30.03.1955
Sameinað þing: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í D-deild Alþingistíðinda. (3116)

217. mál, Marshalllán eða framlag

Fyrirspyrjandi (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þá greinargóðu skýrslu, sem hann las hér upp sem svar við fsp. minni, og tel ég það svar í öllum atriðum fullnægjandi.

Það er ljóst af svari hæstv. fjmrh. í fyrsta lagi, hvernig þessu láni hefur verið úthlutað, og í öðru lagi er það einnig ljóst, að allir lántakendur hafa ekki búið við sömu kjör um endurgreiðslu lána. Vaxtakjör virðast vera þau sömu hjá öllum, en lánstíminn hins vegar ekki, þar sem sumir hafa fengið lánið til 15 ára, mega endurgreiða það á 15 árum, aðrir verða að endurgreiða það á 10 árum, einn flokkur má velja um, hvort hann vill endurgreiða það á 10 eða 15 árum, og einn aðili fær lánið til 30 ára.

Þá kom einnig í ljós, að einn aðili af þeim mörgu, sem hér eiga hlut að máli, fékk inn í sitt skuldabréf sérákvæði um það, með hvaða gengi hann skyldi endurgreiða lánið, ef til þess kæmi, að hæstv. ríkisstj. fengi þessu láni breytt í óafturkræft framlag. Var ljóst af því, sem hæstv. fjmrh. las upp, að ef til þess hefði komið á þessum tíma, sem liðinn er, eða kæmi hér eftir, að ríkisstj. dytti í hug og tækist að fá þessu láni, sem um er að ræða, breytt í óafturkræft framlag, þannig að hún þyrfti ekki að endurgreiða það, þá þarf þessi eini aðili ekki að endurgreiða hærri upphæð en sem svarar til kr. 6.50 rúml. fyrir hvern dollara, þó að aðrir verði að borga hærri upphæð, þar sem þeir hafa engin sérákvæði fengið í skuldabréf sín um gengisfyrirvara.

Ég hef að sjálfsögðu ekki tíma til að ræða þessi atriði hér, en áskil mér að sjálfsögðu rétt til þess að gera það síðar, ef tækifæri og ástæða gefst til.

Um skýrslu þá frá hv. þm. Vestm. sem hæstv. dómsmrh. las hér upp, væri í sjálfu sér ýmislegt að segja. Ég vil þakka fyrir hana. Hún gaf ákveðnar upplýsingar og vísbendingar í þessu máli og hefur sjálfsagt orðið til þess, að menn hafa séð þessi mál í réttu ljósi. Það má að sjálfsögðu ræða um það kannske deila um það, hvað mikil þörf var á að byggja Faxaverksmiðjuna á sínum tíma, en út í þau atriði ætla ég sem sagt ekki að fara hér, enda hef ég ekki til þess tíma, þar sem mér eru aðeins skammtaðar fimm mínútur.