30.03.1955
Sameinað þing: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í D-deild Alþingistíðinda. (3117)

217. mál, Marshalllán eða framlag

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er nú auðvitað ekki tími til þess að ræða þessa skýrslu, sem hér hefur verið gefin í sambandi við þessar lánveitingar. þó að hún vissulega gefi fyllilega tilefni til þess. En ég vildi aðeins í sambandi við þessa skýrslu vekja athygli á því, að hér hefur verið um að ræða allvíðtæka lánastarfsemi til ýmissa aðila í landinu, án þess að öllum landsmönnum hafi verið gefinn kostur á því að sækja um þessi lán eða að njóta þessara lána. Hér hefur verið viðhöfð sú regla að láta einn njóta lánskjara eftir þessum reglum og annan eftir enn öðrum reglum. Og menn hafa aðeins getað heyrt það á skotspónum, að nú væri farið að lána ýmsum aðilum af þessu fé. Ég vil t. d. geta þess að mér er kunnugt um það, að mitt heimapláss hafði sótt tvívegis um lán af þessu fé, eftir að okkur var kunnugt um það, að hliðstæðir aðilar fengu þessi lán, en okkar síldar- og fiskimjölsverksmiðja, sem byggð var á þessu tímabili, gat aldrei fengið lán, þó að ég sjái nú samkv. þessari skýrslu að nágrannabyggðarlög okkar hafi fengið ekki aðeins einu sinni, heldur jafnvel tvisvar sinnum lán af þessu fé. Sem sagt: reglan hefur verið sú að lána út til allmargra aðila með mjög misjöfnum kjörum án þess að auglýsa lánin, þannig að menn ættu jafnan kost á að sækja um þau. Það hefur verið valin sú leið að pukra með þetta og mismuna svo mönnum, þegar hægt hefur verið að koma því við.