08.12.1954
Sameinað þing: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

1. mál, fjárlög 1955

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja fáeinar brtt. við fjárlfrv., sem allar miða að nokkuð auknum stuðningi ríkisvaldsins við ýmis menningarmál. Þeim hefur því miður ekki verið útbýtt enn þá, en ég ætla samt að leyfa mér að lýsa þeim í örfáum orðum, með leyfi hæstv. forseta.

Ein till. er um nokkra fjárveitingu, 100 þús. kr., til þess að koma á fót mannfræðideild við þjóðskjalasafnið, og hafi sú deild m.a. það hlutverk að vinna að því að koma upp spjaldskrá yfir Íslendinga, þar sem getið væri helztu æviatriða þeirra og jafnframt varðveitt mynd af þeim, ef kostur væri á. Ég hygg, að óhætt sé að segja, að engin þjóð hafi önnur eins skilyrði þess og Íslendingar að varðveita persónusögu sína til þess að fá þar með öruggan og vísindalegan grundvöll undir sagnfræðirannsóknir nútíðar og framtíðar og jafnframt undir rannsóknir í ættfræði og mannfræði. Mér skilst, að þeir Íslendingar, sem lifað hafa á Íslandi, séu ekki nema 1–2 millj. að tölu, og þar af munu vera þekkt nöfn á nokkur hundruð þúsundum manna. Það er engan veginn óvinnandi verk að gera skrá yfir alla þessa menn, sem nöfn eru þekkt á og þegar er fyrir hendi nokkur vitneskja um. Um meginhluta þeirra manna, sem lifað hafa í landinu frá landnámstíð og til 1703, er fyrsta manntal var tekið hér á landi, er auðvitað ekki vitað, hvorki um nöfn né æviatriði, en síðan 1703 má fullyrða að vitað sé um nöfn og jafnvel um æviatriði mikils þorra þeirra manna, sem lifað hafa í landinu:

Það væri einstakt í veröldinni, ef þjóð tækist að koma upp æviatriðaskrá yfir þá, sem lifað hafa með þjóðinni um nokkrar aldir, og fjöldi Íslendinga er ekki meiri en svo, að það er vel vinnandi verk í framtíðinni að halda við spjaldskrá um Íslendinga alla og helztu æviatriði þeirra. Yrði slíkt gert, mundi sú heimild áreiðanlega vera einsdæmi og óþrjótandi fróðleiksuppspretta fyrir sagnfræðinga, ættfræðinga og mannfræðinga. Með fáum þjóðum mun vera jafnmikill áhugi á ættfræði eins og með Íslendingum. Er það eðlilegt, og ber því að fagna. En störf hinna fjölmörgu manna, bæði sérfræðinga og alþýðu manna, sem við ættfræði fást, eru oft og einatt unnin á sama vettvanginum. Margir menn eru hver í sínu horni að vinna að sömu verkefnunum, og fer þannig oft mikil starfsorka til lítils. Ef komið væri upp mannfræðideild í þjóðskjalasafninu, þá gæti hún orðið miðstöð og leiðbeiningastöð fyrir alla þá mjög svo fróðu menn, sem nú fást við þessi störf, og mundi vafalaust verða til þess að auka mjög afköst þeirra og þá um leið gildi athugana þeirra.

Ég vildi leyfa mér að vænta þess, að hv. Alþ. sæi sér fært að taka þessari till. með velvild. Ég hef gert ráð fyrir aðeins 100 þús. kr. fjárveitingu í þessu sambandi. Það mundi koma að mjög verulegu gagni, ef ráðnir yrðu tveir menn til þess að sinna þessu verkefni.

Þá hef ég einnig lagt til, að varið yrði 500 þús. kr. af almannafé til þess að skreyta opinberar byggingar. Íslendingar gera að ýmsu leyti mjög vel við andans menn sína, sérstaklega við listamenn sína, og ber því að fagna, að svo skuli vera. Ein stétt manna virðist þar þó að sumu leyti verða nokkuð útundan, en það eru myndlistarmenn, auk þess sem ekki er eðlilegt, að þeir njóti aðstoðar ríkisvaldsins einvörðungu á þann hátt að hljóta styrki af almannafé. Hitt væri miklu eðlilegra, að ríkisvaldið sæi þeim fyrir verkefnum við þeirra hæfi, þannig að störf þeirra yrðu að nokkru goldin. Með því móti væru ekki aðeins þeir styrktir. Ef starfskraftar þeirra yrðu hagnýttir til þess að skreyta opinberar byggingar, þá fengi almenningur einnig að njóta verka þeirra í ríkari mæli en nú á sér stað, þegar hin opinbera aðstoð við þá er annaðhvort í því formi, að þeir hljóta styrki, eða keypt eru af þeim verk, sem sett eru á söfn einvörðungu. Með því móti verður listin aldrei slík almannaeign sem hún mundi verða, ef opinberar byggingar væru skreyttar í ríkari mæll en hér á sér stað. Annars staðar kveður miklu meira að slíku en hér á landi, og tel ég, að það væri æskilegt og skynsamlegt að taka þá stefnu upp í vaxandi mæli að hagnýta starfskrafta myndlistarmannanna og styrkja þá á þann hátt að ráða þá til þess að skreyta opinberar byggingar.

