiri þannig hluti, um sand, sem hefur borið inn í hafnir, eftir að búið var að dæla honum burt, þannig að þetta er engin nýlunda.

Nú ætla ég ekki að hefja neinar stórárásir á þá, sem fyrir þessum verkum standa og fyrir þessum óhöppum verða. En hitt vildi ég mega spyrja um: Hefur þetta ekki verið tekið neinum alvarlegum tökum? Hefur það aldrei verið rannsakað, hvernig á þessu standi og hvort ekki sé til nokkur hugsanleg leið að koma í veg fyrir, að þetta endurtaki sig? Við erum að byggja hér hafnir víðs vegar um landið, hafnargarða, brimbrjóta og grafa upp sand og búa til rennur og dýpka hafnir. Og við eigum eftir að gera þetta mörg, mörg ár enn. Eigum við sífellt að búa við það ástand, að þessi verk, sem varið er til stórfé af almannafé, verði að engu? Eða hafa verið gerðar einhverjar ráðstafanir til þess að rannsaka það, hvort ekki megi koma í veg fyrir það? Og ef þær hafa ekki verið gerðar nú þegar, hefur þá hæstv. ríkisstj. og hafnarmálastjórninni ekki til hugar komið að reyna að hefja einhverjar rannsóknir og aðgerðir í þessu efni? Ég óska mjög eindregið eftir að fá upplýsingar um þessi mál.

Þá var hæstv. forsrh., að manni skildist, með nokkur svigurmæli í minn garð í upphafi máls síns. Ég skal taka það fram, að það stóð ekki í bréfinu frá vitamalastjóra; það var frá eigin brjósti. Ég held, að hann hefði átt að spara sér þessi svigurmæli. Hann var að tala um það, að hæstv. ríkisstj. hefði verið að glíma við þá „fáránlegu vitleysu að láta fólkið í landinu lifa á undanförnum árum“. Þetta orðbragð er ákaflega líkt hæstv. forsrh. og kannske ekki rétt að taka allt of alvarlega, þar sem hann á í hlut, og maður veit, við hverju má búast af þeim manni. En ef hann hefur talið tilefni til svona orða í sambandi við það, sem ég sagði áðan, þá vildi ég spyrja hann, hvers konar orð hann vildi hafa í sambandi við það, sem hans eigið blað, Morgunblaðið, hefur um þessi mál að segja. 17. febr. s. l. segir Morgunblaðið svo um landshöfnina í Rifi, með leyfi hæstv. forseta. Segir hér í fyrirsögn:

„Enn sami mokaflinn á bátum frá Ólafsvík. Bætt hafnarskilyrði þar meira aðkallandi en Rifshafnarævintýrið.“

Svo segir enn:

„Samfelldar gæftir hafa nú verið hér hjá okkur um hálfs mánaðar skeið. Bátarnir fara í eins marga róðra og þeim er mögulegt. Er nú svo komið, að hæstu bátar eru með 270 lesta afla frá áramótum, enda hefur dagafli verið 12–20 lestir. Ef hafnarskilyrðin væru betri hér í Ólafsvík mundi afli bátanna verða talsvert meiri, en vegna þess, hve þau eru slæm, hafa bátarnir iðulega tapað róðrum. Væri öllu því fé, sem fer í hreina Bakkabræðravinnu í Rifshöfn, betur varið, ef höfnin hér yrði lagfærð. Með því að lengja bryggjuna upp í 45 m gætu farmskipin komið í þetta athafnasama pláss, þar sem fjöldi fólks vinnur dag hvern langt fram a nótt við framleiðslustörfin.“

Ég held, að ég verði að lána hæstv. forsrh. þessa úrklippu úr blaðinu, svo að hann geti svarað því með nokkrum svigurmælum. Það, sem ég nefndi, var ekki annað en það, að það gæti skeð, að það væri unnt að skapa fólkinu í þessu landi betra líf og láta það lifa með því að verja fé almennings, ekki peningum forsrh., heldur fé almennings á skynsamlegri og raunhæfari hátt en nú er gert. En ég gæti trúað því, að það væri nokkur sannleikur í því, sem hæstv. forsrh. sagði áðan, að ríkisstj. væri að glíma við vitleysu í sambandi við það að láta fólkið í landinu lifa. Það mætti segja mér, að þar hefðu ýmsar vitleysur verið gerðar af núverandi stjórnarvöldum og þess vegna hefði hæstv. forsrh. verið þetta orð alveg sérstaklega munntamt, þegar hann kom hér í ræðustólinn.