27.04.1955
Sameinað þing: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í D-deild Alþingistíðinda. (3109)

216. mál, áburðarverð

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, og gefur ræða hv. fyrirspyrjanda í raun og veru ekki tilefni til að segja margt. Ég vildi þó aðeins segja nokkur orð út af því, sem hv. fyrirspyrjandi sagði um, að bændur mundu hafa búizt við því að fá áburðinn það ódýrara en hann hefur fengizt á erlendum markaði, sem næmi flutningsgjaldi til landsins.

Ég verð nú að halda því fram, að bændur muni ekki hafa búizt við þessu í fyrstu. Ég hef a. m. k. víða á bændafundum og pólitískum fundum einnig sagt það, að menn skyldu ekki búast við, að í upphafi gæti tilbúinn áburður orðið ódýrari í hlutfalli við erlent markaðsverð en hann hefur verið áður, og ég hygg, að þeir bjartsýnustu í þessum efnum varðandi áburðarverksmiðjuna hafi ekki getað vænzt þess.

Hitt er svo allt annað mál, að ég vona fastlega, að þetta komi, þótt síðar verði. Þegar búið er að létta verstu byrðunum af þessu fyrirtæki að því er snertir þau lán, sem þar á hvíla og óhagstæðust eru, þá gætum við vænzt þess, að það sigi mjög í þessa átt, og það er vitanlega það, sem allir óska eftir, og er ég að sjálfsögðu hv. fyrirspyrjanda sammála um, að það þyrfti að verða sem fyrst, að hægt væri að koma því þannig fyrir. En ég hygg, að bændur landsins. sem nota áburðinn, sætti sig fyllilega við það einmitt að fá áburðinn nú fyrsta árið og jafnvel fyrstu árin með heimsmarkaðsverði.