Ég hef einnig lagt til að hækka listamannalaun svolítið umfram það, sem hv. fjvn. hefur lagt til, en hækkunartillögum hennar ber mjög að fagna. Þær eru þó í raun og veru ekki meiri en svarar til þess, sem dýrtíð hefur aukizt í landinu frá því, að sú upphæð, sem undanfarið hefur staðið í fjárl., var ákveðin, en maklegt væri að hækka listamannalaunin svolítið umfram það til samræmis við mjög batnandi afkomu ríkissjóðs.

En jafnframt hef ég lagt til, að tekinn yrði sumpart upp nýr háttur varðandi listamannalaunin, þ.e.a.s., að 100 þús. kr. af listamannafénu eða af þeirri hækkun, sem ég legg til, yrði varið til þess að verðlauna þrjú rit, sem út koma á árinu. Ég teldi heppilegra, að sá háttur yrði hafður á í framtíðinni, að verðlaunin yrðu ekki einvörðungu bundin við ákveðna rithöfunda og skáld, heldur einnig, að þau yrðu bundin við ákveðin verk, sem út koma á árinu. Það mundi verða rithöfundum og skáldum aukin hvatning og jafnframt réttmæt verðlaun fyrir það, sem vel hefur verið gert á þessu sviði á ári hverju.

Ég hef einnig lagt til svolitla hækkun á fjárveitingunni til vísinda- og fræðimanna? Hún hefur lengi verið of lág, og er ástæða til þess að hækka hana svolítið.

Þá er í till. hv. fjvn. einn nýr liður í dálkinum um háskólann, þar sem er gert ráð fyrir 50 þús. kr. fjárveitingu til vísindastarfa. Mun það vera hugsað þannig, að háskólinn geti gert ungum vísindamönnum kleift að sinna ýmsum fræðistörfum, eftir að þeir hafa lokið embættisprófi, en áður en þeir ráðast til fastra starfa. Hér er um hið merkasta nýmæli að ræða, og vildi ég láta í ljós, að ég fagna því mjög, að þessi fjárveiting skuli hafa verið tekin upp. Ég er þess fullviss, að af henni á eftir að hljótast mikið gott. Það hefur löngum verið vandamál ýmissa ungra manna, sem hafa áhuga á vísindastörfum, að þá hefur einmitt fyrst eftir að þeir hafa komið frá prófborði skort verkefni við sitt hæfi og oft átt við ýmsa erfiðleika að etja, áður en þeir hafa fengið stöður, en með þessu móti ætti að vera möguleiki til þess að ráða hér nokkra bót á. 50 þús. kr. eru þó ekki mikil fjárhæð. Ég hef lagt til að hækka hana upp í 100 þús. Með þessari till. vildi ég þó í raun og veru fyrst og fremst undirstrika, hve hér er um merkilegt og gagnlegt nýmæli að ræða.

Ég hef einnig lagt til nokkra hækkun á fjárveitingunni til hinnar íslenzku orðabókar. Þar er verið að vinna að mjög nauðsynlegu verki, sem gengur því miður allt of seint, sökum þess um hve fáa starfsmenn er þar að ræða og hve fjárveitingar til þessarar starfsemi eru litlar. Sömuleiðis hef ég lagt til nokkra hækkun á styrkjum til stúdenta við erlenda háskóla.

Að síðustu er svo þess að geta, að ég hef lagt til, eins og ég raunar gerði í fyrra, að tekin yrði upp í fjárlfrv. 1 millj. kr. fjárveiting til byggingar heimavistarhúss fyrir menntaskólann hér í Reykjavík, en í fjárlfrv. er till. um 2.6 millj. kr. fjárveitingu til byggingar nýs menntaskóla hér í Rvík. Sannleikurinn er sá, að það, sem menntaskólann hér í Rvík vantar og hefur lengi undanfarið fyrst og fremst vantað, er bygging yfir utanbæjarnemendur, þ.e. heimavistarhús, sem geri utanbæjarnemendum jafnkleift að stunda sitt nám hér og á Akureyri eða á Laugarvatni, þ.e. við hina menntaskólana. Þó að menntaskólahúsið hér við Lækjargötu sé orðið gamalt, þá er þó enn svo, að það rúmar mjög sómasamlega þann nemendafjölda, sem árlega sækir hér um aðstöðu til menntaskólanáms. Ég skal þó að þessu sinni ekki ræða þær deilur, sem verið hafa mjög háværar undanfarið, um það, hvaða stefnu skuli taka í byggingarmálum menntaskólans yfirleitt, heldur aðeins undirstrika, að það, sem í raun og veru væri enn nauðsynlegra en bygging nýs menntaskólahúss, væri að bæta aðstöðu utanbæjarnemenda hér til þess að stunda námið. Það verður bezt gert með því að byggja heimavistarhús. Það háir ýmsum utanbæjarnemendum við skólann, hversu húsnæði og fæði hér í Rvík er dýrt, og það mundi án efa verða þeim, sem hingað vildu sækja til menntaskólanáms, til mjög mikils léttis, et hér væri sams konar aðstaða til heimavistar með svipuðum kjörum og er á Akureyri og á Laugarvatni.

Enn fremur hef ég flutt till. um hækkun á fjárveitingu til íþróttasjóðs, að nokkru í samræmi við þær óskir, sem ýmsum alþingismönnum hafa borizt varðandi aukna fjárveitingu til þeirrar starfsemi.

Hef ég þá lýst þeim till., sem ég hef flutt, þótt þær séu ekki enn komnar fyrir augu hv. þm., og vona, að þær mæti skilningi og hljóti góðar undirtektir.