30.03.1955
Sameinað þing: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í D-deild Alþingistíðinda. (3114)

217. mál, Marshalllán eða framlag

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Fé það sem Ísland fékk í ágúst 1948 og átt mun vera við í þessari fsp., nam 2 millj og 300 þús. dollurum og var veitt sem afturkræft lán. Lánið er Marshalllán til 35 ára með 2½ vöxtum. Fyrstu afborgun á að greiða 1956, en vextir hafa nú verið greiddir af láninu í 4 ár.

Aðdragandi málsins var sá, að þáverandi ríkisstj. lagði fyrir Alþingi 1948 frv. til laga um heimild til 15 millj. kr. lántöku innanlands eða erlendis til þess að afla síldarvinnslutækja, þ. á m. síldarvinnsluskips og nýrrar verksmiðju í Rvík. Var þessi tilgangur með lántökunni tekinn fram í athugasemdunum við frv. og í umr. á hv. Alþingi. Hefur ráðstöfun lánsins mótazt af þessu, en hlutaðeigandi fjmrh. hafa ákveðið lánskjörin, þegar féð hefur verið lánað út innanlands.

Þá vil ég gefa upplýsingar um það, hvernig þessu fé hefur verið ráðstafað:

Í fyrsta lagi: Til síldarnótakaupa var varið 532 þús. dollurum, og átti að greiða andvirði þeirra nóta í íslenzkum krónum strax í ríkissjóð, en Landssamband íslenzkra útvegsmanna fékk þó gjaldfrest á 939281 kr., og hefur þetta fé ekki enn verið greitt inn. En afganginum af andvirði síldarnótanna, sem inn var borgað í ísl. kr., var ráðstafað þannig, og þau lán, sem ég tel, voru veitt með 2½ ársvöxtum, þ. e. sömu vöxtum og eru af Marshallláninu, til 15 ára, og greiða á afborganir og vexti í íslenzkum kr. með dollaragengi á gjalddaga: Það er þá fyrst síldar- og beinamjölsverksmiðja Fáskrúðsfjarðar 24509 dollarar, fiskimjölsverksmiðja að Hofsósi 12254 dollarar, Fiskiðjan h/f, Hornafirði, 12254 dollarar, Hraðfrystihús Grundarfjarðar 12254 dollarar, Fiskimjöl h/f, Ísafirði, 13786 dollarar, Hraðfrystihús Óslafsvíkur 13786 dollarar, Hraðfrystihús Eskifjarðar 15318 dollarar, Hraðfrystihús Hellissands 13786 og Fiskimjöl h/f Eyrbyggja 12254 dollarar. Samtals eru þetta 130208 dollarar, og jafnvirði þeirra í ísl. kr. sem sagt kom inn fljótlega af andvirði síldarnótanna, var skilað inn í ísl. kr. og lánað þessum aðilum. Hér er nær eingöngu um að ræða beinamjölsverksmiðjur, og þessi lán voru veitt á árunum 1951 og 1952 af þessu fé, sem inn kom. En eftirstöðvar af andvirði síldarnóta standa inni í Landsbankanum 78023 kr. og í Útvegsbankanum 370017 kr.

Þá kemur annar flokkur lána, og það eru lán, sem veitt voru strax 1948–49. Það er þá fyrst í þeim flokki lán til Hærings h/f 625 þús. dollarar, lán til síldarverksmiðja ríkisins 159946 dollarar, og svo til annarra síldarverksmiðja sem hér segir: Lýsi & Mjöl h/f, sem mun vera í Hafnarfirði, 98325 dollarar, Síldar- og fiskimjölsverksmiðja Akraness 44961 dollarar, síldar- og fiskimjölsverksmiðja Reykjavíkur 36397 dollarar.

Þessi lán, sem ég hef talið og veitt voru 1948–49, eru með 2½% vöxtum og til 10 ára.

Þá kemur lán til Faxa 677968 dollarar. Í samningi þeim, sem gerður var við Faxa h/f 14. nóv. 1949, er um það samið milli stjórnar samlagsfélagsins Faxa og ríkisstj., að fari svo, að ríkisstj. þurfi ekki að endurgreiða Marshalllánið, beri samlagsfélaginu Faxa að endurgreiða lán þetta með því gengi í Bandaríkjadollurum sem verða kann á gjalddögum, en þó ekki hærra gengi en var, er ríkisstj. tók sitt lán í ágúst 1948. Komi til endurgreiðslu ríkisstj. á einhverjum hluta Marshalllánsins, gilda framangreind ákvæði um gengi á Bandaríkjadollurum hlutfallslega miðað við lánsfjárhæð samlagsfélagsins Faxa á móts við allt lánið, er ríkisstj. tók á fyrrgreindum tíma, en hámarksákvæði gildir ekki um þann hundraðshluta lánsins, sem ríkissjóður verður að endurgreiða. Þetta ákvæði úr lánssamningnum var svo tekið upp í skuldabréfið. Þetta lán til Faxa er til 30 ára. Fyrir þessu láni er veð og ábyrgð Reykjavíkurbæjar til viðbótar, en fyrir öðrum lánum af þessu fé til frystihúsa og verksmiðja er veð í þeim mannvirkjum, sem fyrir lánin eru byggð, eða þeim vélum, sem fyrir lánið eru keyptar.

Loks kemur lán til fiskimjölsverksmiðja, líka veitt á árunum 1948–49: Kaupfélag Steingrímsfjarðar 17496 dollarar, Hraðfrystihús Eskifjarðar 17496 dollarar, Fiskimjölsverksmiðja Bolungavíkur 12439 dollarar, Kaupfélag Dýrfirðinga 12439 dollarar, Hraðfrystihús Ólafsfjarðar 21440 dollarar, Sigurður Ágústsson 27597 dollarar. Lán þessi áttu að greiðast í ísl. kr. með dollaragengi á gjalddaga. Ársvextir eru 2½%. Lánstími var 10 ár, en gefinn var kostur á að lengja hann í 15 ár, og hafa sumir lántakendur tekið þann kost.

Loks er þess að geta, að afgangur Marshalllánsins fór til almennra vörukaupa, og var andvirði gjaldeyrisins borgað til ríkissjóðs í íslenzkum krónum og stendur inni hjá ríkinu. Það eru 106810 kr.

Þá hefur verið gerð grein fyrir allri fjárhæðinni, sem tekin var að láni hjá Marshallstofnuninni, og er þá niðurstaðan sú, að féð er í útlánum, að undanskildum 559394 kr., sem standa inni, mestmegnis á sérreikningum í Landsbankanum og Útvegsbankanum. En eins og ég tók fram, hefur ekki komið til afborgunar enn þá af Marshallláninu. Fyrsta afborgun á að verða næsta ár, 1956, en vextir hafa verið innheimtir af láninu

Loks er síðasta spurningin, og við henni er það svar, að allir aðilar, sem af láninu fengu fé, hafa gefið út skuldabréf fyrir sínum hluta, og Framkvæmdabankanum hefur verið falin innheimtan.