27.04.1955
Sameinað þing: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í D-deild Alþingistíðinda. (3108)

216. mál, áburðarverð

Fyrirspyrjandi (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. landbrh. fyrir þau svör, sem hann gaf. Mér skildist á honum, að hann hefði skilið mitt mál þannig, að ég væri að gera kröfu til þess, að hann svaraði því, hver framleiðslukostnaður áburðarins væri. Því fór víðs fjarri, að ég gerði nokkra kröfu til þess. Ég sagði aðeins, að það hefði verið mjög eðlilegt að spyrja um það, gerði svo grein fyrir, hvers vegna ég gerði það ekki, en taldi hins vegar æskilegt, að því yrði svarað, ef tök væru á. Við það sætti ég mig svo fullkomlega að fá ekki svör við því, þar sem ráðh. lýsir því yfir, að það séu engin tök að gera það nákvæmlega enn. Stafi það hins vegar af því, eins og ráðh. benti á, að lánskjör verksmiðjunnar hafi þar áhrif á, þá stóð ég a. m. k. í þeirri meiningu, að lánskjör verksmiðjunnar væru fastákveðin og hefðu verið, jafnvel meðan hún var í byggingu, og mér var ekki kunnugt um, að það stæðu til neinar breytingar á því máli, svo að af þeim sökum hefði framleiðslukostnaðurinn átt að geta legið fyrir. En ég skil það vel, að það séu ýmis önnur atriði, sem ekki er komin nægilega mikil reynsla á, til þess að hægt sé að svara þessari spurningu með framtíðina fyrir augum. Hins vegar sýnist mér, að það hefði mátt gefa einhver svör, miðað við daginn í dag. En það er sem sagt þykkjulaust af minni hálfu, þó að þau svör séu ekki gefin, ekki sízt þar sem ég bar ekki þá fyrirspurn skriflega fram.

Að öðru leyti er ekki mikil ástæða né tækifæri til að ræða upplýsingar ráðh. á þessu stigi málsins. Það er þó ljóst, sýnist mér, af svörum hans, að þeir íslenzkir bændur, sem kaupa áburð framleiddan í Gufunesi á þessu ári, þurfa að borga fyrir hann, eftir upplýsingum ráðh., sama verð eða svipað verð og ef áburðurinn hefði verið fluttur inn. Þeirra hagræði af áburðarverksmiðjunni er því lítið. Það er sýnilegt, að þeir losna ekki við að greiða af hverri smálest af áburði það verð, sem borgað var áður fyrir flutningsgjöld á áburðinum til landsins. Ég býst við, að íslenzkir bændur hefðu þó vænzt þess, að áburðurinn lækkaði í verði við það að framleiða hann innanlands um það, sem næmi flutningskostnaði, t. d. frá Noregi, Hollandi eða Belgíu til Íslands, en sýnilegt er, að það verður ekki, ekki að þessu sinni að minnsta kosti. Af þessum sökum stafar það náttúrlega, að talsvert miklu lægra verð, kringum 500 kr. á hverja smálest. fæst fyrir áburðinn, þegar hann er fluttur úr landi.

Það er að sjálfsögðu og verður að sjálfsögðu sérstök skylda þm. að fylgjast með þessum málum í framtíðinni og óska þá eftir fyllri upplýsingum, þannig að í ljós komi þá síðar meir, — ég er ekki endilega að miða það við þetta tilfelli, — en að í ljós komi síðar meir, að bændur borgi þá ekki meira fyrir þann áburð, sem þeir kaupa í Gufunesi, heldur en sem svarar flutningskostnaðinum frá útlöndum, að það sé sem sagt ekki seldur áburður til útlanda svo langt undir kostnaðarverði, að þeim mismun yrði að bæta ofan á hann, þegar hann er seldur á innanlandsmarkaði, til þess að verksmiðjan geti borið sig.